3 C
Grindavik
1. mars, 2021

Orkumálastjóri vill leggja niður rammaáætlun

Skyldulesning

Orkumálastjóri telur að röðun og flokkun virkjanakosta gangi oft þvert …

Orkumálastjóri telur að röðun og flokkun virkjanakosta gangi oft þvert á almenna skynsemi og mikilvægar forsendur séu oftar en ekki gripnar úr lausu lofti.

Rax / Ragnar Axelsson

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri telur æskilegt að leggja niður rammaáætlun og efla stofnanir sem fara með umhverfis- og skipulagsmál til þess að meta hugsanlega virkjunarkosti á skipulagsstigi. Kemur þetta fram í jólaerindi orkumálastjóra.

„Ég held við verðum að gera okkur ljóst að allt þetta ferli er orðið langur, erfiður draumur eða martröð. Það er kominn tími til þess að vakna upp frá þessu og finna nýjar leiðir,“ skrifar hann eftir að hafa rakið vinnu rammaáætlunar frá árinu 2008. 

Þegar lög hafi verið sett um rammaáætlun hafi þau falið í sér að framkvæmd þeirra var falin umhverfisráðuneyti í stað iðnaðarráðuneytis líkt og áður var, en árið 2008 þegar vinna hófst við annan áfanga hennar hafi fulltrúar víða að setið í verkefnisstjórn. Í þriðja áfanga, eftir að rammaáætlunin var lögfest, hafi hins vegar verkefnisstjórnin orðið fámennari og einsleitari.

„Í þriðju umferð var verkefnisstjórnin fámennari og einsleitari. Sama gilti um faghópana og það starf sem þar var unnið. Starfið beindist að því að safna í excelskjöl smáum og stórum ávirðingum á mögulega virkjunarkosti með einkunna- og stigagjöf sem var illskiljanleg fyrir þá sem stóðu utan við starfið.

Röðun og flokkun virkjanakosta gekk að mínu mati þvert á almenna skynsemi og mikilvægar forsendur voru oftar en ekki gripnar úr lausu lofti eins og t.d. fyrir Skatastaðavirkjun. Enda varð snemma ljóst að engin samstaða var á Alþingi um afgreiðslu þessa áfanga og nú er vinna við fjórða áfanga rammaáætlunar hafin án þess að afgreiðslu þriðja áfanga sé lokið,“ skrifar hann og bætir við að einföld lausn væri að leggja niður rammaáætlun.

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri.

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri.

Ljósmynd/Aðsend

Friðlýsing án tímamarka alvarleg réttindaskerðing

Í framhaldinu skrifar Guðni að friðlýsing án tímamarka sé í raun alvarleg skerðing á rétti komandi kynslóða, til þess að taka lýðræðislegar ákvarðanir um mál á hverjum tíma.

„Ef þessar stofnanir telja að veruleg verðmæti séu í hættu og að sameiginlegir samfélagslegir hagsmunir geti verið meiri en svo að hugsanlegar framkvæmdir geti veri ðá ábyrgð viðkomandi sveitarfélaga eingöngu þá geti þær frestað málinu og gert tillögu til Alþingis um misjafnlega langt móratóríum eða stöðvun undirbúnings og framkvæmda,“ skrifar hann.

Slík stöðvun gæti staðið í 5, 10 eða 20 ár eftir því hve álitaefnin vega þungt eða hvort þau krefjast dýpri athugana eða þekkingar. Alþingi verði síðan að afgreiða tillögurnar innan ákveðins frest til þess að ákvörðunin öðlist gildi.

Innlendar Fréttir