3 C
Grindavik
16. janúar, 2021

Órólegt tímabil framundan

Skyldulesning

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er ánægður með að fjöldi kórónuveirusmita innanlands aukist ekki á milli daga. Heldur fleiri hafi samt verið utan sóttkvíar í dag heldur en í gær. Sex smit greindust í dag og voru fimm utan sóttkvíar.

Hann segir einstaklingana sem eru að greinast utan sóttkvíar vera fólk sem, að sögn smitrakningateymisins, tengist hópum í flestum tilfellum. „Það tekur svolítinn tíma að ná utan um það,“ segir hann.

Þórólfur bætir við að mikilvægt sé að fólk passi sig áfram og haldi uppi sóttvörnum „þannig að fólk fari ekki að lenda í einangrun um jólin. Það væri mjög slæmt“.

Beðið eftir skimun við kórónuveirunni við Suðurlandsbraut.

Órólegt tímabil er að ganga í garð sem nær fram yfir áramótin, að hans sögn. „Það er mikið af fólki af erlendu bergi brotið að fara núna út til sinna landa og kemur aftur til baka eftir áramótin. Þetta er tímabil þar sem við þurfum að vera á varðbergi.“

Margt getur haft áhrif á bólusetningu

Spurður út í bóluefnamál segir hann undirbúning vera í fullum gangi fyrir komu bóluefnisins 28. desember. Vonir standa til að hægt verði að byrja að bólusetja valda hópa daginn eftir. Slæmt veður og erfið flutningsskilyrði geta þó haft áhrif á það. „Það er ýmislegt sem getur komið í veg fyrir að það sé hægt að byrja strax,“ segir hann.

Hann kveðst ekki vita hver fær fyrstu sprautuna, það sé ekki á hans borði. Spurður hvenær hann verði sprautaður segist hann ekki vita það. „Ég er ekki framarlega á listanum.“

Innlendar Fréttir