Íslenski boltinn

vísir/vilhelm
Örvar Eggertsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við HK. Hann kemur til liðsins frá Fjölni sem hann lék með í sumar.
Örvar er fyrsti leikmaðurinn sem HK fær eftir að síðasta tímabili lauk. Þar enduðu HK-ingar í 9. sæti Pepsi Max-deildarinnar, annað árið í röð.
Hinn 21 árs Örvar lék fimmtán leiki með Fjölni í Pepsi Max-deildinni síðasta sumar. Fjölnismenn enduðu í tólfta og neðsta sæti deildarinnar og féllu.
Örvar kom til Fjölnis frá Víkingi. Hann varð bikarmeistari með Víkingum í fyrra. Örvar hefur alls leikið 61 leik í deild og bikar hér á landi og skorað fjögur mörk.
Þess má geta að Örvar varð bikarmeistari í hástökki á síðasta ári. Hann stökk þá 2,01 metra. Örvar er af miklum frjálsíþróttaættum en foreldrar hans, Eggert Bogason og Ragnheiður Ólafsdóttir, voru bæði afreksfólk í frjálsum.