4 C
Grindavik
7. mars, 2021

Ósáttur við að þurfa að taka fisk úr sölu

Skyldulesning

Kristján Berg, betur þekktur sem Fiskikóngurinn.

mbl.is/Golli

Kristján Berg, betur þekktur sem Fiskikóngurinn, segir farir sínar ekki sléttar í færslu á Facebook sem hann birti í dag. Heilbrigðiseftirlitið hefur nú gert honum að taka úr sölu nokkrar tegundir af fiski sem unninn er með aldagömlum hefðum. 

„Mér finnst eins og það sé verið að rífa úr mér hjartað og sálina á sama tíma,“ skrifar Kristján.

Kristján hefur rekið fiskverslun í 31 ár. Í gær fékk hann heimsókn frá Heilbrigðiseftirlitinu. Þá var honum gert að taka úr sölu eina tegund af harðfiski, hnoðmör, reyktan lunda, hákarl og eitthvað fleira. Á þeim tíma sem hann hefur haft fiskbúðina opna segir hann fiskbúðir einnig þurft að hætta að selja hrefnukjöt, svartfugl, sel, hnísukjöt og saltað selspik. 

„Hnoðmörina hef ég alltaf keypt af sömu konunni á Vestfjörðum frá því ég man eftir mér.

Reykti lundinn var ekki með límmiða, framleiðanda, síðasta söludag og þess háttar.

Hákarlinn er líka frá einum sem ég hef keypt af í tugi ára. Hann verkar þetta meðfram öðru starfi og er sennilega ekki með leyfi frá MAST til þess að verka hákarlinn,“ skrifar Kristján. 

„Kallast íslensk menning“

Hann veltir því fyrir sér hvort Íslendingar vilji að þessar aldagömlu hefðir lognist út af. 

„T.d. eru þeir sem verka siginn fisk, ekki með leyfi, þeir taka bara fiska og hengja upp utan á bátanna sína og láta síga. Harðfiskurinn er hengdur upp í hjöllum og vindurinn látinn blása um fiskinn þangað til að hann verður þurr og breytist í harðfisk,“ skrifar Kristján. 

„Þessir aðilar eru ekki með leyfi frá MAST til þess að verka og selja þessi ramm íslensku matvæli. En þetta hefur verið gert í hundruð ára og kallast íslensk menning.“ 

Innlendar Fréttir