Óskar eftir á­frýjunar­leyfi Hæsta­réttar – Vísir

0
35

Fræðagarður, stéttarfélag blaðamannsins Björns Þorlákssonar, hefur óskað eftir áfrýjunarleyfi Hæstaréttar vegna máls sem Björn höfðaði gegn Kjara-og mannauðssýslu ríkisins.

Þetta staðfestir Björn í samtali við Vísi. Kröfu Björns um miskabætur vegna uppsagnar hans hjá Umhverfisstofnun árið 2021 var vísað frá í Landsrétti. Þar var snúið við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu.

„Stéttarfélagið er hissa á niðurstöðunni og mjög ósammála túlkun Landsréttar,“ segir Björn. Hann segir stéttarfélagið alltaf hafa verið þeirrar skoðunar að reyna yrði á málið fyrir dómstólum. Staðan sé 1-1 núna.

„Ég geri mér enn vonir um að vinna leikinn 14-2!“ segir Björn. Hann segir augljóslega slæmt fyrir launþega þegar komi að geðþóttaákvörðunum forstjóra hins opinbera að Landsréttir komist að allt annarri niðurstöðu en héraðsdómur. Málinu sé ekki lokið.

Hafði áður verið gert að greiða Birni Forsaga málsins er sú að Björn var fyrirvaralaust kallaður á fund með forstjóra stofnunarinnar og mannauðsstjóra í nóvember árið 2020. Honum var þar afhent bréf þar sem honum var tilkynnt um verulegar breytingar á verkefnaskipulagi og áherslum tengdum starfi hans

Þá var honum boðið að taka þátt í hæfnismati, sem hann þáði með þeim fyrirvara að það stæðist lög, sem hann efaðist um. Í janúar á þar síðasta ári var Birni síðan tilkynnt að leggja ætti starf upplýsingafulltrúa niður.

Um mánuði síðar auglýsti Umhverfisstofnun starf sérfræðings í stafrænni þróun, fræðslu og miðlun til umsóknar. Héraðsdómur gerði ríkinu að greiða Birni 6,8 milljónir króna vegna málsins, þar af þrjár milljónir króna í miskabætur. Þeim dómi var snúið við af Landsrétti eins og áður segir.