oskar-hrafn-i-itarlegu-vidtali:-„laerdomurinn-felst-i-thvi-ad-stiga-aftur-a-hjolid-thegar-thu-hefur-dottid“

Óskar Hrafn í ítarlegu viðtali: „Lærdómurinn felst í því að stíga aftur á hjólið þegar þú hefur dottið“

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks var gestur í sjónvarpsþætti 433 á Hringbraut í gær en Besta deild karla í knattspyrnu fer af stað eftir tólf daga.

Blikar enduðu í öðru sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og stefna á það að taka næsta skref í ár, vinna þann stóra en Breiðablik hefur aðeins einu sinni orðið Íslandsmeistari.

„Við erum búnir að vinna út úr þeim vonbrigðum, ég sæti varla hér á móti þér ef við værum ekki búnir að því. Við höfum reynt að dvelja sem minnst við það og skilja það eftir. Tímabilið í fyrra var að mörgu leyti frábært, þó það hafi endað eins og það endaði. Hluti af því sem hefur keyrt liðið áfram er metnaðurinn til að gera betur,“ sagði Óskar Hrafn í viðtalinu.

Breiðablik var á toppi deildarinnar eftir 20 umferðir en í 21 umferð tapaði liðið gegn FH og Víkingar skutu sér fram fyrir í röðinni.

video

Gott að máta sig við stóru strákana:

Óskar Hrafn er ánægður með undirbúningstímabilið en Blikar fóru í sterkt mót á Spáni í febrúar þar sem liðið stóð sig vel.

„Það hefur gengið vel í vetur, það er auðveldara að svara þessu þegar mótið er farið af stað. Við fórum á mót í byrjun febrúar sem litar undirbúningstímabilið, við æfðum mjög vel fyrir það mót og ætluðum að vera í góðu standi. Við vildum mæla okkur við öflug dönsk lið og Brentford B, við áttum fína leiki þar og eyddum mikilli orku. Við lendum í því við heimkomu að spila fimm leiki á 15 dögum í Lengjubikarnum, þar súrnaði þetta í þreytu. Bæði andlegri og líkamlegri, síðustu vikur hafa verið góðar. Ég get varla beðið eftir að sjá liðið gegn Víking á sunnudag,“ sagði Óskar en liðin mætast þá í leik Meistara meistaranna.

„Það er líka lærdómur að spila leiki þreyttur, lærdómur að spila leiki andlega þreyttur. Það má alltaf draga lærdóm af öllu.“

Mynd/Helgi Viðar

Í Atlantic bikarnum sýndu Blikar góða frammistöðu og gátu þar mátað sig við andstæðinga í svipuðu styrkleikaflokki og koma upp í Evrópukeppninni í sumar.

„Það var markmiðið að spila fleiri leiki á móti erlendum liðum, frá því að ég kem haustið 2019 til Breiðablik þá höfum við spilað ellefu leiki við erlend lið. Við spilum tvo æfingaleiki við Norköpping í febrúar 2020 rétt áður en COVID skellur á. Svo er það einn útileikur við Rosenborg í Evrópudeildinni það árið, þeir leikir hjálpuðu okkur mjög mikið í Evrópuleikjunum í fyrra. Á sama hátt vona ég að þessir leikir í ár muni hjálpa liðinu, þetta eru öðruvísi leikir. Heima þekkja allir alla og þú ert nánast í vernduðu umhverfi. Það er kúnst að halda áfram að þora að vera þú sjálfur í Evrópu,“ sagði Óskar

„Það er auðvelt að fara inn í skelina og vera lítill, fá minnimáttarkenndina. Trúa því að við séum fjórða lélegasta deildin í Evrópu, listinn lýgur ekki og við erum fjórða lægsta þjóðin. Það er mikilvægt að leikmenn upplifi það ekki, ef þú mætir með sjálfstraust í molum í Evrópuleiki þá eru nánast engar líkur á að þú náir árangri,“ segir Óskar.

„Hluti af því að hafa sjálfstraustið er að þú mátir þig reglulega við þessa andstæðinga.“

Verður að þora að falla á sverðið:

Blikar gerðu vel í Evrópu í fyrra þar sem liðið hafði dregið mikinn lærdóm af stóru tapi gegn Rosenborg árið 2020.

„Hluti af því að það gekk svona vel, var líka að við förum í Rosenborg leikinn og vorum gagnrýndir fyrir það. Þú talaðir um hrokafullt upplegg, hluti af því er að við fórum í fyrra og spiluðum aftur og vorum við sjálfir. Þú verður að þora að falla á sverðið. Ég tek dæmi, þú lærir að hjóla. Ef þú þorir ekki að detta þá getur þú ekki lært að hjóla. Lærdómurinn felst í því að stíga aftur á hjólið þegar þú hefur dottið. Það var enginn ótti,“ segir Óskar.

Mynd/Helgi Viðar

„Það er alveg ljóst að Breiðabliks liðið í fyrra var betra en árið 2020. Sem betur fer, það væri ekki gott af menn væru að eyða öllum þessum tíma í þetta án þess að vera í framför. Svo er ekki hægt að stoppa og vera rosalega ánægður með sjálfan sig, fótboltinn er núvitund og þú færð ekkert fyrir árið í fyrra,“ segir Óskar.

Stór skörð að fylla í Kópavogi:

Breiðablik hefur misst þrjá algjöra lykilmenn frá síðustu leiktíð en þeir Árni Vilhjálmsson, Thomas Mikkelsen og Alexander Helgi Sigurðarson hafa allir horfið á braut.

„Í fyrra missum við Brynjólf Andersen skömmu fyrir mót sem var mjög stór hlekkur og mikilvægur póstur í sóknarleiknum okkar. Það tók okkur tíma að finna taktinn, mér finnst við þekkja betur fyrir hvað við stöndum. Ég held að við verðum fljótari að finna hvað er að ef hlutirnir eru ekki að ganga, leikmenn þekkja hlutverkin betur og þjálfararnir þekkja betur hverju þeir vilja ná fram. Mér líður eins og við eigum að vera betra lið,“ segir Óskar.

„Þú fyllir ekkert í þessi skörð, Thomas Mikkelsen er markaskorari af guðs náð og frábær einstaklingur. Það er erfitt að finna mann eins og hann. Það er bara einn Árni Vill, hann gaf okkur svakalega mikið innan sem utan vallar. Við höfum ekki fyllt þessi skörð en fengið góða menn inn í staðinn. Alexander Helgi átti frábært tímabil, hann fékki ekki það hrós sem hann átti skilið. Við söknum þessara manna, við söknum Alexanders mikið. Við fögnum því að hann hafi farið til Svíþjóðar að læra og spila, við erum stoltir af Árna hvernig hann gert sig í frönsku 2 deildinni. Við höfum ekki fengið menn algjörlega í staðinn fyrir þá, við höfum fengið góða leikmenn sem eru hungraðir,“ segir Óskar sem hefur verið virkur á leikmannamarkaðnum í vetur.

Mynd/Getty

Óli Kristjáns er ekki yfirmaður:

Ólafur Kristjánsson var kynntur sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðablik á dögunum, hann er þó ekki yfirmaður Óskars.

„Ég bara verð að viðurkenna að ég hef ekki séð skipuritið, hann er ekki yfirmaður minn heldur erum við svona hlið við hlið. Ég held að Breiðablik sé ekki með neinn rosalega stífan strúktur. Ég held að samstarfið hingað til hafi gengið framúrskarandi vel, við vöknum allir sem vinnum fyrir Breiðablik til að gera sem best fyrir félagið. Óli er öflugur maður með gríðarlega reynslu, maður sem við bindum miklar vonir að koma með alla sína þekkingu og vigt inn í félagið,“ segir Óskar.

Ólafur Kristjánsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðabliki

Allir að tala um Breiðablik:

Eftir að Óskar tók við Breiðablik hefur mikið umtal verið í kringum félagið, kjaftasögur á kreiki og allir virðast hafa áhuga á því sem Óskar er að gara.

„Ég átta mig ekki á því, ég veit ekki hvað það er sem veldur því. Eigum við ekki að segja að það sé jákvætt, auðvitað er ekki gaman að heyra hluti sem eru ekki sannleikanum samkvæmt. Þetta er eins og þetta er, það er ekkert sem ég get sagt sem breytir því. Menn hafa gaman af því að tala um okkur,“ segir Óskar en hlaðvörp hafa umturnað því hvernig fjallað er um leikinn fagra.

„Ég væri alveg til í að menn myndu aðeins athuga staðreyndir. Þetta er þróun, hér og erlendis. Væntanlega hjálpar þetta við til að auka áhugann, maður getur verið ósammála þessu og hinu. Fúll út í þennan og hin, vonandi eru allir að vinna að því að bæta íslenskan fótbolta. Þetta er eins og það er.“

Stefna á þann stóra og hafa rétt á því:

Óskar segir Blika hafa rétt á því að stefna á að vinna Bestu deildina í ár eftir góðar frammistöður yfir langt skeið.

„Við höfum rétt á því að segja að við ætlum að berjast um titilinn, gera betur en í fyrra. Mér finnst við hafa unnið fyrir því með frammistöðu yfir lengri tíma, mér fannst við ekki hafa það í fyrra þegar við okkur var spáð efsta sætinu. Það er auðvelt að tala um að ég ætli að verða meistari,“ segir Óskar og tekur dæmri frá því að hann var leikmaður.

„Ég var í KR liði frá 1990 til 1997 sem átti að verða meistari og talaði um að verða meistari. Við töluðum meira en við gerðum, við lifðum ekki eins og meistarar og við höguðum okkur ekki eins og meistarar. Það er auðvelt að tala um það verða meistari. Við erum búnir að vinna okkur inn réttinn til að segjast ætla að keppa um titilinn, við þurfum að passa okkur að haga okkur í samræmi við það. Það fylgir því ábyrgð að ætla að vinna titil.“

Óskar segir þó að það verði að passa sig á því að skilgreina ekki sjálfan sig bara frá titlum.

„Þetta er ekki eins og menn tali um það alla daga um að verða meistari, það er þannig að þegar menn hafa komist nálægt þessu að þá er lítið annað í stöðunni en að fara á eftir titlinum.,“ segir Óskar.

„Það er mikilvægt að menn passi sig á því að skilgreina ekki endilega út frá titlunum sem þú vinnur. Titill eða dauði, þá væri ég ekki örugglega hérna. Þá hefði ég ekki séð neina glætu í að halda áfram eftir vonbrigði síðasta árs.“

„Þú vilt vinna alla leiki. Leiðin að titlinum, horfa frekar á ferðalagið frekar en áfangastaðinn. Við eigum Keflavík í fyrsta leik og spila hann eins vel og þú getur. Ef þú sækir bara sjálfsmynd þína í tilum, þá enda flestir út í skurði ósáttir með sjálfan sig. Það er hættulegt að skilgreina sig bara út frá titlum. Allir vilja vinna titla sem eru með góð lið og góða leikmenn, það ætla sér það allir. Það eru mörg lið sem telja sig geta gert tilkall til titilsins,“ segir Óskar.

Hann segir að peningaeyðsla Vals eða annara liði eigi að vera fagnaðarefni fyrir deildina.

„Það eru mörg lið búin að búa þannig um hnútana, þannig á það að vera. Því mun meiri pening sem Valur eyðir í leikmannahópinn sinn því mun betra fyrir aðra. Þeir munu hækka rána, í stað þess að kvarta undan því þá eigum við að fagna því. Þeir hækka rána í starfi liðanna í deildinni,“ segir Óskar

video


Posted

in

,

by

Tags: