1.3 C
Grindavik
29. janúar, 2023

Ótrúleg byrjun Guðmundar – Unnið allar sínar skákir og er einn efstur á Evrópumótinu í skák

Skyldulesning

Stórmeistarinn Guðmundur Kjartansson hefur byrjað ótrúlega vel á Evrópumeistaramótinu í skák sem nú stendur yfir í bænum Terme Catez í Slóveníu. Eftir fjórar umferðir hefur Guðmundur unnið allar sínar skákir og er einn efstur í mótinu af alls 317 þátttakendum.

Byrjun Guðmundar er í raun með hreinum ólíkindum því í upphafi móts var hann skráður nr. 133 í styrkleikaröðinni. Stórmeistarinn íslenski var þó ekki að velta því mikið fyrir sér og hefur þegar lagt þrjá sterka stórmeistara að velli. Í fjórðu umferð vann hann glæsilegan sigur á þýska stórmeistaranum Rasmus Svane sem var nr.24 í styrkleikaröðinni.

Hér geta áhugsamir rennt yfir handbragð Guðmundar í skákinni.

Ekki hefur verið parað í næstu umferð en ljóst er að íslenskir skákáhugamenn munu bíða í ofvæni eftir fimmtu umferð mótsins sem fram fer á morgun kl.15.00 og hver andstæðingur Guðmundar verður. Hægt verður að fylgjast með beinni útsendingu skákarinnar í gegnum Skák.is.

Guðmundur er ekki einn á ferð í Slóveníu því hinn þaulreyndi stórmeistari Hannes Hlífar Stefánsson tekur einnig þátt í mótinu. Hannes hefur einnig farið ágætlega af stað í mótinu en hann hefur önglað saman þremur vinningum í umferðunum fjórum.

Nánari upplýsingar um mótið má finna á Skák.is

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir