Nýtt afbrigði kórónuveirunnar hefur verið í mikilli sókn á Indlandi að undanförnu en afbrigðið hefur einnig greinst í Evrópu. Afbrigðið er sagt meira smitandi en önnur og einkenni þessi að vissu leyti öðruvísi en annarra afbrigða. Afbrigðið hefur fengið heitið Arcturus. Það er nú ráðandi afbrigði á Indlandi og hafa yfirvöld í Haryana og Kerala gripið til þess ráðs að setja á grímuskyldu á almannafæri.
Indverska heilbrigðisráðuneytið greip nýlega til þess ráðs að halda æfingar til að sjá hvort sjúkrahús landsins séu undir það búin að taka við fjölda sjúklinga.
Auk hefðbundinna einkenna á borð við hita og hósta hafa sjúklingar upplifað „klæjandi“ tárubólgu og augnkvef.
Dr Vipin Vashisttha, barnalæknir og fyrrum yfirmaður samtaka indverskra barnalækna, sagði í samtali við The Hindustan Times að óvenjulegt sé að sjúklingar fái einkenni á borð við augnkvef í tengslum við kórónuveirusmit.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO beinir nú sjónum sínum að afbrigðinu, sem er er afbrigði af Ómíkron og heitir XBB.1.16 en er eins og áður sagði nefnt Arcturus.
Mirror segir að rannsóknir sýni að afbrigðið sé allt að 1,2 sinnum meira smitandi en fyrri undirafbrigði.