8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Óvissustig eftir að tvær aurskriður féllu

Skyldulesning

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi og Veðurstofu Íslands lýsa yfir óvissustigi almannavarna á Seyðisfirði eftir að tvær aurskriður féllu úr Botnum annars vegar niður í Botnahlíð og á Austurveg.

Önnur skriðan féll á hús en samkvæmt fyrstu upplýsingum eru skemmdir sagðar óverulegar. Þá hafa engar upplýsingar borist um slys á fólki, að því er segir í tilkynningu.

Aðgerðarstjórn hefur verið virkjuð á svæðinu. Tekin hefur verið ákvörðun um að rýma hluta af svæði C á Seyðisfirði. Rýma þarf eða vara íbúa við að hafast ekki við fjallsmegin í húsum á C-svæði undir Botnum frá Dagmálalæk að Búðará. Einnig B- og C-svæði ofan Gamla Austurvegar, og Austurveg 42, Hafnargata 18b til 38a, ofan götunnar. Sleppa má Botnahlíð 9, 11 og 13.

Rauði kross Íslands hefur opnað fjöldahjálparstöð í Herðubreið á Seyðisfirði.

Frá Seyðisfirði.

Frá Seyðisfirði.

mbl.is/Þorgeir

Jafnframt segja almannavarnir ástæðu til þess að vara umsjónarmenn í SR-Mjöli við skriðuhættu og óskað eftir að starfsfólk og aðrir íbúar séu upplýst um hættu á svæðinu, samkvæmt tilkynningunni.

Skriðuhætta hefur verið á Austurlandi vegna mikilla rigninga undanfarna daga. Jörð er orðin vatnsmettuð eftir rigningu, snjóbráð og hlýinda síðustu daga.

Áfram spáð rigningu 

Aðspurður segist Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, eiga erfitt með að meta ástandið á svæðinu. „Það er búin að vera rigning þarna síðustu daga og það er áfram spáð rigningu á svæðinu. Jarðvegurinn er orðinn töluvert mettaður og það er búið að vera hlýtt. Bráðnun er þekkt bæði á þessu svæði og víðar og þegar svona miklar rigningar verða er oft hætta á aurskriðum,“ segir hann.

Rögnvaldur Ólafsson.

Rögnvaldur Ólafsson.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lausamunir runnu úr görðum 

Fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg að önnur aurskriðan hafi verið lítil en hin sýnu stærri sem náði að byggðinni.

Tjón var óverulegt en einhverjir lausamunir runnu úr görðum. Kallað hefur verið út björgunarsveitarfólk til að rýma hluta af áhrifasvæði flóðanna, vakta umferð um svæðið og huga að íbúum. Sú vinna er nú í gangi.

Innlendar Fréttir