Óvissuþáttunum fjölgar í aðdraganda tvöfaldra tyrkneskra kosninga

0
55

Ást­þór Jó­hanns­son fer yf­ir stöð­una í tyrk­nesk­um stjórn­mál­um og velt­ir fyr­ir sér hvort Kemal Kilicd­aroglu, helsti mót­fram­bjóð­andi Recep Tayyip Er­dog­an, sitj­andi for­seta, eigi raun­veru­lega mögu­leika í kom­andi for­seta­kosn­ing­um.

Verðandi forseti? Í ljósi samtímaatburða í Tyrklandi er nú í fyrsta sinn álitinn örlítill möguleiki á að stjórnarandstöðunni, sem reyndar gengur ekki alveg í takt, nú þegar nokkrir dagar eru í kosningar, takist undir forystu Kemals Kilicdaroglu að hafa sigur á forseta og þingi Tyrklands. Mynd: Aðsend Lýðræðinu í tyrkneska lýðveldinu hefur marg sinnis verið ógnað á undanförnum áratugum og sum árin hefur það hreinlega verið strokað út. Þó oftast nær aðeins tímabundið, því það er þrátt fyrir allt seigt í því. Um það hefur baráttan snúist í hvert sinn þegar kemur að kosningum, allar götur frá því um miðja síðustu öld. Og enn er tekist á um lýðræðið í Tyrklandi. Hverjar kosningarnar af annarri, síðasta áratuginn, hafa verið álitnar þær mikilvægustu í sögu lýðveldisins í það skiptið og það er óbreytt. Í nóvember næstkomandi eru 100 ár frá lýðveldisstofnuninni og Tyrkland nútímans varð til. 

Víst er að tyrkneskt lýðræði hefur siglt betri byr en það gerir í augnablikinu, þegar kerfisbylting ofan frá undanfarinn áratug hefur nánst klofið þjóðina endanlega í tvennt og sitjandi ríkisstjórn undir einráðri forystu Recep Tayyip Erdogans, haft endaskipti á veraldlegu samfélagsskipuninni, sem Kemal Ataturk innleiddi fyrir réttri öld. 

En enn flýtur Rosinn, ef gripið er til líkingarmáls. Það hafa orðið mörg mannaskiptin í þeirri brú, í gegnum áratugina, lýðræðið stæðið tæpt þá og þá stundina og ekki alltaf valist „aflamenn í skipstjórastólinn“. Ef horft er yfir sögu þessa fleys sem byggt er upp á kili tyrkneska heimsveldisins – Ottómanríkisins, þá hafa beinlínis orðið „áhafnaskipti í landinu” í ein tvö, þrjú skipti á síðustu 150 árunum. Heilu þjóðarbrotin horfið og önnur streymt inn í Anatólíu í staðinn og nýir siðir fylgt í kjölfarið. Margir átta sig ekki á því að Tyrkland er land innflytjenda, flóttamanna, horfinna þjóðarbrota, glataðra tækifæra, auðsuppskipta, óuppgerðra harmleikja, aldagamallar búsetu annarra þjóðarbrota, foréttindastétta, flókinnar íhaldsemi og stækrar þjóðernishyggju – til að berja saman þessa ólíku hópa. Þjóðfélagið er langt í frá samstætt eða einsleitt, þótt 99% þjóðarinnar séu íslamstrúar. Og þetta gerir kosningarnar 14. maí, snúnar og úrslitin alls ekki fyrirséð, þrátt fyrir mjög vaxandi óánægju almennings með stjórnvöld og forseta. Í stjórn landsins og á stóli forseta sitja fyrir á fleti stjórnmálamenn sem hafa verið nánast einráðir í landinu frá aldamótum og ómögulegt er að ráða í hvernig taka munu ósigri.

Það eina sem tyrkneskir kjósendur geta sammælst um – í óðaverðbólgu, efnahafsþrengingum, eftirmálum hræðilegra náttúruhamfara og fjölda heimilislausra fórnarlamba sem sluppu lifandi en allslaus, úr rústum eftir jarðskjálftana, auk flóttamanna úr stríðhrjáðum löndum fyrir sunnan landamærin, sem árum saman hafa beðið þess að geta snúið aftur heim, auk allra hinna óleystu vandamálanna frá liðnum árum, sem bíða endalaust úrlausnar – af því ástandið er eins og það er, þá getur það ekki haldið þannig áfram.

Í ljósi samtímaatburða í Tyrklandi er nú í fyrsta sinn álitinn örlítill möguleiki á að stjórnarandstöðunni, sem reyndar gengur ekki alveg í takt, nú þegar nokkrir dagar eru í kosningar, takist undir forystu Kemals Kilicdaroglu að hafa sigur á forseta og þingi Tyrklands. 

„Ljónið og næturgalinn“ Ólíkari einstaklingar en Erdogan og Kilicderoglu er vart hægt að hugsa sér. Það er langt í frá ljóst hvor þeirra fagnar sigri að morgni 15. maí, en fáein prósent hafa aðskilið þá, mest alla kosningabaráttuna, Kilicdaroglu í vil.

Mynd: Samsett/Aðsend

Hver er hann þessi Kemal Kilicdaroglu, kynni einhver að spyrja. Í stuttu máli þá er hann algjör andstæða þess sem nú situr í forsetahöllinni hvar sem á er litið og hann hefur einsett sér að koma honum frá völdum. Þótt Kilicdaroglu sé kannski ekki þekktur utan heimalandsins, þá býr þessi hógværi stjórnmálamaður yfir mikilli reynslu. Hann hefur stjórnað gamla Lýðveldisflokki alþýðu CHP (Cumhüriyet Halk partisi) er Ataturk stofnaði upphaflega og hefur gengið í gegnum nokkrar yfirhalningarnar frá þeim tíma.

Kilicdaroglu tók við sem formaður fyrir 13 árum í kjölfar hneykslismáls þáverandi formanns og þótti þá ekki líklegt leiðtogaefni. Hann hafði setið á þingi frá því stuttu eftir aldamótin, og hefur síðan tekist að rífa CHP upp í að verða stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðunni. Þrátt fyrir tap gegn Erdogan í fjölda kosninga, þá gætu nú verið að renna upp aðrir tímar. Í formennskutíð sinni hefur hann reynt að höfða til breiðs hóps almennra kjósenda í kringum miðjuna. Kilicdaroglu er 75 ára, alinn upp í millistéttarfjölskyldu sem studdi veraldlegar hugsjónir, en fjölskylda hans tilheyrir alevíreglu, sem er hófsamur minnihlutahópur sjíta innan Tyrklands, þar sem flestir eru annars sunnímúslimar. Kilicdaroglu er menntaður hagfræðingur í Ankara og starfaði seinna meir sem forstjóri tyrknesku almannatrygginganna.

Á formannsstóli hefur honum tekist að breita ásjónu gamla CHP flokksins, sem áður þótti nokkuð herskár og einstrengingslegur, og tekist að laða að fólk úr fjöldahreyfingum, sem tengjast meðal annars margvíslegri réttindabaráttu innan Tyrklands. Jafnlyndur og rólyndur náungi sem þykir um sumt með baráttuaðferðum sínum minna á Ghandi. Vingjarnlegur í viðmóti og laus við stórkarlastæla.

Þeim hættulegu árásum sem hann hefur mátt þola svarar hann með friðsemd. Nokkru sinni hefur hann mátt þola kjaftshögg og glóðaraugu og svaraði með hægð er hann var spurður út í árásirnar „Þær eru margar hindranirnar á veginum til lýðræðis.“ Fyrir sjö árum slapp hann frá eldflaugaárás sem PKK bar ábyrgð á og ári síðar reyndu útsendarar frá íslamska ríkinu að granda honum í sprengingu. Í frétt á BBC var sagt frá því er hann slapp undan æstum múg sem ætlaði að taka hann af lífi, í jarðarför hermanns árið 2019. Hann forðaði sér naumlega inn í nærliggjandi hús, en kerling nokkur í hópi andstæðinga hans kvatti til þess að kveikt yrði í húsinu. Þegar svo lögreglan kom honum í öruggt skjól varð Kilicdaroglu að orði, „Við látum þetta ekki stoppa okkur.“

Eftir valdaránstilraunina í júlí 2016, sem aldrei hefur alveg fengist botn í atburðarrásina á, hóf Erdogan miklar ofsóknir gegn meintum samsærismönnum innan ríkiskerfisins. Kilicdaroglu gagnrýndi alla þá uppákomu frá fyrsta degi og skipulagði „réttlætisgöngu“ sem gengin var á milli Ankara og Istanbúl, 450 km leið til að styðja við lýðfrelsi í landinu. Gangan vakti mikla athygli innanlands og jók hróður Kilicdaroglu sem leiðtoga. Þótt finnist skörulegri ræðumenn og aðsópsmeiri stjórnmálaleiðtogar, þá töldu formenn sex flokkanna sem hann leiðir að hann sé rétti maðurinn til að fylkja sér á bak við í þeirri stöðu sem nú er uppi.

Tyrkneska stjórnarandstaðan getur ekki sigrað án stuðnings verkalýðsstéttanna En það er langt í frá gefið. Fálæti Kemals Kilicdaroglu til vinstri hefur vakið nokkrar áhyggjur og velþóknun hans á nýfrjálshyggjuhagfræði bandalagsflokka sinna telja sumir að það gæti kostað hann kosningasigurinn. Í grein sem Halil Karaveli hjá Central Asia-Causasus Institute skrifar í Foreign Policy telur hann að Kemal Kilicdaroglu eigi raunhæfan kost á að sigra sitjandi forseta Recep Tayyip Erdogan í kosningunum framundan.

Seinleg viðbrögð Erdogans eftir mannskæðu jarðskjálftana í febrúar, hafi opinberað spillinguna í stjórnkerfinu og grafið undan vinsældum og stuðningi við hann á meðal þjóðfélagshópa sem áður töldust í liði stuðningsfólks hans. 

Í könnun frá 12. apríl sl. mældist Kilicdaroglu með nærri 49% stuðning en Erdogan með 41,5%. Meðaltal úr níu mismunandi könnunum sýnir að Kilicdaroglu leiðir með 48,3%, Erdogan er með 43,8% stuðning og þriðji frambjóðandinn Muharrem Ince fær 5,5% stuðning. Ef það yrði niðurstaðan, hittust þeir Erdogan og Kilicdaroglu í annarri umferð, því aðeins frambjóðandi með hreinan meirihluta atkvæða telst réttkjörinn til embættis forseta. Nú tæpum mánuði síðar hefur þetta forskot Kilicdaroglu aðeins minnkað.  

En önnur umferð gæti reynst áskorandanum erfið, því hann þarf að njóta stuðnings úr öllum hornum samfélagsins – ekki síst frá efnaminni kjósendum og kjósendum úr stétt erfiðisvinnufólks í Tyrklandi. Kilicdaroglu virðist álíta að hann verði að koma til móts við hægrisinnaðar efnahagslausnir til að sigra, en á sama tíma þykir hann ögra tyrkneskri þjóðernishyggju. Slík leikflétta gæti sett hann í mjög óþægilega stöðu.

Kilicdaroglu hefur tekist að ná þeim einstaka árangri að virkja veraldarhyggjufólk, trúrækið íhaldsfólk og tyrkneska þjóðernissinna í eitt bandalag. Hann hefur einnig tryggt sér stuðning þeirra sem fylgt hafa Kúrdíska lýðræðisflokki fólksins (HDP). Þessi einstaki árangur ber vott um hve útbreidd óánægjan er með Erdogan og stjórn hans á meðal hinna ýmsu hópa kjósenda sem annars eiga fátt, ef nokkuð annað sameiginlegt. 

En Kilicdaroglu horfir hins vegar fram á að eiga í talsverðum erfiðleikum með að samræma ólíka hagsmuni og kröfur þeirra ólíku afla sem hafa safnast saman honum til stuðnings. Á sama tíma og þjóðernissinnaðir bandamenn hans, í hægri sinnaða Góða flokknum (Iyipartizi) taka ekki í mál að svo mikið sem líta í áttina að HDP, sem talar fyrir umbótum í kúrdískum málefnum, bindur sá flokkur vonir við að Kilicdaroglu muni hefja viðræður um endurbætur á tyrkneska lýðveldinu, ef hann fer með sigur í kosningunum. 

Halil Karaveli skrifar að niðurstöður í tyrknesku forsetakosningunum munu ráðast af atkvæðum þriggja mikilvægra fylkinga kjósenda: Tyrkneskum þjóðernissinnum, Kúrdum og stéttum ófaglærðra og erfiðisfólks, fólkinu í dreifbýlinu, en síðastnefndi hópurinn skarast einnig að nokkru leyti inn í hina tvo fyrr nefndu. Með grófri skiptingu á milli launþega á almennum vinnumarkaði þá teljast 70% vera verkafólk í margbreytilegri ósérhæfðri erfiðisvinnu og framleiðslu í þéttbýli og dreifbýli, en 30% í ýmsum þjónustustörfum m. a. tengdum viðskiptum, og ferðaþjónustu. Í gegnum áratugina hefur tyrknesk alþýða, „bændur og búalið“ auk erfiðisfólksins og þeirra efnaminna í borgum og bæjum, hallast að íhaldsamari stjórnmálaflokkum og Réttlætis og þróunarflokkurinn (AKP) – flokkur Erdogans forseta – er ekki nein undantekning frá þeirri reglu. Þetta má rekja til þess að verkalýðurinn er mótaður af íhaldsömum gildum uppruna síns í dreifbýlinu og hægri flokkar hafa náð þeim kjósendum til sín með stefnumálum sem samrímast trúrækni þeirra og háttheldni.

Þó að hann sé enn með forystu í könnunum mun Kilicdaroglu engu að síður verða í erfiðri stöðu gegn Erdogan í annarri umferð, því hann getur í raun aðeins verið viss um fullan stuðning einnar þessara þriggja fylkinga kjósenda, sem eru Kúrdarnir.

Kilicdaroglu stendur frammi fyrir tveimur áskorunum sem hann mun þurfa að yfirstíga ef hann ætlar að hafa sigur: annars vegar hvernig hann ætlar að takast á við málefnin sem snerta þjóðernishyggju og hins vegar sú skoðun margra að þrátt fyrir djúpstæðan efnahagsvanda nútímans, að Erdogan – í ljósi heildarferils síns undanfarna tvo áratugina – geti leyst vandamálin og sinnt þörfum þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu. Í fyrra tilfellinu verður Kilicdaroglu að koma á réttu jafnvægi á milli tyrkneskrar og kúrdískrar þjóðernishyggju, bjóða Kúrdum aukið frelsi án þess að stofna þjóðareiningu í hættu – ærið vandrataður vegur.

Í seinna tilfellinu þarf hann að koma á framfæri boðskap um samfélagsumbætur sem hreyfa við verkalýðsstéttinni, en meiri hluti hennar fylgir enn Erdogan, og Kilicdaroglu hefur ekki lagt sig nægilega fram við að ná athygli þessa kjósendahóps.

FramboðsfundurVaxandi óánægja almennings með stjórnvöld hefur blossað upp síðustu misserin í hríðversnandi efnahagsástandi, vaxandi spillingu og skertu frelsi. Framundan eru einar mest spennandi og mikilvægustu kosningar sem farið hafa fram í Tyrklandi í áratugi. Hingað til hefur það verið álitið að þurfi yfirnáttúrulega atburðarrás til að koma Erdogan og stjórn hans frá völdum. En það gæti breyst. Hugsanlega var jarðskjálftinn í vetur sá yfirnáttúrulegi atburður. Íhaldsemi stórra hópa kjósenda gerir hinsvegar að það er mjótt á munum hjá tveimur efstu frambjóðendunum og öfl á bak við sitjandi forseta gætu reynt að eiga við úrslitin.

Mynd: Aðsend

Viðleitni og árangur hans að ná stuðningi Kúrda hefur vakið upp gagnrýnisraddir í hópi tyrkneskra þjóðernissinna sem gætu skaðað möguleika Kilicdaroglu. Stuðningsmenn Erdogans hafa farið mikinn í tyrkneskum fjölmiðlum og reynt að draga upp þá mynd að Kilicdaroglu, að hann sé í slagtogi við kúrdíska aðskilnaðarsinna og fullyrða að hann sé tilbúinn til að gefa eftir  þjóðaröryggishagsmuni og eltist við óskir bandarískra stjórnvalda, sem þeir segja bakhjarl stjórnarandstöðunnar. Yfirlýsingar af hálfu helstu fulltrúa PKK Kúrdíska verkamannaflokksins og stjórnmálahreyfingar Kúrda í Tyrklandi í tyrkneskum miðlum hafa ekki mælst vel fyrir á meðal mjög þjóðernissinnaðra Tyrkja og aukið fylgi Kilicdaroglu í þeirra röðum. Nú hefur það hinsvegar kvisast út að einhverjar viðræður séu í gangi á milli herbúða Erdogans við ákveðna hópa úr röðum Kúrda, hverju sem það skilar.

Ahmet Turk, leiðtogi lýðræðisflokks kúrda HDP lét hafa eftir sér að hinn fangelsaði „Abdullah Ocalan stofnandi PKK verði látinn laus daginn eftir kosningarnar,” en Murat Karaíjlan leiðtogi PKK tilkynnti (og fjölmiðlar hliðhollir sitjandi forseta birtu, m.a Sabah) að „14. maí verði ekki aðeins valin forseti heldur einnig valdakerfi.” Þingmaður HDP, Sirri Sakik sagði, „Við ætlum að breyta þessu hundrað ára gamla lýðveldi“.

Kilicdaroglu, sem lýsti því yfir 2021 að flokkur hans væri mótfallinn allri hernaðaríhlutun yfir landamæri Sýrlands og í Írak (sem hefur verið ráðist í gegn PKK og samtökum sem sögð eru tengjast þeim) í framtíðinni, verður að eyða grunsemdum um að hann sýndi linkind gagnvart aðskilnaðarsinnum PKK. Til þess þarf hann að ræða fortakslaust að hann ætlist til að Bandaríkjastjórn láti af stuðningi við kúrdíska baráttuhópa í Sýrlandi með meint tengsl við PKK og að Tyrkir muni ekki hika við að grípa til aðgerða til þess að verja þjóðaröryggishagsmuni sína.

Því til viðbótar ætti Kilicdaroglu að ítreka fyrri heit sín að um að Selahattin Demirtas, fyrrverandi meðstjórnandi í formannssæti í HDP flokki Kúrda verði leystur úr fangelsi og heita því að aðrir kjörnir fulltrúar HDP fái ennig frelsi. Skilaboð hans verða að vera þau að lýðræðisumbætur heima fyrir verði tengdar við ákveðna skuldbindingu um varðveislu þjóðaröruggishagsmuni og að tilraunir PKK til að setja á stofn ríki við landamærin í Sýrlandi verði ekki liðnar.

Þá telur Halil Karaveli miklvægt að Kilicdaroglu ákvarði stöðu sína gagnvart kapítalisma nýfrjálshyggjunnar. Lýðveldisflokkurinn CHP er opinberlega með rætur í félagslegu lýðræði, en hann hefur – líkt og margir sósíaldemókratískir flokkar í Evrópu – breytt stéttaáherslum sínum og þróast í að verða flokkur sem sækir fylgi til menntaðrar millistéttar og færst til hægri í afstöðu til efnahagslausna. Þetta speglast í samsvarandi umbreytingum og orðið hafa á vinstri flokkum á Bretlandi, í Frakklandi og Skandinavíu. En hversvegna CHP hefur fjarlægst tyrknesku verkalýðsstéttina má rekja til þess menningarmunar sem aðskilur veraldlega millistétt frá hinni trúræknu og íhaldssömu verkalýðsstétt.

Til að ná sigri verður Kilicdaroglu að halda því á lofti við kjósendur úr verkalýðsstéttinni á að Erdogan hefur þjónað býsna rausnarlega undir vilskiptalífið og tryggt meðal annars að launum sé haldið niðri, auk þess sem starfsemi stéttarfélaga hefur verið skert verulega. Samkvæmt opinberum hagtölum eru um 14% launþega í stéttarfélagi, en það er gífurleg fækkun úr 58% þegar AKP, flokkur Erdogans, komst til valda fyrir rúmum tuttugu árum. Rauntalan er sennilega ennþá lægri, nær 10% – þegar lausastörf eru tekin inn í myndina – og verkföll eru reglulega bönnuð og leyst upp.

Afleiðingin er sú að félagslegur og efnahagslegur ójöfnuður hefur aukist gríðarlega á stjórnarárum Erdogans. Samkvæmt skýrslu World Inequality Report, um ójöfnuð í heiminum árið 2022, skrifar Halil, þá hafa auðugustu tíu prósent Tyrkja 23 sinnum meiri tekjur en lægri fimmtíu prósentin.

Í skýrslunni kemur einnig fram að þrátt fyrir að þjóðarauður Tyrkja hafi meira en tvöfaldast á síðustu 25 árum þá hafi ójöfnuður aukist á valdatíma AKP stjórnarinnar, en á tveimur áratugum þeirra við stjórn eiga efnaminni fimmtíu prósentin aðeins 4% þjóðarauðsins, næstu fjörutíu prósentin þar fyrir ofan eiga 29% og auðugustu tíu prósentin eiga 67% þjóðarauðsins. En flokkur Erdogans hefur samt náð að halda tryggð arðrændu lágstéttanna með því að útvega ódýrt húsnæði og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, auk þess að höfða til trúarlegrar íhaldssemi þeirra.

Á sama tíma og Kilicdaroglu hefur átt samtal við trúrækna íhaldssama kjósendur og fullvissað þá um að flokkur hans sé ekki á nokkurn hátt mótfallinn íslamstrúnni, þá hefur hann ekki tekið skrefið nógu ákveðið í þá átt að treysta bönd flokksins við verkalýðsstéttina. Hvort dagarnir fram að kosningum nægja til þess á eftir að koma í ljós.

Kilicdaroglu hefur lýst þeirri skoðun sinni að „dólgakapítalismi“ og nýfrjálshyggja hafi valdið miklum usla á jörðinni og hann hefur sagst ætla að taka höndum saman við aðgerðarsinna og stjórnmálafólk um allan heim – þeirra á meðal bandaríska öldungadeildarþingmanninn Bernie Sanders – með áherslu á réttlátari skiptingu auðs og tekna. En Kilicdaroglu hefur látið hjá líða að setja á oddinn í stefnuskrá sinni jafnari skiptingu auðs og endurreisn réttinda verkafólks, að hluta til í því skyni að halda hægrisinnuðu stjórnarandstöðubandalagi sínu saman. Í kosningabaráttu þar sem allur tilgangur og markmið eru svipuð útgáfa af hægri væng stjórnmálanna, mun Kilicdaroglu eiga erfitt með að sannfæra kjósendur, ekki síst verkalýðshreyfinguna að forysta hans á þingi og forsetastóli muni sannarlega skipta sköpum.

Þótt ríki víðtækur vilji á meðal stjórnarandstöðunnar – allt frá íslömskum íhaldsmönnum til sósíalista og kommúnista – að algjört forgangsmál sé að losa Tyrkland úr klóm Erdogans, þá er það einnig ljóst að það eitt og sér nægir ekki til að tryggja ósigur einræðisaflanna. Reyndar er helsti annmarki Kilicdaroglu sá hvað hann er ófús að viðurkenna það og horfast í augu við lamandi arfleifð hægri stefnu í stjórnmálum sem hefur dæmt Tyrki til að lúta sífellt mismunandi útgáfum af valdboðshneigð síðustu aldar.

Þess í stað er það sem Kilicdaroglu virðist vera að bjóða upp á endurreisn á öllu nema nafni upprunalega AKP flokksins, sem var bandalag markaðsdrifinna og trúrækinna íhaldsmanna, og Kúrda, ekki ósvipað því stjórnarandstöðubandalagi sem hann leiðir nú. En það var einmitt AKP flokkurinn sem ruddi brautina fyrir þá valdboðssinnuðu auðsæld sem Erdogan hefur reist og að leggja til að hægt sé að endurreisa lýðræði í bandalagi við nokkra fyrrverandi undirforingja Erdogans, liggur kannski ekki alveg í augum uppi að sé málið.

Sérstaklega sláandi á þessum tímpunkti er að sjá að Sadullah Ergin, fyrrum dómsmálaráðherra sitjandi ríkisstjórnar, hafi verið valinn til þess að leiða lista CHP í Cankayakjördæmi í Ankara, í þingkosningunum sem haldnar verða samtímis forsetakosningunum. Sem dómsmálaráðherra stóð Ergin fyrir handtökum á andstæðingum stjórnarinnar – þeirra á meðal herforingjum, stjórnmálamönnum, fjölmiðla – og menntafólki – sem var ranglega sakað um að hafa lagt á ráðin um valdarán gegn AKPstjórninni. Sumt af stuðningsfólki CHP er undrandi og reitt yfir að Ergin sé ekki látin sæta ábyrgð og það eigi að rétta yfir honum í stað þess að greiða götu hans til þingmennsku fyrir flokkinn.

Á meðan tillitsemi Kilicdaroglu við hægri öflin í kosningabandalaginu mun koma í veg fyrir að hann sæki sér meirihlutastuðning til verkalýðsstéttarinnar, þá getur það einnig orðið til að draga úr áhuga hluta kjarnafylgis Lýðveldisflokksins CHP, hjá framfarasinnuðu millitekjuhópunum og þeim þjóðernissinnuðu.

Hörð kosningabaráttaHarkan í kosningabaráttunni skila sér ágætlega á forsíðum gömlu dagblaðanna; Cumhuriyet, segir frá margvíslegri spillingu forsetans þaulsetna og ríkistjórnar hans, meðal annars hættu á stórfelldu svindli með atkvæði; en Aksam, gamalt virt dagblað sem stjórnvöld yfirtóku með sektum fyrir áratug, likt og gert var við fleiri fjölmiðla og létu þá í hendur stuðningsmanna Erdogans, þar er fréttaflutningurinn honum hagfelltur; 100 þúsund tunnur af olíu væntanlegar ofan úr fjöllunum við landamæri Íraks, daglega inn í efnahagskerfið, þegar tekist hefur að uppræta skæruliðana þar og stuðningsmenn aðskilnaðarsinnans og stofnanda PKK, Özalan veifa fánum á fjöldafundi Kilicdaroglu austur í Van.

Mynd: Aðsend

Líkt og hægri sinnaðir tyrkneskir þjóðernissinnar sem hafa áhyggjur af vinsældum Kilicdaroglu á meal Kúrda, kunna sumir þessara kjósenda CHP að hallast til að kjósa þriðja forsetaframbjóðandann, Ince, sem var frambjóðandi Lýðveldisflokksins í kosningunum 2018 en hefur síðan sagt skilið við flokkinn: Ince hefur fengið hljómgrunn á meðal þjóðernissinnaðra Tyrkja þar sem hann þykir hafa staðið fast gegn PKK og hann hlaut 7.2% í ofangreindri skoðannakönnun ORC. Samkvæmt þeirri könnun mundu atkvæði skiptast jafnt á milli Erdogans og Kilicdaroglu í annarri umferð.

Sú skoðun Kilicdaroglu að til þess að vinna forsetaembættið þurfi að ná samtengingu við hægrið og ögra ekki samfélagshagfræðilegri sátt Tyrklands, en um leið hefur honum ekki tekist að eyða vaxandi tortryggni á meðal þjóðernissinnaðra kjósenda úr röðum Tyrkja um að hann dragi grundvallaratriði þjóðernishyggjunnar í efa, og það sé ávísun á kosningaósigur.

Þess í stað ætti Kilicdaroglu að sækja innblástur í fordæmi forvera síns, Bulent Ecevit, framfarasinnaðs popúlista sem fór fyrir CHP á árunum 1972 til 1980 og er eini vinstrisinnaði stjórnmálamaðurinn sem stjórnað hefur Tyrklandi fram til þessa. Með samtali sínu við trúrækna og íhaldssama kjósendur hefur Kilicdaroglu að vissu marki endurvakið þá hefð sem Ecevit innleiddi 1970 með því að reyna að sætta vinstrisinna og veraldlega íhaldsmenn við trúrækna og íhaldssama kjósendur. En Kilicdaroglu skortir bæði staðfestu Ecevits til að breyta efnahagskerfinu, þjóðerniskennd hans og ákafa. Það var sú blanda sem gekk upp þegar Ecevit komst til valda árið 1977 – í kjölfar þess að hann ákvað að ráðast inn í Kýpur 1974 til að bregðast við tilraun Grikkja að innlima eyjuna – sem skilaði Lýðveldisflokknum bestu kosningaúrslitum sínum til þessa, 41,4%.

Tyrknesk saga sýnir fram á að eins og verið hefur er erfitt að henda reiður lýðræðið því frjálslyndir stjórnmálaflokkar til vinstri hafa ekki verið til staðar sem valkostur gegn íhaldsstefnu sem hefur að mestu leitt til valdboðssinnaðrar lýðhyggju. Og kosningasagan sýnir að forræði hægrimanna hefur aðeins verið rofið þegar vinstrimönnum hefur tekist að sameina ákall um félagslegt réttlæti og kerfisbreytingar, og virðingu fyrir almennri trúrækni og tyrkneskri þjóðernishyggju. Kemal Kilicdaroglu má ekki láta undir höfuð leggast að vanrækja að gefa verkalýðsstéttinni loforð um væntanlegar þjóðfélagsbreytingar, né heldur má leyfa grunsemdum að búa um sig, um að hann slaki á í baráttunni við kúrdíska aðskilnaðarsinna, segir Halil Karaveli í lok greinar sinnar, en hann er höfundur nýútkominar bókar, Why Turkey is Authoritarian: From Ataturk to Erdogan.

Hvar ég sit í svalagarði rólegs íbúðahverfis, í 60.000 manna bæ við austurströnd Eyjahafsins og velti því fyrir mér til hvorrar áttar nágrannar mínir hér í götunni muni kjósa innan fárra daga, þegar kjörstaðir opna, allt frá Þrakíu sem liggur að landamærum Búlaríu og Grikklandi í vestri, til Shiirt, og Kars í austri  við landamæri Armeníu, Íran og Íraks og í gömlu Antiokkíu, við sýrlensku landamærin, er ég hreint ekki viss.
60.000 manna bærinn sem ég bý í telst vera lítill bær með litla vigt í pólitískum skilningi og göturnar í nýlegum húsahverfum heita eftir númerum eins og á bingóspjöldum, nema aðalgöturnar þær heita í höfuðið á gengnum stjórmálamönnum, hershöfðingum og aflaskipstjórum þess tíma, í landi með yfir 80 milljónir íbúa. Hér í þessum bæ gerist fátt sem íbúar annarra og stærri bæja láta sig varða. Þetta er verstöð, sem allt snýst um verkun ferðamanna og „flakavirkin” – hótelin, liggja meðfram ströndinni. Umhverfis eru þjónustustofnanir, matsölustaðir, legukantar fyrir skútur og snekkjur af ýmsum stærðum og gerðum, fjölbreytt smáfyrirtæki sem veita þjónustu sem lítur að þörfum bæjarbúa og allra þeirra gesta sem staðinn heimsækja ár hvert. Árlega heimsækja svæðið tvær milljónir ferðamanna. Yfir hávertíðinni geta komið á svæðinu um 400.000 manns á mánuði, mest megnis Hollendingar og Bretar, auk fleiri þjóðir vestan frá Evrópu, en í minna mæli. Þá er hér slangur af Rússum og í vaxandi mæli efnafólk austan frá Íran og Saudi-Arabíu. Íslendingar fjölmenntu hingað í nokkur ár fyrir hálfum öðrum áratug, en ferðir þeirra hingað til Anatólíu lögðust mestan part af eftir fjármálahrunið og stýringu íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja á aðra staði.
Íbúar bæjarins hafa margir hverjir hagnast ágætlega af öllu saman, en hingað sækir lausráðið starfsfólk í vertíðarstörfin tengd ferðaþjónustunni. Flest af því fólki er ættað austan frá dreyfbýlli og efnahagslega aðkrepptari svæðum Tyrklands.

Það skiptir því miklu máli að kosningarnar framundan fari vel og friðsamlega fram upp á framhaldið, ekki síst og sérstaklega fyrir ferðaþjónustuna, hún hefur fengið að kynnast því á stjórnarárum sitjandi forseta og ríkistjórnar hans síðustu tvo áratugina, að róstur í stjórnmálunum  eru fljótar að sýna sig í minnkandi áhuga fólks að heimsækja svæðið.

Ferðaþjónusta er ekki aðeins viðkvæm fyrir náttúruhamförum af öllu tagi. Traust stjórnmálaástand er einnig mikilvægur þáttur. Upplausn, ótryggt samfélagsástand, þar sem gestir finna sig ekki örugga eða velkomna og óttast hugsanlega um líf sitt og limi, á slíkum stöðum er ekki skemmtilegt að eyða sumarleyfispeningnum og hvað þá með fjölskyldu. Það er því engin furða að hér í Marmaris „megi heyra saumnál detta,” þessa dagana. „Verður þetta bara ekki í góðu lagi?” og ýmsir eru hugsi.

Hvað gerist ef tyrkneskur forseti tapar kosningu? Það vita engir.

Það er einmitt spurning sem margir velta fyrir sér. Munu geta fylgt einhverjar róstur á landsvísu, þegar úrslit verða kunn? Verður átt við úrslitin? Hvað með úrslitin? Erdogan á sér fáar fyrirmyndir um hvernig eigi að láta af völdum á friðsamlegan hátt.

Á meðan kosningaúrslita er beðið þá er ekki úr vegi að líta nokkra áratugi aftur, til miðrar síðustu aldar og skoða stuttlega hvað helst hefur þótt fréttnæmt í kringum forsetaembætti Tyrklands og þær kosningar sem embættinu tengjast á því tímabili.

Í kosningunum framundan gæti það gerst að kjósendur felldu Recep Tayyip Erdogan forseta og stjórnarflokk hans, Réttlætis – og þróunarflokkinn (AKP), sem hafa stjórnað landinu síðastliðin 20 ár. Á þeim tíma hefur Erdogan ásamt flokki sínum og stuðningsfólki mjög svo sett sitt mark á tyrkneskt samfélag, umturnað því – hann hefur aukið vægi íslamstrúar í ríki sem um áratugaskeið, allt frá lýðveldisstofnun snemma á síðustu öld var veraldlegt með fullan aðskilnað á milli trúar og opinberrar stjórnsýslu. Með ýmsum ákvörðunum Erdogans hafa áhrif Tyrklands í alþjóðastjórnmálum vaxið, sérstaklega í löndunum umhverfis; í Sýrlandi, út til Afríku og inn í deilu Armena og Asera, auk þess að miðla málum um kornútflutning í tengslum við Úkraínustríðið. Allt er þetta sagt gert í þágu Tyrklands og tyrkneskra hagsmuna, en er fyrst og síðast til að treysta völd forsetans. Það er óumdeilt að austræn áhrif fara vaxandi á daglegt líf í landinu, á sama tíma og svokölluð vestræn gildi fara þverrandi.

Í skáldsögu sinni Svarta bókin, leggur tyrkneska nóbelskáldið Orhan Pakuk einni sögupersónunni þessi orð í munn, „Skýringin á vandanum milli austursins og vestursins liggur í orðum sem eignuð eru Arif með skeggið: „Ó, þið gæfusnauðu grey sem starið löngunaraugum til vesturs um borð í skipi er siglir í austurátt!“  

Áralöng óhefðbundin efnahagsstjórnun og mannskæður jarðskjálfti í febrúar hafa grafið undan trausti á stjórnvöldum og orðið til þess að fjöldi kjósenda hefur dregið í efa orðspor og hæfi stjórnsýslunnar sem framan af var þungamiðjan og helsta aðdráttarafl í kjörþokka Erdogans og flokks hans.

Reuben Silverman rannsakandi í tyrkneskum fræðum við Stokkhólmsháskóla skrifar í grein að eftir tvo áratugi sé erfitt að ímynda sér að Erdogan gæti verið á förum. Skoðanakannanir sýna að hann getur beðið ósigur fyrir frambjóðanda stjórnarandstöðunnar, en almennt er talið að hann geri hvað sem er til að halda völdum og noti til þess yfirburði sína í kerfinu, til að knýja fram nauman sigur eða ögra óhagstæðri kosninganiðurstöðu.

Sem fyrr er minnst á hefur nokkur kvíði búið um sig í kringum tyrknesku forsetakosningarnar – hvernig Erdogan muni bregðast við niðurstöðum þeirra – er afleiðing af einstakri stöðu hans í tyrkneskri stjórnmálasögu. Það er erfitt að ímynda sér að Erdogan muni á virðulegan hátt sætta sig við ósigur sem telst í þessu tilfelli fordæmalaus: Engin tyrkneskur forseti hefur nokkru sinni verið kosinn burt úr embætti.

Ekki aðeins er Erdogan fyrsti tyrkneski forsetinn til að vera kosinn í almennri kosningu til embættisins, en ekki eingöngu af sitjandi þingmönnum, líkt og tíðkaðist. Hann hefur einnig umbreytt stjórnkerfi landsins frá þingræði í forsetaræði. Á meðan margir af 11 forverum Erdogans, sem kosnir voru af tyrkneska þinginu, komu og fóru að mestu leyti hljóðalaust, voru þeir fáu sem – líkt og hann – höfðu að baki sér pólitíska fjöldahreyfingu og áttu það til að gerast þaulsetnir í embætti, allt þar til herinn fjarlægði þá eða þeir mættu ófyrirséðum dauðdaga. Og eina undantekningin er ekki uppörvandi.

Forsetahöll ErdoganForsetahöllin í Ankara sem Erdogan lét byggja yfir sig fyrir fáeinum árum er á þeim skala að engu er líkara en að leitað hafi verið í arkitektabækur Sjáseskús. Framkvæmdin hlaut mikla gagnrýni vegna þess að stór hluti útivistar og skógræktarsvæðis sem Ataturk lagði grunn að var rutt undir framkvæmdina. Þá er moska sem hann lét reisa sér til dýrðar í Istanbúl á svipuðum skala. En tyrkneskir byggingarverktakar hafa verið í hópi hörðustu stuðningsmanna sitjandi forseta; fjármagni og öllum opinberum framkvæmdum er stýrt í þeirra vasa.

Mynd: Aðsend

Stofnandi og fyrsti forseti Tyrkneska lýðveldisins, Mústafa Kemal Ataturk, andaðist í embætti 57 ára gamall, tiltölulega ungur að aldri, líklega vegna þess lífernis sem fylgdi miklu partýstandi, eins og einn orðaði það, „hann stjórnaði landinu frá veisluborðinu.“ Eftirmaður hans og náinn trúnaðarvinur, Ismet Inonu, gegndi embættinu í 12 ár, eða þar til Lýðveldisflokkurinn (CHP) – sem hann og Ataturk stýrðu – beið ósigur fyrir ósamstæðri fylkingu nokkurra stjórnmálahópa er nefndist Demókrataflokkurinn árið 1950 í fyrstu tiltölulega frjálsu og sanngjörnu kosningunum í sögu Tyrklands. Demókratarnir gagnrýndu ofríki og stjórnsemi hins veraldlega kerfis, lofuðu einkaframtakið og þeirra hefur verið minnst af stjórnmálamönnum eins og Erdogan sem hin eðlilegu tengsl mið-hægristjórnmála og lýðræðis í Tyrklandi. Ákvörðun Erdogans um að halda kosningarnar 14. maí, er táknræn, því það var sigurdagur demókrata yfir CHP á sínum tíma og er ætlað að vekja athygli á tengslum við þann atburð.

Inönu sem 1950 var orðinn 65 ára gamall, viðurkenndi undanbragðalaust ósigur flokks síns en ákvað að hætta ekki stjórnmálafskiptum. Hann hélt áfram að leiða CHP flokkinn næstu tuttugu og tvö árin þar til hann var loks neyddur úr formannsstólnum 1972 á dramatísku flokksþingi af Bulent Ecevit, sem í áratug hafði staðið hjá og beðið sem arftaki öldungsins. Inönu dó einu og hálfu ári síðar. Þrátt fyrir að Ecevit yrði aldrei forseti landsins, þá gegndi hann veigamiklu hlutverki í stjórnmálum næstu þrjá áratugina á eftir og stýrði Lýðveldisflokknum CHP þar til hann var bannaður í kjölfar valdaráns hersins 1980. Síðar átti hann eftir að stofna eiginn flokk sem byggði á stefnumálum hans.

Leiðtogi demókrata, Celal Bayar, var á upphafsárum lýðveldisins í innsta hring Ataturks um tíma, og gegndi seinna embætti forseta í áratug, allt þar til honum var vikið frá í valdaráni hersins 1960. Í framhaldi þeirra atburða var hann dæmdur til dauða ásamt nokkrum ráðherrum fráfarandi ríkisstjórnar, sem Adnan Menderes stýrði. Þessi atburður sat lengi í ungum dreng er ólst upp á heimili Erdogans skipsstjóra í verkamannahverfinu í Kasimpasja og hann vitnaði oft til þess síðar. Leiðtogar valdaránsins milduðu dóminn vegna aldurs gamla forsetans og Bayar, auk nokkura þeirra er lifðu af hremmingar Demókrataflokksins eyddu næstum fimm árunum að mestu leyti í fangelsi. (En sá hlær best…: Bayar lifði að verða 103 ára, lengur en flestir herforingjarnir og hélt áfram að vera áhrifamaður í stjórnmálum á bak við tjöldin, mörg ár eftir að hann var látinn laus). Þeir félagar í flokki Demókrata sem ekki sátu í fangelsi á árunum eftir 1960 stofnuðu nýjan flokk og kenndu við réttlæti, undir forystu Suleymans nokkur Demirels, og hann átti eftir að reynast slunginn stjórnmálamaður og halda um stjórnvölinn í flokki sínum og ráða eftirmenn í embætti næstu tæpa fjóra áratugi.

Baráttan í þingkosningum á sjöunda og áttunda áratugnum stóð á milli mið-hægri fylkingar undir forystu Demirels og mið-vinstri fylkingar undir forystu Ecevits. Herinn annaðist aftur á móti áfram að skipa í forsetaembættið. Í þeirri stjórnarskrá sem samþykkt var eftir valdaránið 1960 var ákveðið að forsetar skyldu kosnir af þinginu til sjö ára í senn; samfelld kjörtímabil í embætti eftir þann tíma voru bönnuð. Forsetar þessa tímabils – Cemal Gursel, Cevdet Sunay og Fahri Koruturk – voru fyrrum hershöfðingjar eða aðmírálar. Það að stjórnmálaöfl er deildu á þingi gátu ekki komið sér saman um að velja nýjan forseta eftir að kjöri Koruturks lauk í embætti 1980, varð ásamt fleiru til þess að herinn hrifsaði aftur til sín völdin, en á þessum árum ríkti óöld í landinu, sem átti upptök sín ekki síst í ólgu kalda stríðsins, á milli vinstri sinnaðra hópa og  þjóðernissinna, með trúrækna íhaldsmenn, sem biðu síns tækifæris á jaðrinum. Herinn leysti upp þingið, samdi nýja stjórnarskrá og útvegaði enn einn hershöfðingjann, Kenan Evren, sem sjöunda forseta Tyrklands.

Herinn leysti einnig upp Lýðveldisflokkinn CHP og Réttlætisflokkinn, auk þess sem þeim Demirel, Ecevit og fleiri stjórnmálamönnum var bannað að taka þátt í stjórnmálum. Fræðilega hefði þarna getað skapast grunvöllur til að hleypa að nýjum andlitum inn í tyrkneska pólitík, en þeir Demirel og Ecevit ásamt fleirum frá fyrri tíð endurheimtu pólitísk réttindi sín í þjóðaratkvæðagreiðslu 1987. Í fjarveru þeirra var miðju-vinstri fylkingin í höndum Erdals, sonar Inönu, en hann skorti allan kjörþokka og útgeislun Ecevits og miðju-hægri stjórnin undir forystu Móðurlandsflokksins, sem stýrt var af ráðgjafa og trúnaðarvini Demirels til margra ára, ungum Ameríkumenntuðum hagfræðingi Turgut Ozal, en sigur hans á flokkum sem herinn hafði velþóknun á, í fyrstu kosningunum eftir 1983 varð herforingjunum til nokkurrar sneypu. Þegar Evren hershöfðingi lét af embætti forseta árið 1989 varð Ozal fyrsti borgaralegi forseti Tyrklands, síðan frá árinu 1960. 

Eftir að Suleyman Demirel snéri aftur úr pólitískri útlegð sinni og hóf aftur stjórnmálaþátttöku, þá var hann ekki allskostar ánægður með að skjólstæðingur sinn og bandamaður, Turgut Ozal, skyldi nú vera orðinn ráðandi á vettvangi stjórnmálanna, og Demirel fór fram undir merkjum nýs flokks síns, þar sem hann réði ráðum – Rétta leiðin. Í kosningum 1991 missti Móðurlandsflokkurinn meirihluta sinn á þingi eftir ósigur gegn kosningabandalagi sem Demirel fór fyrir. Þegar Ozal lést síðan mjög óvænt úr hjartaslagi 1993, áður en kjörtímabili hans var lokið náði Demirel að tryggja sjálfum sér forsetaembættið. Kjörtímabili Demirels á forsetastóli lauk árið 2000 og þegar hann reyndi að ná pólitískum stuðningi fyrir stjórnarskrárbreytingu á þinginu, og fá að gegna öðru kjörtímabili, þá gekk það ekki eftir. Flokkurinn hans glímdi við óvinsældir og Ecevit, gamli keppinautur hans úr pólitík undangenginna áratuga var nú forsætisráðherra. Við embætti Demirels í tók Ahmet Necdet Sezer, fyrrum forseti stjórnlagadómstóls landsins, en um hann náðist sátt sem stjórnmálaflokkar á þingi gátu sætt sig við, nema þeir sem gættu hagsmuna íslamista og Kúrda, en hvorir tveggja þeirra sættu rannsókn hjá dómsvaldi landsins.

Það var því sameiginleg útskúfun frá hinu veraldlega, þjóðernissinnaða ríki – er Sezer var forvígismaður fyrir –  er meðal annars varð til þess að margir trúræknir og kúrdískir kjósendur studdu Erdogan og nýstofnaðan flokks hans Réttlætis – og þróunarflokkinn AKP í þingkosningunum árið 2002. Erdogan hafði áður verið borgarstjóri í Istanbúl og meðlimur í velferðarflokki íslamista þar til hann var bannaður og honum vikið úr embætti árið 1998. Utangarðsstaða hans gerði honum kleift að njóta góðs af þar sem spillingarmál skóku samfélagið, auk hrikalegra jarðskjálfta á Marmarhafsmisgenginu rétt suðaustur af Istanbúl, og fórust um 20.000 manns í þeim skjálfta. Allt þetta rýrði traust kjósenda á rótgróinni stjórnmálaelítu. Flokkarnir sem tengdust Ecevit, Demerel og Ozal, biðu algjöran ósigur í kosningunum og eingöngu tveir flokkar – AKPflokkurinn og nýuppgerður gamli Lýðveldisflokkurinn CHP – komust yfir atkvæðaþröskuldinn í þinghúsinu. Engir þeirra flokka sem höfðu kosið í embætti forseta tveimur árum áður sátu á þingi þegar Erdogan settist í sæti forsætisráðherra árið 2003.

Sezer reyndist frá fyrsta degi helsta hindrunin fyrir Erdogan og stjórn hans að beita valdi sínu, því Sezer forseti neitaði ítrekað að samþykkja lagabreytingar og stöðvaði embættisveitingar í lykilembætti ríkisins. Þegar kjörtímabili hans lauk 2007, lagði AKP stjórnin til einn af stofnendum flokksins, og eftir vangaveltur innan hersins hlaut það samþykki. Þetta var Abdullah Gul, trúrækinn hófsemdarmann úr röðum íslamista og á þeim tíma mjög náinn Erdogan. Með Gul í embætti forseta var leiðin greið fyrir stjórnvöld að festa í sessi völdin yfir stjórnsýslu og dómsvaldi og margvíslegum róttækum breytingum, þar af lútandi. En völdin þéttust fyrst og fremst umhverfis Erdogan og ákveðna bandamenn hans frekar en Gul forseta. Í einu eftirtektarverðu tilfelli þegar forseti tyrknesku lögmannasamtakanna flutti gagnrýna ræðu í garð stjórnvalda, stormaði Erdogan út úr salnum ásamt forsetnum sem trítlaði út á eftir honum. Það kom síðan engum á óvart að hann skyldi stinga upp á sjálfum sér í embættið þegar kom að því að kjósa til forseta í fyrstu almennu forsetakosningunum í Tyrkandi árið 2014 og Gul sté að vanda til hliðar, án átaka.

Erdogan hefur síðan umbylt forsetaembættinu. Á fyrra kjörtímabili sínu – þegar embættið krafðist enn að hann sliti tengsl við flokk sinn – þá hafði hann iðulega afskipti af ákvaðanatöku stjórnvalda og flokk síns og hagði sér eins og hver annar vilhallur flokksmaður sem margir lagasérfræðingar töldu a stæðist hvorki lög né venjur. Í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2017 fyrir tilstilli Erdogans voru samþykktar stjórnarskrárbreytingar sem felldu niður embætti forsætisráðherra og breyttu Tyrklandi í forsetaræði sem Erdogan hélt fram að myndi tryggja skilvirkari stjórnarhætti. Á síðara kjörtímabili sínu hefur Erdogan notað nýfengið vald sitt til að fikta og blanda sér í starfsemi þeirra stofnanna sem enn bjuggu við einhvert stofnanasjálfstæði og velti fjórum seðlabankastjórum í gegnum bankann á jafnmörgum árum.

Þeir forsetar Tyrklands sem settir voru í embættið í kjölfar valdaráns og herforingjastjórn landsins gaf samþykki fyrir, gátu þeir beygt stofnanir undir vald sitt, en þá skorti stjórnmálaflokk til að tengjast almenningi. Forsetar sem fóru fyrir stjórnmálaflokkum, á meðan þeir sátu í embætti, gátu notið vinsælda en höfðu aldrei nein bein áhrif á störf stofnana ríkisins. Erdogan er í einstakri stöðu af því leyti að hann hefur bæði ríkistjórnartauma í höndum sér og talsvert fylgi stuðningsmanna sem ógjarnan vilja sjá hann stíga til hliðar frá völdum sínum. Ef hann tapar kosningunum framundan, þá verður það væntanlega tæpt. 69 ára að aldri myndi hann vera tiltölulega ungur miðað við tyrkneska leiðtoga sem höfðu áður verið á framabraut. Í stuttu máli: Erdogan á sér fáar fyrirmyndir um hvernig hægt er að afsala sér völdum á friðsaman hátt.

Eini tyrkneski forsetinn sem lét af völdum af sjálfsdáðun og hafði völd og áhrif sambærileg við þau sem Erdogan hefur var Inönu árið 1950. Þau umskipti áttu eftir að fara um erfiða braut: Demókrataflokknum og stuðningsmönnum hans var mjög í nöp við Inönu og Lýðveldisflokkinn. Á næstu árum tóku sigurreifir demókratarnir eignir Lýðveldisflokkins eignanámi, sóttu einn af sonum forsetans fyrirverandi til saka vegna umferðarslyss sem hann varð óvart valdur að og sökuðu hann um manndráp, fjarlægðu meira að segja heyrnartæki úr kassa í stúku Inönu í ríkisóperunni. Demókratarnir skipulögðu ólátahópa úr röðum stuðningsmanna sinna til að ráðast á framboðsfundi Inönus. Árið 1960 rændi herinn síðan völdum til að koma stjórn Demókrataflokksins frá, því svo virtist sem ríkistjórn þeirra hyggðist banna Lýðveldisflokkinn CHP.

Erdogan hefur á góðum stundum og mikilvægum gjarnan brugðið sér í gerfi lítilmagnans, leikið plebbinn, sem veraldleg foréttindastétt níddist á og vill kenna sig við demókratana sem máttu þola illa meðferð að hálfu hersins. En það er kannski minningin um hvernig Demókratar komu fram við Inönu og aðra sigraða keppinauta sína sem hefur vakið upp ótta við ósigur í huga Erdogans. Núverandi stjórnarandstaða í Tyrklandi sakar hann oft á tíðum um að vera spilltan einræðisherra og að svo gæti farið að hann eða einhverjir úr fjölskyldunni verði sóttir til saka, þegar embættinu sleppir. Erdogan tekur þær ásakanir greinilega mjög alvarlega. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa verið sektaðir og ákærðir fyrir yfirlýsingar sínar.

Til að draga úr ótta Erdogans við tap og allt sem það gæti haft í för með sér segir Reuben Silverman að það væri af hinu góða ef andstæðingar hans í kosningabaráttunni reyndu að forðast ávirðingar á forsetann og færu fram með jákvæð skilaboð sem útskýra fyrir kjósendum hvaða uppbyggilegu skref yrðu stigin þegar þeir tækju við völdum. Það var einmitt hluti af stefnu CHP í árangursríkri borgarstjórnarkosningu sem flokkurinn í Istanbúl 2019.

Helsti áskorandi Erdogans, leiðtogi CHP, Kemal Kilicdaroglu, hefur áunnið sér nafn sem beinskeyttur gagnrýnandi á afglöp AKP við stjórnvölinn, en alltaf sloppið við handtökur. Frá útnefningu hefur hann blandað saman uppbyggilegri og jákvæðri framtíðarsýn við loforð um að binda enda á spillingu. Hann hefur fjallað um hversdagsleg vandamál sem varða daglegt líf kjósenda og félagslega velferð þeirra og um leið lagt áherslu á að hann ætli sér að stöðva óheft peningaflæði til fyrirtækja sem heyra undir öfluga klíku forvígismanna er tengjast AKP. Með bandalagi stjórnarandstöðuflokka sem hann er höfundur að vill hann ögra sundurlyndisanda „eins manns“ stjórnar Erdogans, en í kosningabandalagi hans eru hugmyndafræðilega ólíkir flokkar sem eiga það sameiginlegt að vilja koma Erdogan úr embætti og stjórn hans frá. Hvort sú jafnvægislist nægi að örva kjósendur til fylgis, án þess að herða á einbeittum vilja Erdogans að halda völdum með öllum ráðum á eftir að koma í ljós. 

Silverman bendir á „að kosningabandalag Kilicdaroglu er nauðsynlegt vegna þess að hingað til hafa engir nægilega öflugir einstaklingar eða einstakir flokkar, komið fram á stjórnmálasviðið með þann atkvæðastyrk og kjörþokka sem staðist hafa Erdogan og brögðum hans snúning; það er enginn Ecivit gegn Demirel, eða Inonu á móti Bayar. Að hluta til hafa brögð Erdogans séð til þess: Spennandi stjórnmálamenn eins og Ekrem Imamoglu borgarstjóri Istanbúl og Selahattin Demirtas, leiðtogi Lýðræðisflokks Kúrda, hafa verið tæklaðir með sífelldum ákærum og fangelsisdómum. Að Erdogan hafi orðið fyrstur til að brjóta undir sig þetta mikla vald, hefur þurft hugsjón og krafist ímyndunarafls og pólitískra klókinda.“ Nú er spurt hvort hann geti hugsað sér að hann verði sá fyrsti sem afsalar sér því. 

Það var eftir því tekið og oft vitnað til þess síðar er Tyyiep Erdogan, þá nýlega orðin forsætisráherra á upphafsárum ríkisstjórnar sinnar, lýsti skoðun sinni á lýðræðinu. Það væri eins og strætisvagn, sagði hann, þú tekur þér far með honum þangað sem þú ætlar og stigir þá út úr vagninum þegar komið væri á áfangastað. Það væri kosturinn við lýðræðið.

Hvort sú stund er runnin upp að gamli einvaldurinn stígur út úr tyrkneska lýðræðisvagninum sem verður í framhaldinu lagt fyrir fullt og allt, en hann sjálfur fari að undirbúa lokahnikkinn að koma á soldánsdæmi og ættarveldi í því Tyrklandi sem hann hefur hannað umhverfis sig og sína á stjórnmálaferli sínum. Það ræðst eftir miðjan maí. Nú þegar er farið að pískra um eftirmann úr röðum fjölskyldunnar, stjörnutengdason hans og erfingja, frumkvöðul í tyrkneskri drónaverksmiðju, en framleiðsluvörur fyrirtækisins hafa komið við sögu í stríðinu norðan Svartahafs; Selcuk Bayraktar, er kvæntur yngstu dóttur Erogans, hann er fyrirmynd ungra manna og hægri sinnaðra, trúrækinna og þjóðernissinnaðra Tyrkja, einskonar íslömsk útgáfa af Elon Musk. Að minnsta kosti sá Der Spiegel ástæðu til að kynna þennan unga mann í ýtarlegri grein á vef sínum fyrir stuttu. Það virtist ekki vera fyrir gamanið eitt.

En fari svo að tyrkneskir kjósendur velji að halda lýðræðisvagninum áfram í akstri um samfélag sitt og Erdogan verði gert að stígi af honum nauðugur viljugur og halda sig til hlés, amk fram að næstu þingkosningum, sem samkvæmt dagskrá verða aftur eftir fjögur ár, þá held ég að það væri besta afmælisgjöfin núna á aldarafmæli þjóðarinnar, sem tyrkneskir kjósendur gætu veittu sér og landi sínu. Greiða honum ekki atkvæði sitt, heldur Kilicdaroglu, þrátt fyrir að freistingin verði mörgum ofviða og þegar í kjörklefann er komið hugsi margir – er ekki bara best að kjósa Erdogan. Hér í landi ljónanna og næturgalanna, eins og Litla – Asía var nefnd í fornum ljóðum, þá eru þau ótrúlega mörg ljónin sem sjá svo sem ekkert sérstaklega eftirsóknarvert við lýðræðið. Því fylgi bara deilur og óreiða. Stór hluti kjósenda láta sér nægja að fá að vera í friði með sinn skika og telja allar breytingar vera til leiðinda. Og eins og stuðningsmenn forsetans benda á þá er hampaminna fyrir Vesturlönd að díla við einn mann, jafnvel þótt hann njóti ekki vinsælda hjá stjórnendum þar vestra. Þessum breytum standa mótframbjóðendur frammi fyrir.

Þá ólgusjóa sem Kemal Kilidaroglu hefur siglt knerri sínum í gegnum, í andófi nánst öll stjórnarár sitjandi forseta, án þess að hafa hlekkst verulega á, (fyrir utan allar sektirnar sem Erdogan hefur náð að fá dæmdar á hann, þá hefur honum ekki tekist að gera hann vanhæfan með því að klína hann utan með ávirðingum er gætu leitt til fangelsisdóms. En það hafa þeir flestir mátt þola sem líklegir hafa verið til að veita Erdogan forseta keppni. Kilicdaroglu býr yfir þeirri manngerð er gæti reynst drjúgur mannasættir, bæði innan lands sem utan, laus við frekjuköstin, svo ekki sé minnst á glæpsamlegt ofbeldið og spillinguna sem einkennir of mikið stjórnmál þessa heimshluta. En oft þykja orðhákarnir meira spennandi, eins og dæmin sanna.

Stjórnarandstaðan hefur látið hafa eftir sér að í aðdraganda kosninga að nú muni það ekki gerast að „kettir og rottur,“ nái að naga kaplana í kosningakerfi þeirra, líkt og stjórnvöld héldu fram að hefði gerst í borgarstjórnarkosningunum fyrir þremur árum, þegar reynt var að þagga niður í andstæðingnum. Það virðist allt geta gerst og þrátt fyrir óvænta innantöku í beinni útsendinu fyrir fáeinum dögum, svo rjúfa varð sjónvarpsdagskrá, þá var Erdogan forseti mættur fílefldur á kosningafundi hér og þar um landið stuttu síðar. Með lungan úr tyrkneskum fjölmiðlum á bak við sig býr sitjandi forseti við mikinn aðstöðumun fram yfir keppinauta sína. Allra nýjustu kannanir sýna að það verði mjótt á mununum, auk annarra spennuþátta sem geta komið í ljós á næstu dögum alveg fram yfir kosningarnar.  

Hitt er síðan vert að velta fyrir sér að enginn lýðræðislega kjörin forseti – með flokkabandalag mátulega samstíga að baki sér – sem setur stefnuna á að snúa af vegi einræðis aftur inn á braut þingbundins lýðræðis, er öfundsverður með arfleifð Erdogans í fanginu. Hvernig sem kosningarnar fara 14. maí, þá bíður óður þriggja stafa verðbólgudraugurinn eftir að verða kveðinn niður. Afkvæmi sem stjórnarhættir Erdogans áttu mestan þátt í að skapa með þeim efnahagslegu hundakúnstum sem hann hefur verið að leika sér í ásamt strákunum sínum síðustu tíu árin, eftir að hafa sótt sér lánsfé til að kynda með tyrkneska efnahagsundrið sitt árin á undan, þegar hann var allra yndi í kauphöllum heimsins og á meðal spekúlanta nýfrjálshyggjunnar, sem héldu að íslam ætti nýtt tromp upp í erminni, sem nýttist til hagnaðar í heimsviðskiptunum. Niðurskurðurinn á þeim draug verður sársaukafullur fyrir kjósendur. Það mun væntanlega hefjast mikil innviðasala. En tröllauknar framkvæmdir síðustu tveggja áratuga, sérstaklega á sviði samgangna og orkumála koma þar sterkt inn. Sennilega verður það ánægjulegasti reikningurinn sem almenningur í landinu þarf að vinna upp í að afloknum kosningum og greiða niður næstu árin, og vonandi að önnur óvæntari og ógnvænlegri reiknisskil koma ekki til sögunnar.

Fari svo að Kemal Kilicdaroglu mundi nú vinna kosningarnar, þá er það efni í annan pistil hvaða vandamál hann þarf að takast á við, innan flokks síns og á meðal hinna formannanna sex, ofan í allt annað. Það er nefnilega meira en að segja það að ætla að vinda ofan af stórfelldri kerfisbreytingu og spillingu þeirri sem höfundarverk Erdogans er, þótt ásetningurinn sé gegnheill. Hugsanlega gæti sá prúði og heiðarlegi stjórnmálamaður Kilicdaroglu vilja fara sér hægt í sakirnar með breytingar, ef hann er nú einu sinni kominn með forsetavald forvera síns í hendurnar? Annað eins hefur gerst.

Tyrknesk stjórnmál voru ekkert alltaf til fyrirmyndar áður en Erdogan kom til sögunnar og ekki verður hægt að breyta Tyrklandi í eitthvað sem það aldrei var. En hvernig sem allt veltist þá er efnahagur almennings í rúst þessa dagana og á þeim vanda verður að taka hver svo sem situr í þúsund herbergja slotinu, sem nýlega var byggt yfir forsetaembættið, inn í gömlu skógræktinni hans Ataturks og þar er ekkert víst að verði vaknað upp í sólskini og fuglasöng daginn eftir kosningar, hver sem úrslitin verða.

Kjósa

3

Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir Mest lesið

1

Ætla aldrei aft­ur á Land­spít­al­ann vegna með­göngu

Í tvígang missti Salóme Ýr Svavars­dótt­ir fóst­ur. Í fyrra skipt­ið var hún geng­in rúm­lega ell­efu vik­ur. Eft­ir að hún fékk eink­irn­inga­sótt var henni tjáð að helm­ings­lík­ur væru á að hún héldi fóstr­inu. Ell­efu ár­um síð­ar sit­ur þessi sára reynsla enn í henni. Hún lærði að taka að­eins einn dag í einu.

2

Sif SigmarsdóttirÓsjálf­bjarga óvit­ar

Disney­land hafði frá opn­un ár­ið 1955 þótt skemmti­garð­ur í hæsta gæða­flokki þar sem ýtr­ustu ör­yggis­kröf­um var fram­fylgt. Hvað fór úr­skeið­is?

3

GagnrýniArkitektúr Hlíðarendi

Þétt byggð á Hlíðar­enda alltaf betri kost­ur en nýtt út­hverfi

Magnea Þ. Guð­munds­dótt­ir arki­tekt rýn­ir í bygg­ing­ar og svæði. Að þessu sinni í borg­ar­rým­ið Hlíðar­enda.

4

„Það er erfitt að hætta þessu“

Sig­urð­ur Ingi Jó­hanns­son inn­viða­ráð­herra, sem fer með hús­næð­is­mál í rík­is­stjórn­inni, seg­ir að sá hús­næð­isstuðn­ing­ur sem ver­ið sé að veita í gegn­um skatt­frjáls­an sér­eign­ar­sparn­að til að greiða nið­ur íbúðalán sé „gríð­ar­leg­ur“. Hann gengst við því að stuðn­ing­ur­inn sé að uppi­stöðu ekki að lenda hjá hóp­um sem þurfi helst á hon­um að halda. Reynt hafi ver­ið að hætta með úr­ræð­ið en þrýst­ing­ur hafi ver­ið sett­ur á að við­halda því. Því verði þó hætt í lok næsta árs og fram und­an sé við­snún­ing­ur á því hús­næð­isstuðn­ings­kerfi sem ver­ið hef­ur við lýði.

5

Vör­uð við að tala eins og „ras­ist­ar út í loft­ið“

Bæj­ar­full­trúi Sjálf­stæð­is­flokks­ins í Reykja­nes­bæ full­yrti á bæj­ar­stjórn­ar­fundi að í versl­un­um í bæn­um væru neyð­ar­hnapp­ar vegna hæl­is­leit­enda. Hann við­ur­kenn­ir nú að þetta sé ekki rétt. Á fund­in­um tal­aði bæj­ar­full­trúi Um­bót­ar um ágang hæl­is­leit­enda. Bæj­ar­full­trúi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar var­aði fólk við að tala eins og ras­ist­ar. Verk­efna­stjóri hjá Rauða kross­in­um seg­ir slæmt þeg­ar yf­ir­völd láti ljót orð, byggð á sögu­sögn­um, falla um flótta­fólk sem sé í af­ar við­kvæmri stöðu.

6

Borg­aði 2 millj­ón­ir fyr­ir sögu­frægt hús á Flat­eyri sem met­ið er á 20

Sögu­frægt timb­ur­hús á Flat­eyri var selt til einka­að­ila í fyrra fyr­ir 1/10 af fast­eigna­mati. Í hús­inu er rek­in bóka- og gjafa­vöru­versl­un. Minja­sjóð­ur Ön­und­ar­fjarð­ar réði ekki við að fjár­magna end­ur­bæt­ur á hús­inu og reyndi að gefa Ísa­fjarð­ar­bæ það. Þeg­ar það gekk ekki bauðst eig­anda versl­un­ar­inn­ar, ‘Ág­ústu Guð­munds­dótt­ur, tæki­færi á að kaupa það fyr­ir yf­ir­töku skulda.

7

Margrét TryggvadóttirSjálfsala­menn­ing­in í Kópa­vogi

Ýms­ir hafa tek­ið and­köf yf­ir nið­ur­skurð­ar­hnífn­um sem mund­að­ur hef­ur ver­ið í kring­um menn­ing­ar­stofn­an­ir Kópa­vogs und­an­farn­ar vik­ur en meiri­hluti Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks í bæn­um hef­ur nú sam­þykkt til­lög­ur bæj­ar­stjór­ans í þeim efn­um. Til­lög­urn­ar sem voru leynd­ar­mál fram að af­greiðslu fela með­al ann­ars í sér nið­ur­lagn­ingu Hér­aðs­skjala­safns Kópa­vogs, án þess að starf­semi þess hafi ver­ið kom­ið ann­að og nið­ur­lagn­ingu á rann­sókn­ar­hluta Nátt­úru­fræði­stofu…

Mest lesið

1

Ætla aldrei aft­ur á Land­spít­al­ann vegna með­göngu

Í tvígang missti Salóme Ýr Svavars­dótt­ir fóst­ur. Í fyrra skipt­ið var hún geng­in rúm­lega ell­efu vik­ur. Eft­ir að hún fékk eink­irn­inga­sótt var henni tjáð að helm­ings­lík­ur væru á að hún héldi fóstr­inu. Ell­efu ár­um síð­ar sit­ur þessi sára reynsla enn í henni. Hún lærði að taka að­eins einn dag í einu.

2

Sif SigmarsdóttirÓsjálf­bjarga óvit­ar

Disney­land hafði frá opn­un ár­ið 1955 þótt skemmti­garð­ur í hæsta gæða­flokki þar sem ýtr­ustu ör­yggis­kröf­um var fram­fylgt. Hvað fór úr­skeið­is?

3

GagnrýniArkitektúr Hlíðarendi

Þétt byggð á Hlíðar­enda alltaf betri kost­ur en nýtt út­hverfi

Magnea Þ. Guð­munds­dótt­ir arki­tekt rýn­ir í bygg­ing­ar og svæði. Að þessu sinni í borg­ar­rým­ið Hlíðar­enda.

4

„Það er erfitt að hætta þessu“

Sig­urð­ur Ingi Jó­hanns­son inn­viða­ráð­herra, sem fer með hús­næð­is­mál í rík­is­stjórn­inni, seg­ir að sá hús­næð­isstuðn­ing­ur sem ver­ið sé að veita í gegn­um skatt­frjáls­an sér­eign­ar­sparn­að til að greiða nið­ur íbúðalán sé „gríð­ar­leg­ur“. Hann gengst við því að stuðn­ing­ur­inn sé að uppi­stöðu ekki að lenda hjá hóp­um sem þurfi helst á hon­um að halda. Reynt hafi ver­ið að hætta með úr­ræð­ið en þrýst­ing­ur hafi ver­ið sett­ur á að við­halda því. Því verði þó hætt í lok næsta árs og fram und­an sé við­snún­ing­ur á því hús­næð­isstuðn­ings­kerfi sem ver­ið hef­ur við lýði.

5

Vör­uð við að tala eins og „ras­ist­ar út í loft­ið“

Bæj­ar­full­trúi Sjálf­stæð­is­flokks­ins í Reykja­nes­bæ full­yrti á bæj­ar­stjórn­ar­fundi að í versl­un­um í bæn­um væru neyð­ar­hnapp­ar vegna hæl­is­leit­enda. Hann við­ur­kenn­ir nú að þetta sé ekki rétt. Á fund­in­um tal­aði bæj­ar­full­trúi Um­bót­ar um ágang hæl­is­leit­enda. Bæj­ar­full­trúi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar var­aði fólk við að tala eins og ras­ist­ar. Verk­efna­stjóri hjá Rauða kross­in­um seg­ir slæmt þeg­ar yf­ir­völd láti ljót orð, byggð á sögu­sögn­um, falla um flótta­fólk sem sé í af­ar við­kvæmri stöðu.

6

Borg­aði 2 millj­ón­ir fyr­ir sögu­frægt hús á Flat­eyri sem met­ið er á 20

Sögu­frægt timb­ur­hús á Flat­eyri var selt til einka­að­ila í fyrra fyr­ir 1/10 af fast­eigna­mati. Í hús­inu er rek­in bóka- og gjafa­vöru­versl­un. Minja­sjóð­ur Ön­und­ar­fjarð­ar réði ekki við að fjár­magna end­ur­bæt­ur á hús­inu og reyndi að gefa Ísa­fjarð­ar­bæ það. Þeg­ar það gekk ekki bauðst eig­anda versl­un­ar­inn­ar, ‘Ág­ústu Guð­munds­dótt­ur, tæki­færi á að kaupa það fyr­ir yf­ir­töku skulda.

7

Margrét TryggvadóttirSjálfsala­menn­ing­in í Kópa­vogi

Ýms­ir hafa tek­ið and­köf yf­ir nið­ur­skurð­ar­hnífn­um sem mund­að­ur hef­ur ver­ið í kring­um menn­ing­ar­stofn­an­ir Kópa­vogs und­an­farn­ar vik­ur en meiri­hluti Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sókn­ar­flokks í bæn­um hef­ur nú sam­þykkt til­lög­ur bæj­ar­stjór­ans í þeim efn­um. Til­lög­urn­ar sem voru leynd­ar­mál fram að af­greiðslu fela með­al ann­ars í sér nið­ur­lagn­ingu Hér­aðs­skjala­safns Kópa­vogs, án þess að starf­semi þess hafi ver­ið kom­ið ann­að og nið­ur­lagn­ingu á rann­sókn­ar­hluta Nátt­úru­fræði­stofu…

8

Fimm góð­ar göngu­leið­ir á höf­uð­borg­ar­svæð­inu

Nú þeg­ar far­ið er að sjást til sól­ar eft­ir lang­an og óvenju­kald­an vet­ur vakn­ar úti­vist­ar­þrá­in hjá mörg­um borg­ar­bú­um. Ein­ar Skúla­son leið­sögu­mað­ur seg­ir frá fimm góð­um göngu­leið­um á höf­uð­borg­ar­svæð­inu.

9

Hrafn JónssonStríð­ið óend­an­lega

Ís­land ætl­ar sér að verða eina land­ið í heim­in­um sem hef­ur sigr­að stríð­ið gegn fíkni­efn­um svo stjórn­völd þurfi ekki að horf­ast í augu við hvað raun­veru­leg­ar úr­bæt­ur kosta.

10

Kristlín DísLengi get­ur vont versn­að

Heimsenda­spá­kon­an Kristlín Dís sér ekki eft­ir neinu í líf­inu. Eða hvað?

Mest lesið í vikunni

1

Fóru tóm­hent heim af fæð­ing­ar­deild­inni

Særós Lilja Tor­d­enskjöld Berg­sveins­dótt­ir var geng­in 23 vik­ur með sitt fyrsta barn þeg­ar ógæf­an skall á. Hún lýs­ir hér að­drag­and­an­um að barn­smissi, dvöl­inni á spít­al­an­um og sorg­inni.

2

SkýringRannsókn á einelti í Menntasjóði

Mann­legu af­leið­ing­arn­ar af einni stöðu­veit­ingu ráð­herra

Mál Hrafn­hild­ar Ástu Þor­valds­dótt­ur hjá Mennta­sjóði náms­manna hef­ur haft fjöl­þætt­ar af­leið­ing­ar á síð­ustu 10 ár­um. Áminn­ing sem hún var með vegna sam­skipta­vanda­mála í ráðu­neyti var aft­ur­köll­uð og Ill­ugi Gunn­ars­son skip­aði hana þvert á mat stjórn­ar LÍN. Síð­an þá hafa kom­ið upp tvö einelt­is­mál í Mennta­sjóði náms­manna og ráðu­neyt­ið rann­sak­ar nú stofn­un­ina vegna þessa.

3

Ætla aldrei aft­ur á Land­spít­al­ann vegna með­göngu

Í tvígang missti Salóme Ýr Svavars­dótt­ir fóst­ur. Í fyrra skipt­ið var hún geng­in rúm­lega ell­efu vik­ur. Eft­ir að hún fékk eink­irn­inga­sótt var henni tjáð að helm­ings­lík­ur væru á að hún héldi fóstr­inu. Ell­efu ár­um síð­ar sit­ur þessi sára reynsla enn í henni. Hún lærði að taka að­eins einn dag í einu.

4

Hjálmtýr HeiðdalGeirfinns­mál­ið í nýju ljósi

Spíra­mál­ið – Ávís­ana­mál­ið – Klúbb­mál­ið og Geirfinns­mál­ið

5

Katrín JúlíusdóttirAð líta upp

Katrín Júlí­us­dótt­ir þreifst um langt skeið á streitu­kenndri full­komn­un­ar­áráttu. Hún hafn­aði þeirri Pol­lýönnu sem sam­ferða­fólk líkti henni við, fannst hún ekki nógu töff fyr­ir sig, en tek­ur Pol­lýönnu og nálg­un henn­ar á líf­ið nú opn­um örm­um.

6

Sif SigmarsdóttirÓsjálf­bjarga óvit­ar

Disney­land hafði frá opn­un ár­ið 1955 þótt skemmti­garð­ur í hæsta gæða­flokki þar sem ýtr­ustu ör­yggis­kröf­um var fram­fylgt. Hvað fór úr­skeið­is?

7

Símon VestarrReykja­nes­bæj­ar­bú­inn sem var aldrei spurð­ur

„Það er það eina sem ras­ismi er. Rang­hug­mynd sem fólk þarf hjálp við að sigr­ast á. Fyrsta skref­ið er að við­ur­kenna vand­ann. Hætta að fara und­an í flæm­ingi.“ Sím­on Vest­arr Hjalta­son skrif­ar um birt­ing­ar­mynd­ir kyn­þátta­for­dóma.

Mest lesið í mánuðinum

1

Móð­ir manns­ins sem lést eft­ir stungu­árás: „Ég dæmi ekki for­eldra þeirra því ég er sjálf móð­ir“

Móð­ir manns­ins sem lést á fimmtu­dag eft­ir að hafa ver­ið stung­inn á bíla­stæði Fjarð­ar­kaupa í Hafnar­firði seg­ist vera með djúpt sár í hjart­anu. Son­ur henn­ar hafi átt dótt­ur í Póllandi en hafi ver­ið hér til að sjá fyr­ir fjöl­skyldu sinni. Hún er að bug­ast af sorg en reikn­ar þó með að mesta sjokk­ið sé eft­ir.

2

Þórður Snær Júlíusson„Það vík­ur ekki þeg­ar það labb­ar á miðri götu og ég er að keyra göt­una“

Til­raun stend­ur yf­ir við að flytja inn menn­ing­ar­stríð til Ís­lands sem póli­tísk­ir lukk­uridd­ar­ar hafa getað nýtt sér ann­ars stað­ar í leit að völd­um. Það snýst um að skipta heim­in­um upp, á grund­velli hræðslu­áróð­urs, í „okk­ur“ og „hin­a“. Svart­hvíta mynd sem að­grein­ir hið „góða“ frá hinu „illa“. Og ráð­ast svo á ímynd­aða and­stæð­ing­inn.

3

Kristján Ein­ar var dæmd­ur fyr­ir of­beld­is­fullt rán á Spáni

Kristján Ein­ar Sig­ur­björns­son sjómað­ur, sem stund­um er kall­að­ur áhrifa­vald­ur, var dæmd­ur í tæp­lega fjög­urra ára skil­orðs­bund­ið fang­elsi fyr­ir rán og til­raun til ráns í fyrra. Hann sat í gæslu­varð­haldi í átta mán­uði og ját­aði sök á end­an­um og kom til Ís­lands. Við heim­kom­una sagði hann sög­ur um brot sín og afplán­un sem ganga ekki al­veg upp mið­að við dóm­inn í máli hans.

4

ViðtalFjárhagslegt ofbeldi

Loks­ins frjáls úr hel­víti

Kona sem er að losna úr ára­tuga hjóna­bandi átt­aði sig ekki á því fyrr en fyr­ir þrem­ur ár­um að hún væri beitt and­legu of­beldi af eig­in­manni sín­um, og enn síð­ar að of­beld­ið væri einnig bæði kyn­ferð­is­legt og fjár­hags­legt. Hún seg­ir hann iðu­lega koma með nýj­ar af­sak­an­ir fyr­ir því að skrifa ekki fjár­skipta­samn­ing og draga þannig að klára skiln­að­inn. Hún seg­ist stund­um hafa ósk­að þess að hann myndi lenda í bíl­slysi og deyja. Að­eins þannig yrði hún frjáls.

5

ÚttektErfðavöldin á Alþingi

Þing­mennska reyn­ist ná­tengd ætt­erni

Af nú­ver­andi al­þing­is­mönn­um er þriðj­ung­ur tengd­ur nán­um fjöl­skyldu­bönd­um við fólk sem áð­ur hef­ur set­ið á Al­þingi. Fimm þing­menn eiga feð­ur sem sátu á Al­þingi og fjór­ir þing­menn eiga afa eða ömmu sem einnig voru al­þing­is­menn. Þessu til við­bót­ar eru tólf þing­menn ná­tengd­ir fólki sem hef­ur ver­ið virkt í sveit­ar­stjórn­um eða hef­ur ver­ið áhrifa­fólk í stjórn­mála­flokk­um.

6

Íbú­ar um flótta­fólk: „Mik­ið af þessu á flakki á nótt­unni“

Blaða­mað­ur og ljós­mynd­ari Heim­ild­ar­inn­ar heim­sóttu Reykja­nes­bæ og tóku nokkra íbúa tali um þann orð­róm sem geng­ið hef­ur um bæ­inn, að ógn stafi af flótta­fólki og um­sækj­end­um um al­þjóð­lega vernd.

7

Eig­andi Arn­ar­lax ótt­ast að tími sjókvía sé senn á enda á Ís­landi

Norska lax­eld­is­fyr­ir­tæk­ið Salm­ar AS, stærsti hlut­hafi Arn­ar­lax á Bíldu­dal, hef­ur áhyggj­ur af því að tími sjókvía á Ís­landi kunni senn að vera á enda. Á sama tíma þró­ar fyr­ir­tæk­ið af­l­ands­lausn­ir í lax­eldi sem flytja eiga iðn­að­inn út á rúm­sjó.

Mest lesið í mánuðinum

1

Móð­ir manns­ins sem lést eft­ir stungu­árás: „Ég dæmi ekki for­eldra þeirra því ég er sjálf móð­ir“

Móð­ir manns­ins sem lést á fimmtu­dag eft­ir að hafa ver­ið stung­inn á bíla­stæði Fjarð­ar­kaupa í Hafnar­firði seg­ist vera með djúpt sár í hjart­anu. Son­ur henn­ar hafi átt dótt­ur í Póllandi en hafi ver­ið hér til að sjá fyr­ir fjöl­skyldu sinni. Hún er að bug­ast af sorg en reikn­ar þó með að mesta sjokk­ið sé eft­ir.

2

Þórður Snær Júlíusson„Það vík­ur ekki þeg­ar það labb­ar á miðri götu og ég er að keyra göt­una“

Til­raun stend­ur yf­ir við að flytja inn menn­ing­ar­stríð til Ís­lands sem póli­tísk­ir lukk­uridd­ar­ar hafa getað nýtt sér ann­ars stað­ar í leit að völd­um. Það snýst um að skipta heim­in­um upp, á grund­velli hræðslu­áróð­urs, í „okk­ur“ og „hin­a“. Svart­hvíta mynd sem að­grein­ir hið „góða“ frá hinu „illa“. Og ráð­ast svo á ímynd­aða and­stæð­ing­inn.

3

Kristján Ein­ar var dæmd­ur fyr­ir of­beld­is­fullt rán á Spáni

Kristján Ein­ar Sig­ur­björns­son sjómað­ur, sem stund­um er kall­að­ur áhrifa­vald­ur, var dæmd­ur í tæp­lega fjög­urra ára skil­orðs­bund­ið fang­elsi fyr­ir rán og til­raun til ráns í fyrra. Hann sat í gæslu­varð­haldi í átta mán­uði og ját­aði sök á end­an­um og kom til Ís­lands. Við heim­kom­una sagði hann sög­ur um brot sín og afplán­un sem ganga ekki al­veg upp mið­að við dóm­inn í máli hans.

4

ViðtalFjárhagslegt ofbeldi

Loks­ins frjáls úr hel­víti

Kona sem er að losna úr ára­tuga hjóna­bandi átt­aði sig ekki á því fyrr en fyr­ir þrem­ur ár­um að hún væri beitt and­legu of­beldi af eig­in­manni sín­um, og enn síð­ar að of­beld­ið væri einnig bæði kyn­ferð­is­legt og fjár­hags­legt. Hún seg­ir hann iðu­lega koma með nýj­ar af­sak­an­ir fyr­ir því að skrifa ekki fjár­skipta­samn­ing og draga þannig að klára skiln­að­inn. Hún seg­ist stund­um hafa ósk­að þess að hann myndi lenda í bíl­slysi og deyja. Að­eins þannig yrði hún frjáls.

5

ÚttektErfðavöldin á Alþingi

Þing­mennska reyn­ist ná­tengd ætt­erni

Af nú­ver­andi al­þing­is­mönn­um er þriðj­ung­ur tengd­ur nán­um fjöl­skyldu­bönd­um við fólk sem áð­ur hef­ur set­ið á Al­þingi. Fimm þing­menn eiga feð­ur sem sátu á Al­þingi og fjór­ir þing­menn eiga afa eða ömmu sem einnig voru al­þing­is­menn. Þessu til við­bót­ar eru tólf þing­menn ná­tengd­ir fólki sem hef­ur ver­ið virkt í sveit­ar­stjórn­um eða hef­ur ver­ið áhrifa­fólk í stjórn­mála­flokk­um.

6

Íbú­ar um flótta­fólk: „Mik­ið af þessu á flakki á nótt­unni“

Blaða­mað­ur og ljós­mynd­ari Heim­ild­ar­inn­ar heim­sóttu Reykja­nes­bæ og tóku nokkra íbúa tali um þann orð­róm sem geng­ið hef­ur um bæ­inn, að ógn stafi af flótta­fólki og um­sækj­end­um um al­þjóð­lega vernd.

7

Eig­andi Arn­ar­lax ótt­ast að tími sjókvía sé senn á enda á Ís­landi

Norska lax­eld­is­fyr­ir­tæk­ið Salm­ar AS, stærsti hlut­hafi Arn­ar­lax á Bíldu­dal, hef­ur áhyggj­ur af því að tími sjókvía á Ís­landi kunni senn að vera á enda. Á sama tíma þró­ar fyr­ir­tæk­ið af­l­ands­lausn­ir í lax­eldi sem flytja eiga iðn­að­inn út á rúm­sjó.

8

Hvað gerð­ist eig­in­lega í Elon Musk við­tal­inu?

Elon Musk ræddi við frétta­mann BBC í tæpa klukku­stund nú á dög­un­um. Við­tal­ið hef­ur far­ið eins og eldsveip­ur um net­heima. Heim­ild­in tók sam­an meg­in at­riði við­tals­ins.

9

Ásmund­ur Ein­ar skráði ekki hús sem hann leig­ir út á 400 þús­und á mán­uði í hags­muna­skrá

Ásmund­ur Ein­ar Daða­son, mennta- og barna­mála­ráð­herra, seg­ir að það hafi ver­ið mis­tök að hús sem hann á í Borg­ar­nesi hafi ekki ver­ið skráð í hags­muna­skrá. Ráð­herr­ann og eig­in­kona hans hafa leigt hús­ið út fyr­ir 400 þús­und á mán­uði síð­ast­lið­ið ár. Sam­kvæmt regl­um um hags­muna­skrán­ingu eiga þing­menn að til­greina fast­eign­ir sem þeir búa ekki í hags­muna­skrán­ingu sem og tekj­ur sem þeir hafa af þeim.

10

Fóru tóm­hent heim af fæð­ing­ar­deild­inni

Særós Lilja Tor­d­enskjöld Berg­sveins­dótt­ir var geng­in 23 vik­ur með sitt fyrsta barn þeg­ar ógæf­an skall á. Hún lýs­ir hér að­drag­and­an­um að barn­smissi, dvöl­inni á spít­al­an­um og sorg­inni.

Nýtt efni

Erj­ur

Sófa­kart­afl­an rýn­ir í þáttar­öð­ina Beef. Henni lík­aði vel við það sem hún sá – en ein­ung­is eitt varp­aði skugga á upp­lif­un­ina.

Dóms­dag­ur

Andrea og Stein­dór ræða mynd Eg­ils Eð­varðs­son­ar frá 1998, Dóms­dag­ur.

Ástþór JóhannssonÓvissu­þátt­un­um fjölg­ar í að­drag­anda tvö­faldra tyrk­neskra kosn­inga

Ást­þór Jó­hanns­son fer yf­ir stöð­una í tyrk­nesk­um stjórn­mál­um og velt­ir fyr­ir sér hvort Kemal Kilicd­aroglu, helsti mót­fram­bjóð­andi Recep Tayyip Er­dog­an, sitj­andi for­seta, eigi raun­veru­lega mögu­leika í kom­andi for­seta­kosn­ing­um.

Lands­bank­inn sagð­ur hafa sýnt af sér van­rækslu og því tap­aði hann Borg­un­ar­mál­inu

Í byrj­un árs 2017 höfð­aði Lands­bank­inn mál á hend­ur hópn­um sem hann seldi 31,2 pró­sent hlut í Borg­un síðla árs 2014. Hann taldi kaup­end­urna hafa blekkt sig og hlunn­far­ið sem leitt hafi til þess að bank­inn varð af 1,9 millj­örð­um króna. Lands­bank­inn tap­aði mál­inu fyr­ir dóm­stól­um í síð­ustu viku.

Borg­aði 2 millj­ón­ir fyr­ir sögu­frægt hús á Flat­eyri sem met­ið er á 20

Sögu­frægt timb­ur­hús á Flat­eyri var selt til einka­að­ila í fyrra fyr­ir 1/10 af fast­eigna­mati. Í hús­inu er rek­in bóka- og gjafa­vöru­versl­un. Minja­sjóð­ur Ön­und­ar­fjarð­ar réði ekki við að fjár­magna end­ur­bæt­ur á hús­inu og reyndi að gefa Ísa­fjarð­ar­bæ það. Þeg­ar það gekk ekki bauðst eig­anda versl­un­ar­inn­ar, ‘Ág­ústu Guð­munds­dótt­ur, tæki­færi á að kaupa það fyr­ir yf­ir­töku skulda.

Berglind Rós MagnúsdóttirNæð­ing­ur um næð­ið

Berg­lind Rós Magnús­dótt­ir, pró­fess­or og deild­ar­for­seti við Menntavís­inda­svið Há­skóla Ís­lands, velt­ir fyr­ir sér verk­efnamið­uðu vinnu­rými í aka­demísku um­hverfi. Eru æðstu stjórn­end­ur Há­skóla Ís­lands að fram­selja dýr­mæt rétt­indi?

Ein áhrifa­mesta kona í dönsku at­vinnu­lífi hrökklast frá

Þeg­ar Lizette Ris­ga­ard var kjör­in fyrsti formað­ur danska al­þýðu­sam­bands­ins fyr­ir fjór­um ár­um þóttu það mik­il tíð­indi. Kona hafði ekki áð­ur gegnt svo háu embætti inn­an sam­taka launa­fólks. Nú hef­ur hún hrökklast úr for­manns­stóln­um.

Fimm góð­ar göngu­leið­ir á höf­uð­borg­ar­svæð­inu

Nú þeg­ar far­ið er að sjást til sól­ar eft­ir lang­an og óvenju­kald­an vet­ur vakn­ar úti­vist­ar­þrá­in hjá mörg­um borg­ar­bú­um. Ein­ar Skúla­son leið­sögu­mað­ur seg­ir frá fimm góð­um göngu­leið­um á höf­uð­borg­ar­svæð­inu.

Ung og töff með stutt­skíf­ur

Dr. Gunni er hrif­inn af tveim­ur upp­renn­andi ungst­irn­um: Daniil og Lúpínu.

Efn­ir til „alls­herj­ar af­vopn­un­ar“ eft­ir tvær mann­skæð­ar skotárás­ir

Skot­vopna­lög­gjöf í Serbíu verð­ur hert eft­ir að 17 lét­ur líf­ið í tveim­ur skotárás­um sem gerð­ar voru í land­inu með stuttu milli­bili í vik­unni. Al­eks­and­ar Vucic, for­seti Serbíu ætl­ar að efna til „alls­herj­ar af­vopn­un­ar“.

Þorvaldur GylfasonÓdáða­eign­ir

Hvað er hægt að gera til að end­ur­heimta ráns­feng ein­ræð­is­herra og fá­valda?

Stjórn­völd vita ekki hversu marg­ir flótta­menn frá Venesúela eru á Ís­landi

Út­lend­inga­stofn­un býr ekki yf­ir upp­lýs­ing­um um hversu marg­ir íbú­ar frá Venesúela sem feng­ið hafa vernd sem flótta­menn hér á landi eru enn þá hér. Stjórn­völd hafa ákveð­ið að hætta að veita Venesúela­bú­um sjálf­krafa við­bót­ar­vernd hér á landi vegna breyttra að­stæðna í land­inu.

Mest lesið undanfarið ár

1

Jón Bald­vin við nem­anda: „Viltu hitta mig eft­ir næsta tíma“

Fimmtán ára stúlka í Haga­skóla hélt dag­bók vor­ið 1970 þar sem hún lýs­ir kyn­ferð­is­leg­um sam­skipt­um við Jón Bald­vin Hanni­bals­son sem þá var 31 árs gam­all kenn­ari henn­ar. Í bréfi sem hann sendi stúlk­unni seg­ist hann vilja stinga af frá öllu og liggja í kjöltu henn­ar.

2

Þar sem ósýni­lega fólk­ið býr í borg­inni

„Þetta var ör­ugg­asti stað­ur­inn minn,“ seg­ir Alma Lind Smára­dótt­ir þeg­ar hún opn­ar inn í ruslageymslu í bíla­kjall­ara í Reykja­vík. Þarna bjó hún hluta þeirra þriggja ára sem hún þvæld­ist um göt­ur bæj­ar­ins. Borg­in sést í öðru ljósi þeg­ar hún er séð með aug­um heim­il­is­lausra, ósýni­lega fólks­ins, þeirra sem flest­ir líta fram hjá eða hrekja burt. Ít­ar­legt og einlgæt við­tal við Ölmu Lind birt­ist í 162. tölu­blaði Stund­ar­inn­ar og má lesa í heild á slóð­inni: htt­ps://stund­in.is/grein/16051/

3

„Ég get ekki lif­að við þessa lygi“

Sig­ur­laug Hreins­dótt­ir seg­ir lög­regl­una hafa brugð­ist þeg­ar dótt­ir henn­ar hvarf fyr­ir fimm ár­um síð­an. Nefnd um eft­ir­lit með störf­um lög­reglu ger­ir fjöl­marg­ar at­huga­semd­ir við fram­göngu lög­reglu í mál­inu og bein­ir til­mæl­um um úr­bæt­ur til rík­is­lög­reglu­stjóra. „Ég biðst ein­lægr­ar af­sök­un­ar,“ skrif­ar Grím­ur Gríms­son, sem var hamp­að sem hetju og tók á móti við­ur­kenn­ingu sem mað­ur árs­ins. „Það var ótrú­lega sárt,“ seg­ir Sig­ur­laug. Sér hafi ver­ið fórn­að fyr­ir ímynd lög­regl­unn­ar.

4

„Hann hef­ur ekki beðist af­sök­un­ar“

Tón­list­ar­mað­ur­inn Auð­unn Lúth­ers­son, sem kall­ar sig Auð­ur, hef­ur við­ur­kennt að hafa far­ið „yf­ir mörk“ í sam­skipt­um við kon­ur. Kon­ur lýsa ágengni og meið­andi fram­komu sem hann hafi aldrei axl­að ábyrgð á.

5

Lifði af þrjú ár á göt­unni

Alma Lind Smára­dótt­ir end­aði á göt­unni eft­ir að hún missti son sinn frá sér. Þar þvæld­ist hún um í þrjú ár með sár sem náðu aldrei að gróa. Þeg­ar hún varð barns­haf­andi á ný mætti barna­vernd á fæð­ing­ar­deild­ina og fór fram á að hún myndi af­sala sér barn­inu.

6

„Hann var ekki að kaupa að­gengi að mér þeg­ar hann lán­aði mér pen­ing“

Katrín Lóa Kristrún­ar­dótt­ir þótt­ist hepp­in þeg­ar henni var tjáð af vinnu­veit­anda sín­um, Helga Vil­hjálms­syni í Góu, að hann gæti lán­að henni fyr­ir út­borg­un í íbúð. Hún hefði þó aldrei þeg­ið slíkt lán ef hún hefði vit­að hvað það hefði í för með sér en Katrín Lóa lýs­ir því að eft­ir lán­veit­ing­una hafi hún þurft að sitja und­ir kyn­ferð­is­legri áreitni Helga svo mán­uð­um skipti. Helgi bið­ur Katrínu Lóu af­sök­un­ar á fram­ferði sínu.

7

Mata-veld­ið: Skattaund­an­skot og sam­keppn­is­brot í skjóli rík­is­ins

Mata-systkin­in og fyr­ir­tæki þeirra hafa ít­rek­að ver­ið gerð aft­ur­reka með við­skiptaflétt­ur sem fólu í sér að koma mörg hundruð millj­óna hagn­aði und­an skatti. Á sama tíma og fyr­ir­tæki fjöl­skyld­unn­ar byggja hagn­að sinn á sölu mat­væla und­ir toll­vernd, hafa þau greitt há­ar sekt­ir fyr­ir sam­keppn­is­brot og lagst í ómælda vinnu við að kom­ast und­an því að greiða skatta hér á landi, með við­skiptaflétt­um í gegn­um þekkt skatta­skjól.

8

Skutl­að sex­tán ára til fanga á Litla-Hrauni: „Ég var alltaf hrædd“

Ingi­björg Lára Sveins­dótt­ir var sex­tán ára þeg­ar henni var ek­ið á Litla-Hraun í heim­sókn­ir til manns sem afplán­aði átta ára dóm fyr­ir full­komna am­feta­mín­verk­smiðju. Hún seg­ir sorg­legt að starfs­fólk hafi ekki séð hættu­merk­in þeg­ar hún mætti. Eng­inn hafi gert at­huga­semd við ald­ur henn­ar, þeg­ar henni var vís­að inn í her­bergi með steyptu rúmi þar sem henn­ar beið tölu­vert eldri mað­ur með hættu­leg­an af­brota­fer­il.

9

Magda­lena – „Til þess að fá nálg­un­ar­bann, þá verð­ur þú að fá hann til að ráð­ast á þig“

Magda­lena Valdemars­dótt­ir var föst í of­beld­is­sam­bandi í 10 mán­uði og seg­ir of­beld­ið hafi hald­ið áfram þrátt fyr­ir sam­bands­slit. Al­var­legt of­beldi á sér stund­um stað eft­ir sam­bands­slit og það er ekk­ert sem seg­ir að þeg­ar of­beld­is­sam­bandi sé slit­ið þá sé of­beld­ið bú­ið. Ár­ið 2017 kærði Magda­lena barns­föð­ur sinn fyr­ir til­raun til mann­dráps. Barns­fað­ir henn­ar fékk 18 mán­að fang­elsi fyr­ir hús­brot, eigna­spjöll og lík­ams­árás með því að hafa ruðst inn til henn­ar, sleg­ið hana tví­veg­is með flöt­um lófa í and­lit en jafn­framt tek­ið hana í tvisvar sinn­um kverka­taki með báð­um hönd­um þannig að hún átti erfitt með að anda en hún var geng­in 17 vik­ur á leið með tví­bura þeirra.

10

Eig­andi Mandi ákærð­ur fyr­ir lík­ams­árás: „Hann spark­aði í mag­ann á mér og sló mig í höf­uð­ið, ít­rek­að“

Hlal Jarah, eig­andi veit­inga­stað­ar­ins Mandi hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að ráð­ast með bar­smíð­um á Kefs­an Fatehi á ann­an dag jóla 2020. Upp­tök­ur sýna Hlal slá Kefs­an í höf­uð­ið og sparka í hana. Sjálf lýs­ir hún ógn­un­um, morð­hót­un­um og kyn­ferð­is­legri áreitni af hendi Hlal og manna hon­um tengd­um.