Óvön áhöfn olli óvissu í mælingum

0
113

Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir óvissu í mælingu valda því að upphafsráðgjöf fyrir næstu loðnuvertíð er engin. Síðari mælingar hafa engin áhrif á upphafsráðgjöfina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skortur á togsýnum vegna óvanrar áhafnar eru meðal ástæðna fyrir því að mikil óvissa varð í stofnmælingu loðnu síðastliðið haust. Þar sem upphafsráðgjöf fyrir loðnu byggir eingöngu á beinum niðurstöðum haustmælingar á ungloðnu sem fram fór haustið 2022 mun upphafsráðgjöfin vera að engin loðnuveiði fari fram á næstu vertíð.

Þetta segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar. Hann segir jafnframt að niðurstöður febrúarmælingarinnar og endurskoðuð ráðgjöf um hámarksveiði á nýlokinni vertíð sem kynnt var 24. febrúar síðastliðinn hafi engin áhrif á upphafsráðgjöfina og heldur engin áhrif á mótun ráðgjafar um heildarveiði næstu vertíðar.

„Mæling í haust á fullorðinni loðnu mun svo gefa endurskoðaða ráðgjöf, en sú ráðgjöf er alveg óháð endurskoðun frá febrúar síðastliðnum,“ útskýrir hann.

Þurfa togsýni Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) gaf út 29. nóvember á síðasta ári að upphafskvóti á vertíðinni 2023/2024 yrði enginn.

Guðmundur bendir á að í ráðgjafarskjalinu sem fylgir ráðgjöf ICES hafi verið vakin athygli á að töluverð óvissa hafi verið í mælingunum og hún hafi verið annars konar en sést alla jafna.

„Þeim á nýja grænlenska rannsóknarskipinu gekk illa að halda trollinu upp við yfirborð sjávar til að ná sýnum þar í byrjun leiðangurs, enda ný og óvön áhöfn. Þau lærðu þetta eftir nokkur tog, en afleiðingin var að engin loðnusýni náðust á suðurhluta svæðisins og þá er ekki hægt að túlka lóðningar sem sáust á bergmálstækjunum þar sem loðnu. Við þurfum togsýni til að staðfesta fisktegundina og til að fá stærðarsamsetningu. Við sjáum að þetta gæti hafa valdið verulega vanmati á magn ungloðnu og því er þessi 0 ráðgjöf með þeim fyrirvara að óvissan sé meiri en að öllu jöfnu,“ útskýrir Guðmundur.

Góð veiði var hjá loðnuskipunum í vetur. mbl.is/Börkur Kjartansson

Fóru í fleiri leiðangra Á grundvelli haustmælinga á ungloðnu 2021 var gefin út upphafsráðgjöf um 400 þúsund tonna hámarksveiði á loðnuvertíðinni 2022/2023. Á grundvelli niðurstaðna haustmælinga 2022 tilkynnti hins vegar stofnunin í október á síðasta ári að ráðlagður hámarksafli yrði aðeins 218.400 tonn á vertíðinni.

Í ljósi hins mikla misræmis milli haustmælingarinnar og upphafsráðgjafar var ákveðið að halda í sérstakan desemberleiðangur, en vegna hafíss tókst ekki að skila marktækri stofnmælingu. Vetrarmælingin í janúar skilaði frekari upplýsingum og var ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar endurskoðuð og með því aukin um 57 þúsund tonn.

Hafís hafði þó truflað yfirferð rannsóknaskipa á vestasta svæðinu og var því gefinn út fyrirvari um að reynt yrði að ná betri mælingu síðar. Hinn 24. febrúar var síðan tilkynnt að ráðgjöf um hámarksafla yrði aukin um 184 þúsund tonn til viðbótar.

Niðurstöður þessa leiðangra í vetur munu sem fyrr segir ekki hafa nein áhrif á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vegna loðnuvertíðarinnar 2023/2024.