1 C
Grindavik
28. nóvember, 2020

Patríarki serb­nesku rétt­trúnaðar­kirkjunnar látinn af völdum Co­vid-19

Skyldulesning

Æðsti biskup serbnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, patríarkinn Irinej, er látinn af völdum Covid-19, níræður að aldri.

Irinej hafði stýrt útför Amfilohije Radovic, æðsta klerksins í nágrannaríkinu Svartfjallalandi í byrjun nóvember, en Radovic hafði sjálfur látist af völdum Covid-19. Irinej greindist og var svo lagður inn á sjúkrahús með Covid-19 fáeinum dögum síðar.

Aleksandar Vucic Serbíuforseti segir í færslu á Instagram að það hafi verið mikill heiður að hafa kynnst Irinej. „Fólk eins og þú deyja aldrei,“ sagði forsetinn.

Irinej var mjög íhaldssamur í skoðunum og hafði jafnframt mikil áhrif á sviði stjórnmála. Hann hafði gagnrýnt Serbíustjórn harðlega fyrir að heimila viðburði á borð við réttindagöngur hinsegin fólks og sagt samkynhneigð vera „frávik manneðlis“

Alls eru um 12 milljónir manna innan serbnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og búa flestir þeirra í ríkjum á Balkanskaga.

Rúmlega 104 þúsund manns hafa nú greinst með Covid-19 í Serbíu frá upphafi faraldursins. Þá eru skráð dauðsföll nú rúmlega 1.100.

Innlendar Fréttir