7.3 C
Grindavik
24. október, 2021

Pep Guardiola: Engin þráhyggja í gangi

Skyldulesning

Knattspyrnustjóri Manchester City vill ekki meina að allt snúist nú um það hjá Manchester City að vinna loksins Meistaradeildina.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur ekki unnið Meistaradeildina í tíu ár en Manchester City hefur aldrei náð því að vinna stærstu keppni Evrópu.

Guardiola var spurður út í mikilvægi Meistaradeildarinnar á blaðamannafundi fyrir leik Manchester City á móti gríska liðinu Olympiakos sem fer fram á Georgios Karaiskakis leikvanginum í kvöld.

Pep Guardiola hefur verið knattspyrnustjóri Manchester City frá 1. júlí 2016 en liðið hefur aldrei komist lengra en í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. City hefur unnið ensku deildina tvisvar, enska bikarinn og enska deildabikarinn þrisvar sinnum undir stjórn Guardiola.

Þegar kemur að Meistaradeildinni þá á Manuel Pellegrini enn besta árangur knattspyrnustjóra eftir að hafa farið með City liðið í undanúrslit tímabilið á undan því að Pep Guardiola var ráðinn. Guardiola var ráðinn til að komast yfir þröskuldinn og landa loksins Meistaradeildarbikarnum.

Raunin hefur verið önnur. City hefur náð frábærum árangri á öllum sviðum nema í Meistaradeildinni. Liðið datt út í sextán liða úrslitunum á fyrsta tímabili Pep en hefur síðan verið slegið út í átta liða úrslitunum undanfarin þrjú tímabil.

Pep Guardiola vann Meistaradeildina tvisvar með Barcelona en það var 2009 og 2011. Biðin er líka orðin löng hjá honum.

„Við munum gera okkar besta,“ sagði Pep Guardiola sem segir að það sé ekki þráhyggja hjá honum og hans mönnum í Manchester City að vinna loksins Meistaradeildina.

„Nú er mikilvægt tækifæri til að svo gott sem tryggja okkur áfram. Það er svo gott að vera meðal sextán bestu liðum Evrópu,“ sagði Guardiola.

„Ég bjóst við svari frá mínum mönnum eftir síðasta Meistaradeildartímabil sem endaði á móti Lyon í Portúgal. Við vitum hvað við þurfum að gera,“ sagði Guardiola. Manchester City er í mjög fínum málum í Meistaradeildinni með þrjá sigra í fyrstu þremur leikjunum en á sama tíma í tómu tjóni í ensku úrvalsdeildinni þar sem liðið situr í 13. sæti eftir tap á móti Tottenham um helgina.

„Tímabilið er ungt ennþá en ég er fullur bjartsýni á það að þetta eigi eftir að verða gott tímabil fyrir okkur,“ sagði Guardiola.

Leikur Olympiakos og Manchester City er einn af fjórum leikjum sem verður sýndur beint á Stöð 2 Sport í kvöld. Útsendingin frá honum hefst klukkan 17.45 á Stöð 2 Sport 4.

Hinir leikir kvöldsins sem verða í beinni eru Inter-Real Madrid á Stöð 2 Sport 5, leikur Bayern München og Red Bull Salzburg á Stöð 2 Sport og svo leikur Liverpool og Atalanta á Stöð 2 Sport 4 en útsending frá öllum þessum leikjum hefst klukkan 19.50.

Meistaradeildarmessan mun hita upp fyrir kvöldið frá klukkan 19.30 á Stöð 2 Sport 2 og sýna mörg og dauðafæri úr öllum leikjum um leið og eitthvað gerist. Meistaradeildarmörkin eru síðan á dagskránni á sömu stöð eftir að leikjum kvöldsins lýkur.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir