2.3 C
Grindavik
29. janúar, 2023

Pólitískar til­­­nefningar standast ekki al­­þjóð­­leg við­mið um stjórnar­hætti

Skyldulesning

Tilnefningar í stjórnir fyrirtækja í eigu íslenska ríkisins, að fjármálafyrirtækjum undanskildum, uppfylla ekki alþjóðleg viðmið um góða stjórnarhætti og Ísland sker sig úr hópi OECD-ríkja að þessu leyti. Þetta segir Helga Hlín Hákonardóttir, meðeigandi hjá ráðgjafafyrirtækinu Strategíu, sem hefur um árabil veitt stofnanafjárfestum og hinu opinbera ráðgjöf um stjórnarhætti og stefnumótun.

„Það segir sig sjálft að forsendurnar fyrir tilnefningu, þ.e að viðkomandi sé skráður í stjórnmálaflokk eða hljóti náð fyrir augum þess þingflokks sem fjármálaráðherra gefur færi á að tilnefna í viðkomandi stjórnir, standast ekki viðurkennd alþjóðleg viðmið um vandaða stjórnarhætti opinberra aðila,“ segir Helga Hlín.

Almenna eigandastefna ríkisins, sem ætlað er að tryggja að ríkisfyrirtæki séu rekin á faglegan og gegnsæjan hátt, var tekin til endurskoðunar undir loks síðasta árs. Lögð var áhersla á að innleiða sjónarmið um samfélagslega ábyrgð en ekki var ráðist í sérstakar umbætur á því hvernig íslenska ríkið skipar í stjórnir fyrirtækjanna.

Helga Hlín bendir á að enn skorti lýsingu á faglegu ferli við tilnefningu einstaklinga til stjórna ríkisfyrirtækja, svo sem Landsvirkjunar, Isavia og Íslandspósts. Tilnefningarferlið er því hvorki í samræmi við leiðbeiningar OECD frá árinu 2015 um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja né almennt viðurkenndar venjur um góða stjórnarhætti.

„Við vitum flest, eða á ég að segja að okkur grunar flest, hvernig ferlinu í kringum tilnefningar í stjórnir ríkisfyrirtækja er háttað í dag. Ég sé ekki betur en að tilnefningar séu flokkspólitískar en ekki eingöngu faglegar eins og leiðbeiningar OECD kveða á um.“

Nýlega var greint frá því að sonur Ingu Sælands, formanns Flokks fólksins, hefði komið nýr inn í stjórn Íslandspósts en engar upplýsingar er að finna um fyrri störf hans eða menntun. Hvorki Inga né Flokkur fólksins hafa svarað ítrekuðum fyrirspurnum Innherja um þær hæfniskröfur sem flokkurinn gerir til fulltrúa sinna í stjórnum ríkisfyrirtækja eins og Íslandspósti sem velti 7,5 milljörðum króna á síðasta ári.

Helga Hlín tekur fram að gagnrýnin snúist ekki um núverandi stjórnarmenn ríkisfyrirtækja heldur um trúverðugleika ferlisins og samkeppnishæfni ríkisfyrirtækja sem gegna sum kerfislega mikilvægu hlutverki í samfélaginu.

Ég sé ekki betur en að tilnefningar séu flokkspólitískar en ekki eingöngu faglegar eins og leiðbeiningar OECD kveða á um

„Ferlið er hins vegar hvergi skráð eða samþykkt né heldur gegnsæi um þær faglegur kröfur sem gerðar skulu til stjórnarmanna, eins og til dæmis við mat á hæfni og ráðningu í embætti á vegum ríkisins. Óhjákvæmilega verður ferlið því ótrúverðugt og ólýðræðislegt fyrir utan það að ríkisfyrirtækin kunna að fara á mis við virðisaukann sem felst í því að setja saman faglegar stjórnir út frá þekkingu, reynslu og hæfni stjórnarmanna,“ segir Helga Hlín.

Samkvæmt könnun sem var gerð í OECD ríkjunum árið 2013 voru Brasilía, Mexíkó og Tyrkland einu löndin sem ekki gerðu kröfu um að stjórnarmenn í stjórnum ríkisfyrirtækja væru óháðir hinu opinbera. Í Svíþjóð var gerð undantekning ef viðkomandi fyrirtæki hafði opinberu þjónustuhlutverki að gegna, en engu að síður voru 90 prósent allra stjórnarmanna í ríkisfyrirtækjum úr einkageiranum þegar könnunin er gerð. Engar upplýsingar bárust frá Íslandi.

Hlutverk eigenda og stjórnarmanna þurfa að vera afmörkuð

En tilnefningarferlið er ekki það eina í eigandastefnu ríkisins sem er úr takti við framangreindar leiðbeiningar OECD. Í inngangi eigandastefnunnar kemur fram að ef félag er í minnihlutaeigu ríkisins skulu þeir sem kjörnir eru fyrir hönd ríkisins taka mið af þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í eigandastefnunni.

Þá er í eigandastefnunni kveðið á um skyldu stjórnarmanna að taka í störfum sínum og ákvörðunum mið af tilteknum hagsmunum ríkisins sem settir eru fram í stefnunni, óháð því hvort ákvarðanir þess efnis hafa verið teknar á hluthafafundum viðkomandi félags.

Helga Hlín bendir á að þarna virðist gert ráð fyrir að einhvers konar sértækt trúnaðarsamband sé á milli ríkisins og stjórnarmanna fyrirtækja sem ríkið á eignarhlut í, og að sá trúnaður sé umfram trúnað stjórnarmannanna við félagið eða meginregluna um jafnræði hluthafa.

„Trúnaður stjórnarmanns snýr ekki að þeim eiganda sem kaus hann í stjórn, umfram aðra eigendur eða umfram hagsmuni félagsins sjálfs. Þar gildir einu hvort ríkið eða aðrir stofnanafjárfestar eru á ferðinni,“ útskýrir Helga Hlín.

Taki stjórnarmaður engu að síður við slíkum fyrirmælum frá eiganda þá er þar á ferðinni svokallaður skuggastjórnandi.

„Raunveruleg skil á milli eigandahlutverks og hlutverks stjórnarmanns eru þá horfin sem fer gegn grundvallar viðmiðum góðra stjórnarhátta um skýrt afmörkuð hlutverk eigenda og stjórna. Við munum öll umræðuna um skuggastjórnendur fjármálafyrirtækja í kjölfar alþjóðlegrar fjármálakrísu og það eiga ekkert önnur lögmál að gilda um hið opinbera. Þvert á móti. Störf stjórnar fara fram á stjórnarfundum og hluthafar starfa á hluthafafundum og við breytum ekkert meginreglum félagaréttarins að þessu leyti.“

Eigandastefnur stofnanafjárfesta, svo sem fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og verðbréfasjóða, eru orðnar algengar og hafa þær að sögn Helgu Hlínar tekið miklum framförum á síðasta áratug eða svo.

„Tilvísun til fulltrúa einstakra fjárfesta í stjórn er arfleifð af stjórnarháttum sem tíðkuðust á Íslandi fyrir alþjóðlega fjármálakrísu. Það er óhætt að fullyrða að í dag líti lífeyrissjóðir ekki á þá stjórnarmenn sem þeir kjósa til stjórnarstarfa sem fulltrúa sína, né heldur taka stjórnarmenn eða starfsmenn lífeyrissjóðanna sæti í slíkum stjórnum, líkt og tíðkaðist áður“ útskýrir Helga Hlín.

Trúnaður stjórnarmanns snýr ekki að þeim eiganda sem kaus hann í stjórn, umfram aðra eigendur eða umfram hagsmuni félagsins sjálfs.

Aftur á móti hafa stofnanafjárfestar gert ríkari kröfur til starfa og ákvarðana stjórna, í staðinn fyrir beina aðkomu þeirra að stjórn. Fleiri mál, sem áður voru alfarið í höndum stjórna, eru nú borin undir hluthafa á hluthafafundum.

„Starfskjarastefnur, stefnur um fjármagnsskipan og arðgreiðslustefnur eru góð dæmi um mál sem hluthafar taka í dag endanlega ákvörðun um en ekki stjórn. Hluthafafundir eru rétti farvegurinn fyrir aðkomu hluthafa að ákvörðunum, og jafnvel fyrir einstök fyrirmæli til stjórna sé meirihluti fyrir því, en svo verða hluthafar almennt að eftirláta hæfri stjórn hlutverk sitt og umboð í friði á milli hluthafafunda.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir