7 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Póst- og fjarskiptastofnun fái nýtt nafn

Skyldulesning

Póst- og fjarskiptastofnun gæti fljótlega orðið Fjarskiptastofnun.

Póst- og fjarskiptastofnun gæti fljótlega orðið Fjarskiptastofnun.

Í drögum að frumvarpi um Póst- og fjarskiptastofu er meðal annars lagt til að stofnunin fái nýtt nafn; Fjarskiptastofa. Meginþungi verkefna stofnunarinnar snýr að fjarskipta- og netöryggismálum, en póstmál eru aðeins um 6% af starfsemi stofnunarinnar. 

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Í frumvarpinu felst heildarendurskoðun á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, með tilliti til áorðinna og fyrirsjáanlegra breytinga á verkefnum stofnunarinnar. 

Í kjölfar greiningar á verkefnum stofnunarinnar hefur einnig verið lagt til að eftirlit með póstmálum flytjist frá Póst- og fjarskiptastofnun. Ákvæði er varða flutning eftirlits með póstþjónustu verða lögð fram í öðru frumvarpi.

Með frumvarpinu er ætlunin að einfalda og skýra regluverkið sem gildir um þá stofnun sem fer með eftirlit og stjórnsýslu á fjarskiptamarkaði. Meginmarkmiðið er að stuðla að því að stofnunin mæti væntingum og þörfum samfélagsins í heimi fjarskipta og netöryggis, með því að gera stofnuninni kleift að styrkja þá þætti stofnunarinnar er snúa að tæknilegum verkefnum, en á næstu árum munu verkefni stofnunarinnar á sviði netöryggismála aukast til muna.

Innlendar Fréttir