5 C
Grindavik
8. maí, 2021

Prentarinn pappírslaus

Skyldulesning

Tímamót. Sigurður Á. Magnússon hefur unnið í prentverki í yfir …

Tímamót. Sigurður Á. Magnússon hefur unnið í prentverki í yfir hálfa öld og lauk langri starfsævi á Morgunblaðinu 31. mars.

mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjónin Hulda Friðgeirsdóttir og Sigurður Á. Magnússon eru samhent og tóku þá ákvörðun að hætta að vinna á sama tíma. Þann 31. mars var síðasti vinnudagur þeirra, hennar á leikskólanum Suðurborg í Breiðholti og hans hjá Morgunblaðinu.

„Við ákváðum þetta í fyrrahaust,“ segir Siggi, Siggi Magg eða Siggi sailor, eins og prentarinn, útlitshönnuðurinn og umbrotsmaðurinn er kallaður jöfnum höndum, en hann hóf störf hjá Morgunblaðinu haustið 1974 eftir að hafa lært og unnið í prentsmiðju Hafnarfjarðar og verið á sjónum.

Hafnfirðingurinn hefur ekki látið hlutina þvælast fyrir sér heldur siglt öruggur að settu marki á hverri leið, hvort sem er á sjó eða landi. „Það lá beinast við að fara í Iðnskólann í Reykjavík eftir gagnfræðinginn,“ segir hann um námsferilinn. Hann hafi byrjað á verklega hlutanum í Prentsmiðju Hafnarfjarðar 1968 og lokið sveinsprófinu 1972. „Ég byrjaði í bókbandinu en þoldi ekki rykið sem því fylgdi, og fór þá í setninguna,“ segir hann um fyrstu skrefin í prentverkinu.

Ævintýramaður

Sjórinn hafði lengi heillað FH-inginn og áður en hann kom á Moggann fór hann í eitt ár á síld í Norðursjónum og loðnu á heimaslóð. „Þetta var gott tilboð sem ég gat ekki hafnað, fyrst og fremst ævintýramennska en skemmtileg var hún.“ Annað ævintýri var um miðjan níunda áratuginn. „Þá var ég beðinn um að taka að mér útlitshönnun og umbrot hjá Degi á Akureyri og var þar í fimm ár, en fór aftur á Moggann 1988.“

Einhverra hluta vegna æxluðust hlutir gjarnan þannig á árum áður að nokkir prentarar í Prentsmiðju Hafnarfjarðar höfðu vistaskipti og fóru að vinna á Mogganum. Einn þeirra var Kristján Bergþórsson heitinn. „Hann fór á Moggann 1972, tveimur árum síðar var hann orðinn verkstjóri og fékk mig þá til þess að bætast í hópinn – ég byrjaði 1. nóvember í Aðalstrætinu, nánast nýkominn í land,“ rifjar Siggi upp.

Hann steig enn ölduna – og gerir reyndar enn – og nánir samstarfsmenn, sem höfðu aldrei migið í saltan sjó áttuðu sig strax á því að þar færi maður með mönnum, maður sem vissi allt um sjósókn og aflabrögð.

„Þeir byrjuðu á því að kalla mig Sigga sailor og einhverra hluta vegna festist nafnið við mig,“ segir Siggi og brosir eins og honum einum er tamt. „Ég kippi mér ekki upp við það.“

Áður var pappír út um allt

Miklar breytingar hafa orðið á öllu sem viðkemur prenti frá því Siggi byrjaði í blýinu fyrir rúmri hálfri öld.

„Ég hef liðið áfram með straumnum, tileinkað mér nýjungar og það að læra eitthvað nýtt hefur alltaf verið gaman,“ segir hann ósjálfrátt, þegar vinnubrögðin ber á góma. „Ég hef sjaldan hugsað út í þessa miklu byltingu, hún hefur bara gerst, en það er ólíku saman að jafna, offsetið, þegar klippa þurfti texta og fyrirsagnir og líma upp á síður, eða brjóta um texta á tölvu og það yfirleitt í fyrirframákveðnum sniðum. Áður var pappír úti um allt en núna sér maður hann varla, jafnvel prentarinn er oft pappírslaus.“

Siggi hefur lokið góðu verki og er ánægður sem fyrr. „Morgunblaðið er og hefur verið góður vinnustaður og hérna hefur alltaf verið frábært starfsfólk, sem gott og gaman hefur verið að vinna með,“ segir hann með söknuði um leið og hann lítur bjartsýnn fram á veg. „Breytingin leggst samt ágætlega í mig enda á hún sér töluverðan aðdraganda og þetta er góður tími til þess að hætta.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir