Prúðbúinn royalisti í konunglegu-skapi – Gúrkusamlokur, krýningar súkkulaði, konunglegt te og pappa-Kalli – DV

0
153

Það er heldur betur hátíð fram undan hjá vinum okkar í Bretlandi, en í fyrramálið verður Karl III Bretakonungur krýndur með pompi og prakt. Sýnt verður frá herlegheitunum í beinni útsendingu á RÚV 2 fyrir royalista og aðra áhugasama sem vilja fylgjast með.

Fókus sló á þráðinn til Önnu Lilju Þórisdóttur, fréttakonu á RÚV sem mun vera þulur í útsendingunni ásamt Ingibjörgu Söru Guðmundsdóttir. Anna Lilja er jafnframt svakalegur royalisti, en það er orðið sem er gjarnan notað yfir þá aðdáendur konungsfjölskyldna sem tæta í sig fréttir af þeim konungbornu af milli áfergju.

Anna segir að það sé ótal margt sem heilli við konungsfjölskylduna. „Í þessu áhugamáli sameinast áhugi á sögu, stjórnmálum, lífsstíl, tísku og slúðri. Svo er þetta heilmikil mannlífsstúdía. Veit ekki hversu lengi ég heft haft þennan áhuga – en lengi! Breska konungsfjölskyldan er að mínu mati sú mest spennandi, en ég fylgist líka með öðrum konungsfjölskyldum. En þær eru mis-áhugaverðar.“

Eins og sést á meðfylgjandi mynd hér að ofan stillti Anna Lilja sér upp með pappírs-útgáfu af Karli III, en hvernig kom þessi pappírs-Kalli til?

„Hún er í eigu vinkonu minnar sem er með mér í Konunglega klúbbnum. Hún pantaði Karl af Amazon og hann var með á síðasta fundi klúbbsins, en undanfarið hefur verið mikill annatími þar vegna krýningarinnar og klúbburinn hefur fundað stíft. Við erum sex í þessum klúbbi, hittumst reglulega og ræðum ýmis konungleg málefni. Við stöndum t.d. fyrir krýningarveislu sem verður á Kjarval að morgni krýningardags.“

En þá að máli málanna. Hvað finnst annálaða royalistanum Önnu Lilju um konunginn sem senn verður krýndur og sér hún fyrir sér róttækar breytingar í hans valdatíð?

„Ég held að Karl hafi alla burði til að verða góður konungur. Hann er vel undirbúinn, enginn krónprins Breta – prins af Wales – hefur beðið jafn lengi eftir að taka við völdum. Hann hefur haft tíma til að móta sína sýn á embættið. Líklega verða litlar breytingar frá valdatíð móður hans – þetta embætti er svosem ekki vettvangur neinna byltinga. En mörgum finnst líklegt að hann muni nútímavæða fjölskylduna enn frekar, fækka þeim fjölskyldumeðlimum sem eru á framfæri hins opinbera.“

Myndi klárlega auka vinsældir Ekki er hægt að ræða um bresku konungsfjölskylduna án þess að minnast á hjónin sem hafa sett allt á hliðina undanfarin ár, Harry Bretaprins og eiginkonu hans Meghan hertogaynju. Hvað ætli Anna Lilja hafi um þau að segja og telur hún að það styttist umræðan um hjónin fjari út?

„Mér finnst að hertogahjónin af Sussex, þau Harry og Meghan, séu komin út í öngstræti. Þau hafa núna meira eða minna atvinnu af því að tala illa um fjölskyldu Harrys og greina frá trúnaðarsamtölum og -samskiptum sem þau hafa átt við þau. Það er ekki hægt að halda svona endalaust áfram, fljótlega verður búið að segja allt sem hægt er að segja og hvað þá? Mér finnst líklegt að konungur muni leita allra leiða til að sættast við son sinn og tengdadóttur og ég held að mörgum þætti það stórmannlegt og konungi sæmandi. Það myndi klárlega auka vinsældir hans og væri góður endir á þessari sögu.“

Eins og áður segir fær Anna Lilja að sameina vinnu og áhugamál á morgun þegar hún verður annar þulur krýningarhátíðarinnar. Anna Lilja segir að áhorfendur megi búast við prúðbúnum þulum og jafnvel klassískum breskum höttum sem nefnast fascinator, en Anna Lilja á að sjálfsögðu slíkan.

„Ég verð með beina lýsingu af útsendingu frá krýningunni – hún verður á RÚV 2 og hefst kl 8:45. Með mér verður Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir sem er líka fréttamaður á RÚV. Við ætlum að fara í fínni fötin, jafnvel vera með hatt eða fascinator (já – ég á svoleiðis). Á matseðlinum verða gúrkusamlokur, litlar huggulegar bollakökur og sérstakt krýningarsúkkulaði frá Bretlandi. Með þessu verður drukkið te frá Fortnum and Mason – valið stendur á milli Jubilee sem var gert sérstaklega vegna valdaafmælis Elísabetar í fyrra og Christening – sem er skírnarte sem var gert fyrir skírn Georgs prins.“

Dæmi um fascinator Að útsendingu lokinni gæti maður haldið að Anna Lilja myndi gera sér glaðan dag, en því miður lítur út fyrir að lítið rými skapist til hátíðarhalda.

„Ég verð allavegana í konunglegu skapi – það er á hreinu. En það er spurning hvort ég hafi tíma til hátíðahalda fyrr en eftir kvöldfréttir sjónvarps, þar sem ég verð með innkomu þar og fer í gegnum krýningardaginn.“

Fyrir þá sem vilja undirbúa sig vel fyrir morgundaginn má svo benda á þættina Karl verður konungur, sem Anna Lilja gerði og voru fluttir í apríl, en þeir eru aðgengilegir hér. Þar er farið yfir það hver Karl er og eins hver sé framtíð breska konungsveldisins. Anna Likka fékk til liðs með sér fólk úr ýmsum áttum en þættirnir eru í þremur hlutum.

Eins og Anna Lilja segir þá hefst útsendingin frá krýningunni á RÚV2 klukkan 8:45 í fyrramálið. Því er um að gera fyrir áhugasama að fara snemma að sofa og muna að kaupa sér gott te og gúrkur fyrir samlokurnar strax eftir vinnu. Það er ekki á hverjum degi sem þjóðhöfðingi er krýndur í Bretlandi, en það átti sér síðast stað árið 1952 og var það annar stórviðburðurinn í heiminum sem sýndur var alþjóðlega í sjónvarpi. Margt vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og heilu kynslóðirnar vaxið úr grasi án þess að sjá breskan þjóðhöfðingja formlega taka við krúnunni. Þarna er því kjörið tækifæri að fylgjast í beinni með sögulegum viðburði.