Hluti þeirra 2.000 stuðningsmanna Millwall sem sáu liðið sitt mæta Derby í ensku B-deildinni í fótbolta á laugardag bauluðu þegar leikmenn krupu á kné fyrir leik til að sýna samstöðu í baráttunni við rasisma. Atvikið hefur vakið hörð viðbrögð.
Leikmenn liðanna hófu leikinn á því að krjúpa á kné en slík athöfn hefur tíðkast í knattspyrnuleikjum víða um heim síðustu mánuði eftir að George Floyd var drepinn af lögreglumanni í Minneapolis í maí.
„Ég er nánast orðlaus. Ég veit ekki hvernig þeir bjuggust við að mér liði eftir þetta. Ég veit ekki hvað þeir héldu að þetta táknaði. Mér líður ekki vel og mér hefur aldrei liðið svona illa síðan ég kom til félagsins,“ sagði Mahlon Romeo, leikmaður Millwall, sem er dökkur á hörund, við South London Press eftir leik. „Stuðningsmennirnir sem bauluðu móðguðu ekki bara mig heldur allt félagið. Ég skil þetta ekki,“ bætti hann við.
Wayne Rooney núverandi knattspyrnustjóri Derby tók í sama streng. „Fyrir leik var varað við mögulegum viðbrögðum við því að krjúpa en ekkert gat undirbúið okkur fyrir það sem við heyrðum. Þetta var hneisa,“ sagði Rooney.
Millwall hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem það harmar atburðinn.