7.3 C
Grindavik
4. október, 2022

Ráðgátan í sorpgeymslunni

Skyldulesning

Þegar leið að kvöldi þann 2. desember 2010 fór Betul Ozulup, móttökustjóri í lúxusblokk einni í Melbourne í Ástralíu, niður í kjallara til að sækja kúst. Þegar hún fór inn í ruslageymsluna var eitthvað fyrir hurðinni þannig að það var erfitt að opna hana. Með því að leggjast á hurðina af fullum þunga náði hún að opna hana aðeins. Í myrkrinu sá hún eitthvað sem líktist gínu. „Gínan“ lá við hliðina á ruslapokum sem höfðu komið niður eftir hundrað metra langri sorprennu hússins.

En skyndilega sá Betul blóð á gólfinu og áttaði sig á að það var ekki gína sem lá á gólfinu. Hún hljóp upp í móttökuna og hringdi í yfirmann sinn og síðan lögregluna.

Blokkinn, sem heitir Balencea Apartments, er gríðarstór og rúmlega tuttugu hæðir. Þar er starfræktur bókaklúbbur, vínklúbbur og á efstu hæðinni, sem er opin allan sólarhringinn, er upphituð sundlaug og líkamsræktaraðstaða með útsýni yfir borgina.

Phoebe

Það var hin 24 ára Phoebe Handsjuk sem lá lífvana á gólfinu. Ljóst var að hún hafði komið niður sorprennuna með fæturna á undan. Andlitið vísaði upp og hún var í grárri peysu og gallabuxum með svörtu breiðu belti. Buxurnar voru dregnar niður að hnjám. Hún var berfætt og skólaus og hægri fótur hennar var mölbrotinn. Hann hafði líklega brotnað þegar Phoebe lenti í snúningsblöðum neðst í sorprennunni en þau pressuðu ruslið saman áður en því var deilt í fimm ruslatunnur. Ein þeirra lá á hliðinni, hafði líklega oltið undan þunga Phoebe. Blóðslóð benti til að hún hefði ráfað um í niðamyrkri, líklega var hún að reyna að finna dyrnar því á hurðinni voru blóðug lófaför.

Phoebe.

Enginn vissi hvort Phoebe hafði legið þarna í nokkrar mínútur eða margar klukkustundir. Lögreglumenn, sem komu á vettvang, könnuðu ekki hvort hún væri enn með púls eða hvort líkaminn væri heitur eða kaldur. Þeir settu bara upp lokunarborða. Þegar sjúkraflutningamenn komu á vettvang 18 mínútum síðar meinuðu lögreglumenn þeim að fara inn fyrir lokunarborðann þrátt fyrir að þeir færu fram á að fá að fara inn fyrir til að kanna hvort eitthvað lífsmark væri með Phoebe.

Miðinn í buxnavasanum

Í buxnavasa Phoebe fann lögreglan krumpaðan miða með símanúmeri. Það var skráð á falskt nafn.

Lögreglumennirnir stóðu og klóruðu sér í höfðinu því þrátt fyrir að sorprennan væri þröng og skítug var líkið næstum hreint.

Þeir vissu ekki á þeirri stundu að þeir stóðu frammi fyrir einu dularfyllsta andlátsmáli sögunnar í Ástralíu. Máli þar sem frægt fólk kemur við sögu, eiturlyf, hroðvirk lögregla, valdamikið fólk sem virðist hafa togað í spotta að ógleymdum tölvupóstum, símum, hörðum diskum og heimsóknarskrám sem hurfu skyndilega.

12 hæðum fyrir ofan sorpgeymsluna bjó Antony „Ant“ Hampel, 45 ára.  Hann kom úr efnaðri lögmannsfjölskyldu, sonur hæstaréttardómara á eftirlaunum og stjúpsonur dómara á lægra dómstigi. Sjálfur var hann valdamikill í skemmtanaiðnaðinum en hann rak viðburðaskrifstofu og sagðist meðal annars hafa starfað með Adidas, Disney og Marvel auk þekktra einstaklinga á borð við Michael Jackson, Prince, AC/DC og Bill Clinton.

Phoebe hafði flutt inn til hans með hundinn sinn, Yoshi, ári áður en hún fannst í sorpgeymslunni. Samband þeirra hafði verið stormasamt. Ant sótti oft samkvæmi fræga fólksins, fór í lúxusferðir, borðaði á dýrum veitingahúsum og sótti dýra næturklúbba.

Phoebe og Ant

Phoebe þjáðist af félagsfælni og leið best þegar hún gat setið við ljóðaskriftir eða gat málað málverk eða verið með vinum og fjölskyldu. Hún starfaði fyrir auglýsingastofu þrjá daga í viku en hafði upp á síðkastið mætt sífellt sjaldnar til vinnu. Hún hafði fengið aðstoð við glímuna við kvíða og þunglyndi í átta ár. Frá 14 ára aldri hafði hún reynt að deyfa kvíðann með eiturlyfjum og áfengi í ótæpilegu magni.

Síðustu vikur lífs hennar varð sambandið við Ant sífellt stormasamara. Á síðustu sex vikum lífsins flutti hún fjórum sinnum frá honum en sneri alltaf aftur. „Hún reyndi að sleppa frá honum,“ sagði afi hennar, Loren Campbell í heimildarmynd 60 Minutes um málið. Hann var rannsóknarlögreglumaður í 28 ár og hefur frá láti Phoebe unnið að rannsókn málsins og reynt að fá svar við því hvernig dauða Phoebe bar að.

Sendi undarleg skilaboð

Morguninn áður en Phoebe fannst látin bárust fjölskyldu hennar, Ant og nánustu vinum skilaboð úr farsíma hennar, skilaboð sem vöktu áhyggjur: „Hæ fjölskylda. Ég er í rúminu og að fara að sofa. Þegar ég vakna mun ég breytast í ótrúlegustu manneskjuna sem þið hafið séð . . . (ekki). Ég fer á sjúkrahús. Það er öruggara þar og ég hef heyrt að sérrétturinn þar í kvöld sé tómatsúpa . . . Ljúffengt! Næringarrík! Ég elska ykkur öll mikið en ekki nógu mikið til að senda hverjum og einum sér skilaboð. Þið verðið að afsaka það en nú er kominn tími til að sofa og ég verð að leggja af stað . . . Gleði, gleði, gleði. Lífið er ekki draumur.“

Þetta voru síðustu skilaboðin sem voru send úr síma hennar.

Móðir hennar, Natalie, varð áhyggjufull þegar hún las skilaboðin. Hún efaðist mjög um að Phoebe hefði sjálf skrifað þau og óttaðist að hún væri í hættu. Þrátt fyrir að Phoebe væri uppátækjarsöm og gæti dottið í hug að skrifa undarlega hluti var eitthvað í textanum sem passaði ekki.

Þegar Natalie fékk skilaboðin var hún á leið um borð í flugvél í Alice Springs þar sem hún hafði verið við vinnu í níu vikur. Hún hringdi því í móður sína, Jeanette, og bað hana um að fara til Phoebe og kanna með ástand hennar.

Phoebe og Janette

Phoebe og Jeanette áttu í góðu sambandi og voru nánar og töluðu saman í síma minnst þrisvar í viku. Phoebe hafði margoft rætt við hana um andlega vanlíðan sína og áfengisvanda og ekki síst um stormasamt sambandið við Ant. Jeanette hringdi í Ant sem sagðist vera á æfingu og að Phoebe hafi verið steinsofandi þegar hann fór að heiman um morguninn. Hann sagðist geta farið heim til að kanna með hana. Síðan sendi hann Jeanette skilaboð þar sem hann sagði hana hafa verið steinsofandi.

Síðar sagði Ant lögreglunni að Phoebe hefði átt til að hverfa í nokkra daga og síðan birtast aftur.

Phoebe með foreldrum sínum.

Skömmu áður en hún fannst látin hafði hún að sögn Ant sagt honum að hún hefði nýlega tekið nokkrar ecstasytöflur og drukkið alltof mikið áfengi. Það væri ástæðan fyrir að hún hafi verið fjarverandi að næturlagi.

Margir ættingjar Phoebe hringdu í hana þennan dag en hún svaraði ekki. Þegar faðir hennar, Leonid, hringdi til að mæla sér mót við hana yfir kvöldmat svaraði Ant. Hann sagði að Phoebe væri ekki í íbúðinni en taskan hennar og lyklar væru þar svo hún væri ekki langt í burtu.

Horfnir tölvupóstar

Eftir að Phoebe fannst látin í sorpgeymslunni var Ant meðal fyrstu íbúa hússins sem setti sig í samband við lögregluna. Hann sagði að matarsendill hefði komið með sendingu til sín og spurt af hverju svo margir lögreglubílar væru utan við húsið. Hann tók lyftuna niður í kjallara í framhaldinu og sá þar fjölda lögreglumanna. Einn þeirra sagði honum að kona hefði fundist látin í sorpgeymslunni. „Guð minn góður, ég vona að það tengist ekki kærustunni minni. Það er búið að tilkynna um hvarf hennar,“ sagði hann og sýndi lögreglunni nýlegar myndir af Phoebe. Þegar hann sagði frá húðflúrunum hennar lék enginn vafi á hver það var sem var í sorpgeymslunni.

Um kvöldið knúði lögreglan dyra hjá Ant til að rannsaka íbúðina. í ljós kom að búið var að eyða öllum tölvupóstum Phoebe. Það var blóð á músinni, músarmottunni og lyklaborðinu. Einnig voru glerbrot og blóðblettir á gólfinu.

Við rannsókn á lúgunni á sorprennunni fannst ekki eitt einasta fingrafar, ekki einu sinni fingrafar af Phoebe. Vettvangsrannsókn leiddi í ljós að það var blóð í bílageymslunni í kjallaranum og í annarri lyftu hússins.

Ant sagðist hafa komið heim fyrr um daginn og hafi Phoebe þá ekki verið heima þrátt fyrir að þau hafi ætlað út að borða með föður hennar um kvöldið. Hann mundi ekki hvort dyrnar voru læstar.

Það var blóð á púltinu.

The Age segir að hann hafi sagt að það væri eins og Phoebe væri enn einu sinni horfin og að einhverskonar altari hafi verið á rúminu og logandi kerti hafi verið í kringum það. Hann sagði að ljósmynd af honum og Phoebe hafi verið á altarinu auk mynda af kettinum hennar og margra miða með allskonar bulli á. Hann sagði hana skrifa svoleiðis miða þegar hún ætti erfitt.

Engin rannsókn

Án þess að hafa lagt hald á upptökur úr þeim 14 eftirlitsmyndavélum sem voru í húsinu yfirgaf lögreglan það. Þegar ákveðið var að skoða þær daginn eftir var búið að eyða þeim en sjálfvirkt kerfi sá um það að sögn The Sydney Morning Herald. Blaðið segir að einnig hafi harður diskur upptökukerfisins verið horfinn.

Það eina sem lögreglan hafði á að byggja um þennan dag var upptaka frá því klukkan 11.48 en á henni sást Phoebe yfirgefa bygginguna þegar brunavarnarkerfið hringdi og allir íbúarnir urðu að yfirgefa hana.

Lögreglan lagði ekki hald á fartölvu, sem bæði Ant og Phoebe notuðu, sem var í íbúðinni. Hún tók farsíma Phoebe með sér en skilaði honum aftur til Ant nokkrum dögum síðar. Þegar lögregla vildi fá hann aftur til rannsóknar nokkrum dögum síðar var hann einnig horfinn.

Phoebe og Ant

Nokkrum dögum síðar tilkynnti lögreglan fjölskyldu Phoebe að málið yrði ekki rannsakað frekar því Phoebe hefði tekið eigið líf.

Natalie var ekki sátt við þetta og sagði að hún teldi að allt það sem fannst í íbúðinni benti til að eitthvað hefði komið fyrir Phoebe áður en hún fór niður sorprennuna. Hugsanlega hafi orðið slys, deilur eða örvæntingarástand hafi gripið um sig. Hún sagði það einnig undarlegt að Phoebe hafi ekki skilið eftir kveðjubréf og að hún hafi greinilega reynt að komast út úr sorpgeymslunni til að bjarga sér.

Afinn blandar sér í málið

Afi Phoebe, Lorne Campbell, neitaði að trúa að um sjálfsvíg hefði verið að ræða og byrjaði að rannsaka málið upp á eigin spýtur en hann átti að baki tæplega þrjátíu ára starfsferil sem rannsóknarlögreglumaður en var farinn á eftirlaun.

Hann fékk framleiðanda sorprennunnar til að gera nákvæma eftirlíkingu af lokinu á rennunni til að hann gæti gert sínar eigin rannsóknir, rannsóknir sem lögreglan hafði ekki gert. Lokið var aðeins 37,2 cm á breidd, sem sagt ekki mikið breiðari en fartölva. Það var staðsett í eins metra hæð á veggnum. Það var eins og skúffa, ruslið var sett í hana og þegar lokinu var lokað datt ruslið niður rennuna. Til að manneskja gæti komist niður í rennuna þurfti hún að „sitja“ í skúffunni, loka henni yfir höfuð sér, halla líkamanum fram og lyfta rassinum yfir brúnina.  Líkamsþyngdin myndi þá gera að verkum að lokið myndi að öllum líkindum lokast með miklum látum og miklar líkur voru á að fingur og handleggir myndu klemmast. Engir áverkar voru á fingrum eða höndum Phoebe þegar hún fannst.

Hér er afi Phoebe að gera tilraun með lúgna á sorprennunni.

Það var útilokað að Phoebe, sem var 175 cm og 57 kíló, hefði getað komist inn um lokið og í „skúffuna“ og hrapað niður í sorpgeymsluna án þess að meiða sig áður, sérstaklega ef litið var til þess í hvernig ástandi hún var. „Phoebe varð völt á fótunum eftir tvö vínglös. Það krefst fínhreyfinga að komast inn í sorprennuna og það er næstum ómögulegt líkamlega séð, jafnvel fyrir lipra konu, að troðast í gegn,“ sagði hann í samtali við The Sydney Morning Herald.

Sviðsetning á hugsanlegri atburðarás við lúguna á sorprennunni.

Til að reyna að fá rannsókn lögreglunnar tekna upp á nýjan leik skaut fjölskyldan málinu fyrir sérstakan rétt þar sem dánardómsstjóri, sem er yfirleitt löglærður en ekki endilega réttarmeinafræðingur, sker úr um hvort heimila eigi að rannsókn hefjist á nýjan leik. Dánardómsstjórinn Peter White komst að þeirri niðurstöðu í 89 síðna skýrslu eftir málflutning að Phoebe hefði af sjálfsdáðum klifrað inn í sorprennuna og hrapað til bana. Hún hafi verið ofurölvi. Hann heimilaði ekki að rannsókn yrði hafin á ný þrátt fyrir að bent hefði verið á margvísleg mistök lögreglunnar í upphafi rannsóknarinnar og ótrúverðugan framburð Ant.

Það var allt annað en auðvelt að láta konu komst af sjálfsdáðum ofan í ruslalúguna.

Fjölskylda Phoebe vildi áfrýja málinu til hæstaréttar en lögmaður hennar réði frá því þar sem það væri nær útilokað að fá hæstarétt til að hnekkja ákvörðun dánardómsstjóra og þess utan kostaði það margar milljónir að skjóta málinu til réttarins.

Önnur kona dó

Ant Hampel var þar með laus allra mála, hversu undarlegt sem mörgum þótti það nú. Hann gat því haldið áfram að lifa lífinu.

2018, þegar hann var 51 árs, hófst ástarsamband hans og Baillee Schneider, 25 ára starfsstúlku á tannlæknastofu. Sambandið var stormasamt og að lokum lauk því. Daginn eftir að sambandinu lauk fannst Baillee látin í eldhúsinu heima hjá foreldrum sínum í Moonee Ponds, sem er úthverfi í Melbourne, eftir að hafa farið út í búð.

Málið vakti mikla athygli vegna sambands Baillee við Ant sem var landsþekktur sem sambýlismaður konunnar sem dó í sorpgeymslunni.

Baillee

Herald Sun segir að krufning hafi leitt í ljós að Baillee lést af völdum köfnunar og að hún hafi verið undir áhrifum áfengis og kókaíns auk lyfseðilsskyldra lyfja.

Ant var með fjarvistarsönnun og lögreglan taldi hann ekki hafa komið nálægt andlátinu. Dánardómsstjórinn sagði  að Baillee hafi tekið eigið líf þegar hún var undir áhrifum áfengis, kókaíns og lyfseðilsskyldra lyfja og hafi að auki verið í uppnámi vegna sambandsslitanna.

Natalie Handsjuk var allt annað en sátt við þessa niðurstöðu og sagðist hafa misst alla trú á réttarvörslukerfinu.

Ráðgátan um hvernig andlát Phoebe bar að er enn óleyst og ekki að sjá að það breytist.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir