Ráðgátan um horfna tennisspilarann leysist líklega aldrei – DV

0
129

Hvar er Peng Shuai? Þessarar spurningar var spurt margoft fyrir einu og hálfu ári. Ráðgátan um þessa kínversku tenniskonu hefur ekki verið leyst að fullu og það verður hún örugglega aldrei. Málið olli krísu í hinum alþjóðlega tennisheimi þegar Kínverjar voru sviptir öllum kvennakeppnum með tilheyrandi milljónum dollara í verðlaunafé. Peng Shuai, sem er 37 ár, kom að sögn síðar í leitirnar og er sögð halda sig á óþekktum stað í Peking. En mörgum spurningum varðandi mál hennar er ósvarað því kínversk stjórnvöld hafa lokað alfarið á málið. En samt sem áður hefur tennisheimurinn gefist upp og nú fá Kínverjar aftur að standa fyrir stórum tennismótum. Eins og svo oft áður eru það peningarnir sem ráða för þegar kemur að slíkri ákvarðanatöku.

Upphaf málsins Málið kom upp í nóvember 2021 þegar Peng Shuai birti færslu á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo þar sem hún sakaði Zhang Gaoli, fyrrum varaforseta Kína, um að hafa þvingað hana til kynlífs gegn vilja hennar. Færslan var sýnileg í 30 mínúturáður en hún var fjarlægð og reikningi Peng Shuai lokað.

Í kjölfarið hvarf Peng Shuai af yfirborði jarðarinnar. Enginn vissi hvar hún var. Enginn náði sambandi við hana.

WTA Touren brást við þessu með því að krefjast sannana fyrir að Peng Shuai væri ekki í haldi lögreglunnar. Auk þess var sett fram krafa um óháða rannsókn á ásökununum og einkafund með Peng Shuai.

Ekki var orðið við þessu en eftir nokkrar vikur barst skrifleg yfirlýsing frá Peng Shuai, frá nýju netfangi, þar sem hún vísaði ásökununum á bug. WTA trúir ekki að skilaboðin hafi verið frá henni, þau hafi verið samin af kínverskum yfirvöldum. Í kjölfarið ákvað WTA að fara alla leið og aflýsa öllum mótum í Kína.

Viðbrögð kínverskra stjórnvalda voru: Þögn. Smávegis lífsmörk bárust þó frá Peng Shuai eftir ýmsum opinberum leiðum. Í janúar 2022 birtust myndir af henni á ríkissjónvarpsstöð. Hún ræddi við franska íþróttablaðið L‘Equipe á Vetrarólympíuleikunum í Peking í febrúar 2022 en blaðið varð að skila spurningunum til hennar inn til kínverskra yfirvalda fyrirfram. Fulltrúi yfirvalda var síðan viðstaddur viðtalið þrátt fyrir að Peng Shuai tali góða ensku.

Í viðtalinu sagði hún að ásakanirnar um ofbeldið hefðu verið einn stór misskilningur og að hún hefði ákveðið að leggja keppnisskóna á hilluna.

WTA fékk aldrei svör við spurningum sínum né kröfum frá kínverskum stjórnvöldum.