Stefnt er að því að ráðuneytin sem hafa verið til húsa í Skógarhlíð 6 flytjist á nýjan stað í borginni á næstunni. Mygla kom upp í húsnæði félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í Skógarhlíðinni fyrr í vetur og var hún mest í kjallara hússins.
Guðmundur Arason, framkvæmdastjóri leigusviðs hjá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum, FSRE, segir að vonandi takist að loka samningum í vikunni. Gangi það eftir sé miðað við flutning ráðuneytanna fyrri hluta maímánaðar.
Rétt fimm ár eru liðin síðan ráðuneytin sem þá tilheyrðu velferðarráðuneytinu fluttu úr Hafnarhúsinu við Tryggvagötu í núverandi húsnæði í Skógarhlíð þar sem myglusveppur kom upp í Hafnarhúsinu, sem ekki tókst að uppræta. Var á þeim tíma greint frá því að með flutningunum í Skógarhlíð væri um tímabundið húsnæðisúrræði að ræða.
Gera þurfti talsverðar breytingar á starfseminni í Skógarhlíðinni eftir að myglunnar varð vart og var öllum rýmum í kjallara lokað. aij@mbl.is