Rán um borð í Júlíusi Geirmundssyni…

0
108

Rán um borð í Júlíusi Geirmundssyni…

January 13 11:05 2013

Mikið uppnám er nú um borð í Júlíusi Geirmundssyni ÍS eftir að upp komst um bíræfinn þjófnað úr býtibúri kokksins. Er um að ræða óæskilega fækkun á fleski eða öllu heldur beikoni sem kokkurinn hafði legið á eins og ormur á gulli og ætlað til sérstakra nota í þessari veiðiferð. Einhver eða einhverjir sem láta sér fátt fyrir brjósti brenna hefur látið greipar sópa um fleskið og notað það ótæpilega og ekki laust við að aðrir skipverjar sitji flesklausir eftir, afar sárir. Er mál mann að þetta sé afar bíræfið en enginn virðist hafa séð neitt eða gefið upplýsingar sem leiða til þess að málið upplýsist.

Júllinn fór á vettvang og kannaði stöðu mála og tók menn tali um þennan vofveiflega verknað sem skekur innviði skipsins svo um munar….

Jón kokkur

Jón kokkur var miður sín er Jullinn.is náði tali af honum og hann gat varla talað fyrir geðshræringu. Þetta er alveg skelfilegt að uppgötva allt í einu að beikonið er farið…. Eins og ég sagði við strákana…“Hvernig liði ykkur ef allt nammið í sjoppunni væri horfið einn daginn?“ „Ég vona bara að þetta upplýsist svo maður geti sofið rólegur á nóttunni…þetta er eða eru ekkert annað en beikondólgar og hananú!!!“

Sveinn stýrimaður vildi ekkert láta hafa eftir sér um málið, sagði það á viðkvæmu stigi og yrði rannsakað í þaula. Hann myndi ekki inna sér hvíldar fyrr en beikondólgurinn fyndist, að öðru leyti vísaði hann til hegningarlaganna og sagði að allir væru saklausir þar til sekt sannaðist.

Ómar Freyr

Einn skipverja, Ómar Freyr var harmi sleginn eftir þetta upphlaup kokksins og sagðist í samtali við Jullinn.is ekki vera almennilega vera búinn að átta sig á málinu og skildi það ekki alveg í sjálfu sér. Þetta væri eins og hver annar matur sem þyrfti að borða, hvort sem það héti beikon eða sviðahausar, þannig að hann áttaði sig ekki á alvarleika málsins. „En það er gott að málið er rannsakað, því ekki er bermilegur beikonlaus dagur, það er ljóst!“

Jullinn.is mun fylgjast með málum þessum hér um borð og uppfæra ef eitthvað gerist.