Rang­færslur alls­ráðandi í um­ræðu um um­deilt frum­varp – Vísir

0
104

Rang­færslur alls­ráðandi í um­ræðu um um­deilt frum­varp Formaður Íslensk-evrópska verslunarráðsins segir umræðu um umdeilt frumvarp utanríkisráðherra um EES samninginn einkennast af rangfærslum. Einungis sé verið að bæta úr galla á innleiðingu samningsins, sem sé sá mikilvægasti sem gerður hefur verið í þágu íslensks atvinnulífs.

Í gær mælti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fyrir breytingu á EES-samningnum, sem felur í sér að ef lagaákvæði, sem innleiðir skuldbindingu samkvæmt samningnum, sé ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skuli það fyrrnefnda ganga framar.

„Hér er ekki um að ræða nýja skuldbindingu, nýtt loforð eða breytingu. Þetta frumvarp felur ekki í sér breytingu á samskiptum okkar í gegnum EES-samninginn sem við höfum haft um 30 ára skeið,“ sagði Þórdís Kolbrún á Alþingi í gær. 

Frumvarp Þórdísar hefur verið afar umdeilt og telja einhverjir að með breytingunni sé gengið of langt og að vegið sé að stjórnarskrá.

Sem dæmi telur Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, að með samþykkt frumvarpsins sé verið að „leggja stjórnarskrá lýðveldisins á bálköstin“.  

Hann ræddi málið í Reykjavík síðdegis ásamt Helgu Völu Helgadóttur, þingmanni Samfylkingar:

Ætti að vera löngu búið að innleiða í íslenskan rétt Páll Rúnar Mikael Kristjánsson, formaður Íslensk-evrópska verslunarráðsins, segir umræðu um frumvarpið einkennast af rangfærslum.

„Það sem er kannski helst er þetta með að verið sé að brjóta gegn stjórnarskrá. Það er auðvitað rangt. Ef upp kæmi tilvik þar sem lög, byggð á EES-rétti, stönguðust á við stjórnskipunarlög, þá tekur þetta ákvæði ekki til þess. Það er heldur ekki verið að ræða það að EES-gerðir sem ekki hafa verið innleiddar í íslensk lög, hafi einhvern forgang umfram lagaákvæði sem gengur í berhögg við þær,“ segir Páll.

Páll Rúnar Mikael Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður og formaður Íslensk-evrópska verslunarráðsins. Frumvarpið sé töluvert einfaldara.

„Það snýst einfaldlega um að tryggja að markmið EES-samningsins, sem er okkar mikilvægasti milliríkjasamningur, nái fram að ganga. Þannig náum við að tryggja hagsmuni fyrirtækja, neytenda og almennings.“

Með breytingunni sé verið að hnykkja á atriði sem ætti að vera löngu búið að innleiða í íslenskan rétt.

„Það er mikilvægt að hafa það í huga, að það er einfaldlega verið að færa í lög ákvæði úr bókun 36 sem hefur verið í gildi áratugum saman, en hefur einfaldlega ekki verið nógu skýr,“ segir Páll að lokum.