7 C
Grindavik
23. apríl, 2021

Rannsakendur WHO á leið til Kína

Skyldulesning

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mun senda tíu manna teymi vísindamanna til Wuhan í Kína í næsta mánuði. Þar eiga þeir að reyna að varpa ljósi á uppruna nýju kórónuveirunnar, sem veldur Covid-19.

Ráðamenn í Kína hafa ekki viljað hleypa alþjóðlegum rannsakendum til borgarinnar hingað til en í frétt BBC segir að það að leyfi hafi fengist til rannsóknarinnar í næsta mánuði hafi tekið margra mánaða viðræður milli forsvarsmanna WHO og ráðamanna í Kína.

Talið er að veiran komi upprunalega frá leðurblökum en ekki er vitað hvenær né hvar hún barst fyrst í menn. Hún greindist þó fyrst í Kína og voru mörg tilfelli tengd við tiltekin markað í Wuhan þar sem lifandi dýr voru seld til manneldis.

Það hefur þó aldrei verið ljóst hvort veiran barst fyrst í menn þar og er jafnvel talið að dreifing veirunnar hafi verið mikil á markaðnum. BBC segir að á árinu hafi rannsóknir sýnt að mögulega hafi veiran getað borist í menn um árabil en það hafi einfaldlega ekki gerst fyrr en í fyrra.

Rannsakendum WHO sem heimsóttu Kína fyrr á þessu ári var ekki gert kleift að fara til Wuhan og rannsaka uppruna veirunnar.

Leitin að uppruna veirunnar hefur blandast milliríkjapólitík og þá sérstaklega vegna deilna Bandaríkjanna og Kína. Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, hefur sakað ráðamenn í Kína um að bera ábyrgð á veirunni og afleiðingum hennar og sakað þá um að hafa reynt að hylma yfir faraldurinn.

Í samtali við AP fréttaveitunna í gærkvöldi, sagði þó þýskur vísindamaður sem tilheyrir teymi WHO, að markmið þeirra væri ekki að finna sökudólg. Þeir myndu skoða sýni og gögn í Wuhan til að reyna að finna hvar veiran barst fyrst úr dýrum í menn og frá hvaða tegund dýra.

Markmiðið væri að skilja hvað hefði gerst og hvernig væri hægt að draga úr hættunni á sambærilegum atvikum í framtíðinni. Talið er að vísindamennirnir muni verja minnst fjórum eða fimm vikum í Kína.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir