Raunveruleg ástæða þess að þetta vinsæla sælgæti er með gati í miðjunni – DV

0
179

Það þekkja flestir Íslendingar hið bragðgóða sælgæti Polo sem er þekkt fyrir sitt ferska myntubragð. En fæstir vita ef til vill af hverju mynturnar eru kringlóttar með gati í miðjunni, eða hvað?

Breska blaðið The Sun varpaði ljósi á málið og komst að því að Polo, sem byrjað var að framleiða í Bretlandi árið 1948, hafi sótt innblástur í aðra þekkta bandaríska sælgætistegund, Life Savers, sem er einnig með gati í miðjunni.

Life Safers-sælgætið var þróað með þessum hætti vegna fjölda barna sem létust eftir að sælgæti stóð í þeim. Með því að hafa gat í miðjunni taldi fyrirtækið að minnka mætti líkurnar á sorglegum slysum af þessu tagi – gatið gerði það að verkum að enn væri hægt að anda ef myntan stæði í manni. Þess vegna fékk sælgætið einmitt nafnið Life Safers og var Polo þróað með sama hætti.

Í umfjöllun The Sun kemur fram að nafnið vísi einnig til björgunarhringja sem finna má á bátum og skipum og hefur lögun og útlit sælgætisins tekið breytingum í samræmi við það á undanförnum áratugum.