4 C
Grindavik
3. mars, 2021

Réðust tveir á einn

Skyldulesning

Tveir menn réðust á einn og börðu hann með áhaldi í höfuðið í Grafarvoginum seint í gærkvöldi. Samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fóru árásarmennirnir af vettvangi í bifreið. Sjúkrabifreið kom á vettvang en ekki talin þörf á að færa manninn á sjúkrahús. Málið er í rannsókn hjá lögreglunni. 

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar í Vesturbænum um tíuleytið í gærkvöldi og kom ökumaðurinn út úr bifreiðinni til að ræða við lögreglu en gekk ekki tryggilega frá bifreiðinni þannig að hún rann á lögreglubifreiðina. Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna og vistaður fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu. 

Um átta í gærkvöldi stöðvaði lögreglan bifreið í Hafnarfirði en ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, akstur án réttinda og vörslu fíkniefna. Farþegi í bifreiðinni er grunaður um vörslu fíkniefna og fleiri brot. Þeir voru báðir handteknir og vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.   

Lögreglan hafði afskipti af manni í Austurbænum (hverfi 10) á þriðja tímanum í nótt vegna vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum. Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð. Laus að lokinni skýrslutöku.

Ekið var á hús í Breiðholti (hverfi 109) um miðnætti í gær. Sá sem ók á húsið stakk af en vitni voru að óhappinu sem tóku niður númer bifreiðarinnar sem og af hvaða gerð hún var. Málið er í rannsókn hjá lögreglu.

Eitt búðarhnuplsmál var tilkynnt til lögreglu í gærkvöldi og fjórir ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna eða án gildra ökuréttinda. Tveir voru undir áhrifum fíkniefna og hafa ítrekað verið stöðvaðir próflausir undir stýri og einn var undir áhrifum áfengis og hefur einnig ítrekað verið stöðvaður próflaus. Sá fjórði var sá eini sem ekki var í vímu undir stýri heldur aðeins próflaus.

Innlendar Fréttir