Regluleg notkun marijúana getur haft skaðleg áhrif á svefn – DV

0
58

Þau sem neyta reglulega marijúana telja mörg hver að það hjálpi þeim að sofna og sofa ótrufluðum svefni. Samkvæmt rannsókn frá 2021 virðist það vera röng ályktun.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kom fram að fullorðnir einstaklingar sem neyttu þess í tuttugu daga eða meira á mánuði væru 64 prósent líklegri til að sofa skemur en mælt er með og 76 prósent líklegri til að sofa of lengi.

Samkvæmt ýmsum svefnrannsóknum getur bæði of lítill og of mikill svefn aukið hættu á m.a. hjartaáföllum, heilablóðföllum, sykursýki og kransæðastíflu.

Þátttakendur í rannsókninni voru alls 21.279 talsins og á aldrinum 20-59 ára. Þau sem neytt höfðu marijúana innan síðustu 30 daga voru líklegri til að tilkynna of lítinn svefn, of langan svefn eða að eiga erfitt með að halda honum órofnum.

Forsvarsmenn rannsóknarinnar taka það þó fram að hún hafi ekki sýnt fram á skýrt orsakasamhengi. Niðurstöðurnar voru þó í samræmi við niðurstöður fyrri rannsókna um þetta viðfangsefni.

Þrátt fyrir það hafa notendur marijúana tröllatrú á að það hjálpi þeim með svefn. Vísindamenn telja mögulegt að m.a. fráhvarfseinkenni, sem trufli svefn, meðal þeirra sem dregið hafa úr notkun orsaki trú á að marijúana sé gott fyrir svefninn.

Eins og er segja vísindamenn að notkun marijúana geti mögulega haft skaðleg áhrif á svefn en frekari rannsókna sé þörf.

Byggt á umfjöllun CNN.