Reiði eftir að tíma­rit birti „við­tal“ gervi­greindar­for­rits við Michael Schumacher – DV

0
114

Aðdáendur þýska ökuþórsins Michaels Schumacher og fleiri til eru sárir og reiðir yfir forsíðu þýska blaðsins Die Aktuelle.

Á forsíðunni var látið að því liggja að blaðið hefði náð viðtali við Schumacher sem slasaðist lífshættulega í skíðaslysi árið 2013.

Síðar kom í ljós að ekki var um að ræða viðtal blaðamanns við Schumacher heldur tilbúið viðtal sem gervigreindarforrit setti saman.

Schumacher var haldið sofandi lengi eftir slysið og hafa aðstandendur hans reynt hvað þeir geta að halda honum frá sviðsljósinu eftir slysið.

Hefur því lítið spurst út um heilsu þessa margfalda heimsmeistara í Formúlu 1-kappakstrinum frá hinu örlagaríka slysi.

Á forsíðu tímaritsins birtist gömul mynd af brosandi Schumacher undir fyrirsögninni: „Fyrsta viðtalið!“

Í sjálfu „viðtalinu“ var svo haft eftir Schumacher að líf hans hefði breyst mikið eftir slysið og undanfarin ár hafi verið erfið eiginkonu hans og börn. „Ég hef gengið í gegnum erfiða tíma en fyrir tilstilli heilbrigðisstarfsfólks er ég kominn aftur í faðm fjölskyldu minnar,“ var haft eftir honum.

Í lok greinarinnar er tekið fram að „viðtalið“ hafi verið tilbúningur gervigreindarforritsins Character.ai og fulltrúar tímaritsins hefðu ekki talað við Schumacher eða einhvern úr fjölskyldu hans.

Boris Rosenkranz, ritstjóri Übermedien, gerði málið að umtalsefni í pistli á vef sínum og sagði að ákvörðun stjórnenda Die Aktuelle væri of „heimskuleg til að vera sönn.“