8 C
Grindavik
22. apríl, 2021

Rekald á annarlegri strönd

Skyldulesning

Séra Geir Waage, fráfarandi sóknarprestur í Reykholti.

Séra Geir Waage, fráfarandi sóknarprestur í Reykholti.

mbl.is/Árni Sæberg

„Tilfinningin og virðingin fyrir sögunni og samfellunni er að týnast og hvað er kirkja án fortíðar? Kirkjan er öll um Kristsatburðinn sem á upphaf sitt í því að Guð skapaði veröldina og hefur staðið sleitulaust síðan. Ef á að varpa þessu fyrir róða verður kirkjan án efa framtíðarlaus. Þegar hún ofurselur sig tíðarandanum sem undir eins líður hjá, verður hún ekki annað en rekald á annarlegri strönd. Herostratos brenndi hof Artemisar í Efesus sér til frægðar forðum, eitthvert fegursta mannvirki fornaldar. Hann flýgur mér stundum í hug þegar ég heyri af kirkjumálum í seinni tíð.“

Þetta segir séra Geir Waage sem um áramótin lætur af embætti sem sóknarprestur í Reykholti eftir 42 ár. 

Þjóðkirkjan átt í miklum vanda

Geir hefur greint á við biskupa gegnum tíðina, ekki bara í biskupsmálinu svokallaða. „Til að gera langa sögu stutta þá hefur þjóðkirkjan átt í miklum vanda frá því á síðasta áratug síðustu aldar. Þá var farið að færa verkefni frá kirkjumálaráðuneyti og koma þeim fyrir hjá kirkjunni sjálfri. Hún átti hins vegar engan annan vettvang til þess að taka við þeim en Biskupsstofu, sem heyrir undir biskup Íslands og kirkjuráð. Þangað færðust völd með verkefnunum. Ég átti á sínum tíma sæti í nefnd undir forystu séra Gunnars Kristjánssonar á Reynivöllum sem hafði það verkefni að smíða ný þjóðkirkjulög. Það var erfitt verk sem snerist meðal annars um að varðveita innlenda hefð í lagaumhverfi kirkjunnar, en taka um leið fullt mark á lúthersk-evangelískri kirkjuskipan og koma á lýðræði innan þjóðkirkjunnar að því marki sem hægt er. Þetta tókst ekki sem skyldi. Það var of langt á milli sjónarmiða biskups og þess sjónarmiðs sem lögfest var, að kirkjuþingi bæri æðsta vald innan Þjóðkirkjunnar í öðrum málum en þeim sem varða kenninguna og helgihaldið.“

Þróunin hélt svo áfram eftir að Þjóðkirkjulögin frá 1997 tóku gildi, en engin samstaða ríkti um það á kirkjuþingi að framkvæma anda laganna, það er dreifræði innan kirkjunnar. „Ekkert hefur breyst síðan; kirkjuþing er enn þá of veikt, þannig að einræðisstjórnin heldur áfram í kirkjunni. Það er sorglegt því margt hefur farið miður í arfi kirkjunnar á þessum tíma sem vert hefði verið að varðveita. Gamla Consensus-reglan um að leita málamiðlana, er að engu höfð. Menn beita bara valdi – og það án forsjár. Og þú athugar að ég er ekki að skoða þetta utan frá; ég var þarna inni.“


Án efa framtíðarlaus

Geir gagnrýnir enn fremur að verið sé að rugla saman fjárreiðum sóknanna og prestakallanna. „Það er verið að rugla saman regimentunum, eins og Lúther gamli sagði. Það sem sóknunum ber og leikmönnum eiga þeir að hafa algjörlega fyrir sig. Prestaköllin heyra undir biskup. Allt á þetta svo heima á vettvangi kirkjuþingsins, sem ræður ekkert við þetta. Við áttum samfellu í löggjöf og hefð frá Grágás og Jónsbók um siðbót og einveldi; öllu er nú hent burt í hugsunarleysi. Þá er ég ekki að tala um orðanna hljóðan, heldur er hugsunin í þessu gamla svo heilnæm. Þetta er ekki bara nostalgíuraus í gömlum karli heldur áþreifanlegir hlutir.

Séra Geir og eiginkona hans, Dagný Emilsdóttir.

Séra Geir og eiginkona hans, Dagný Emilsdóttir.

Árni Sæberg


Ítarlega er rætt við séra Geir og eiginkonu hans, Dagnýju Emilsdóttur, í Sunnudagsblaði Morgunblaðins um stöðu kirkjunnar og árin og uppbygginguna í Reykholti. Dagný lét um síðustu áramót af störfum sem móttökustjóri Snorrastofu. Þau munu búa áfram í Reykholti enda segja þau hvergi betra að vera.

Lesa má um þetta í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir