Repúblikanar standa í vegi fyrir hertum lögum um þungunar­rof – Vísir

0
101

Tilraunir Repúblikana í Suður-Karólínu og Nebraska til að takmarka aðgengi að þungunarrofi mistókust í gær sökum andstöðu samflokksmanna þeirra. Í Nebraska var það 80 ára karlmaður sem kom í veg fyrir að umrætt frumvarp yrði að lögum. 

Eins og sakir standa er þungunarrof heimilað fram að 22. viku meðgöngu í bæði Suður-Karólínu og Nebraska. Í fyrrnefnda ríkinu stóð til að banna það nær alfarið og í því síðarnefnda að takmarka það við sex vikur.

Í Suður-Karólínu voru það konurnar fimm sem eiga sæti í öldungadeild ríkisins, þrír Repúblikanar og tveir Demókratar, sem stóð vörðinn. Ein þeirra, Repúblikaninn Sandy Senn, sagði samþykkt frumvarpsins myndu setja konur í þá stöðu að vera á forræði ríkisins, líkt og í skáldsögunni Saga þernunnar.

Senn sagði lagasetningu um þungunarrof „alltaf, hver einasta, snúist um stjórnun; svo einfalt er það. Og í öldungadeildinni fara karlmenn með völdin,“ sagði hún.

„Það eina sem við getum gert þegar þið, karlmennirnir hér í þessum sal, sláið konur ítrekað niður með því að fjalla aftur og aftur um þungunarrof, er að slá ykkur til baka með orðum okkar,“ sagði hún á þinginu.

Í Nebraska sat öldungadeildarþingmaðurinn Merv Riepe hjá, þar sem hann hafði áhyggjur af því að sex vikur væru ekki nógur tími fyrir konur til að átta sig á því að þær væru þungaðar. 

„Þegar allt kemur til alls þá þarf ég að geta litið til baka og svarað spurningunni: Gerði ég það besta í stöðunni? Enginn hópur leitaði til mín og bað mig um að gera þetta. Þetta snýst um mína eigin afstöðu, mína eigin skuldbindingu,“ sagði Riepe í samtali við Flatwater Free Press.

Jim Pillen, ríkisstjóri Nebraska, var síður en svo ánægður með Riepe og biðlaði hann í yfirlýsingu um að endurskoða afstöðu sína og standa við þær yfirlýsingar sem hann hefði gefið út um „líf“.

Niðurstaðan í báðum ríkjum vakti mikla athygli vestanhafs en margir hafa sett tíðindin í samhengi við aukin ugg meðal Repúblikana um að binda sig um of við þungunarrofsumræðuna í aðdraganda kosninga, þar sem meirihluti Bandaríkjamanna styður rétt kvenna til þungunarrofs.