4 C
Grindavik
18. maí, 2021

Reynsluvélin

Skyldulesning

ah_photo-film-total-recall-ok-1500x844

Ímyndaðu þér að til væri reynsluvél sem þú gætir keypt í næstu raftækjaverslun, vatnsþéttur hjálmur sem þú setur á hausinn og hylur bæði augu og eyru á meðan þú liggur uppi í sófa. Í hjálminum eru rafsegulbylgjur sem hafa samskipti við bylgjurnar í heila þínum.

Þú getur valið alls konar reynslu með því að forrita hjálminn. Eftir því sem reynslan er yfirgripsmeiri og flóknari er hún dýrari. Ódýru pakkarnir eru eitthvað einfalt eins og strætóferð, hjólreiðatúr, skokk eða yoga-æfingar. Eftir því sem þú kaupir meiri viðbætur, geturðu bætt við manneskjum, gæludýrum, landslagi, jafnvel geimferðum til annarra pláneta og sögum þar sem þú getur farið í hvaða hlutverk sem þig langar í. Allt þetta virðist jafn raunverulegt og að opna ísskáp og fá sér sopa af Mysu.

Þú heldur, finnur og trúir að þú sért úti að hjóla á meðan þú liggur uppi í sófa. Hugsanlega kaupirðu þér göngutúr að eldgosi, þú kemst nálægt hrauninu, heyrir snarkið, drunur úr undirdjúpunum, finnur hitann, og jafnvel svimar þegar þú vindurinn blæs á þig gasi. Þú gætir gert eins og í kvikmyndinni „Total Recall“ (sem reyndar var gerð eftir skáldsögu Philip K. Dick), keypt þér upplifun og hlutverk þar sem þú ert njósnari hennar hátignar að leysa pólitísk vandamál á plánetunni Mars. Og upplifun þín verður svo raunveruleg að þú hefur ekki hugmynd um lengur að þú sért bara í gamla góða sófanum þínum. Þú gætir jafnvel lengt í þessari reynslu með þjónustu þar sem séð væri fyrir líkamlegum þörfum þínum.

Ef þessi reynsluvél væri til og virkaði jafnvel og veruleikinn á reynslu þína, væri þá heimurinn sem þú upplifir í reynsluvélinni jafn raunverulegur og sá veruleiki sem þú upplifir utan vélarinnar? 

Við erum kannski að nálgast slíka vél með sýndarveruleika en það er ennþá langt í land. Það að við upplifum eitthvað með sjón, heyrn, snertingu og jafnvægisskyni færir okkur mun nær slíkri reynsluvél, en við erum ekki enn komin það langt að við teljum reynsluna í sýndarveruleika vera á sama stigi og reynsluna utan hans. 

Ef þú hefðir aðgang að alvöru reynsluvél, vissir að þú gætir algjörlega tapað þér í þeim veruleika og hugsanlega gleymt þeim veruleika sem þú upplifir utan vélarinnar, myndirðu samt vilja tengjast og upplifa þennan vélræna veruleika? Myndir þú standast freistinguna? Myndir þú leyfa forvitninni að ráða, sérstaklega ef heilbrigðisyfirvöld hefðu lagt blessun sína yfir notkun tækisins?

Væri þetta sniðugt fyrir fólk sem líkar ekki við veruleikann eins og hann er? Væri gott að gefa fólki færi á að flýja inn í slíkan veruleika, jafnvel nota slíka reynsluvél til að refsa glæpamönnum, kenna nemendum um fjarlæga hluti – til dæmis sögulega atburði eða upplifa skáldsögu frekar en lesa hana, gefa sjúklingum tækifæri til að lifa frekar en að láta sér leiðast á sjúkrabeði, gefið dauðvona fólki tækifæri til að sjá heiminn í síðasta sinn og leyft ofurhugum að upplifa hættulega hluti án þess að það ógni lífi þeirra og limum?

Myndir þú vilja tengjast þessari reynsluvél? Ef já, hver væri reynslan sem þú vildir geta keypt þér, reynsla sem þú myndir trúa að væri jafn raunveruleg og allt það sem þú ert að upplifa hér og nú? Ef þú hefðir aðgang að vélrænum reynsluheimi sem þú hreinlega elskaðir, væri það þá áfall að hverfa frá honum og öllum þeim sem þú hefur kynnst þar, sérstaklega ef þú gætir ekki vistað veruleikann og komist til baka í hann seinna?

Mynd: Úr kvikmyndinni „Total Recall“ (1990) eftir Paul Verhoeven


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir