Rifu augun úr vinnuveitanda sínum og dóttur hennar í stjórnlausu morðæði – Skelfileg saga Papin systranna – DV

0
95

Morðin sem hinar frönsku Papin systur frömdu voru það skelfileg að þau trufla enn franska þjóðarsál og enn rökræða landsmenn um hvað varð til þess að systurnar frömdu slíkt ódæði. 

Flestir eru þó sammála að um sé að kenna einhvers konar blöndu af skelfilegri æsku systranna, þeirri stéttaskiptingu sem gerði systurnar svo að segja réttlausa þjóðfélagsþegna, svo og geðrænum vandamál. 

Papin systurnar voru þrjár, dætur Clémence og Gustave Papin, og var æska þeirra hryllileg.

Sú elsta hét Emilie, fædd árið 1902, foreldrum sínum til lítillar gleði.  Næst kom Christine, fædd árið 1905, og var hún jafnvel enn minna velkomin í heiminn og og var Lea yngst, fædd 1911, og fyllti fæðing hennar þau Clémence og Gustave enn meiri hrylling. 

Þeim var öllum misþyrmt hrottalega af foreldrum sínum 

Skelfilegir foreldrar

Clémence þótti engan vegin hæf móðir, hún þjáðist af miklu þunglyndi, og var Gustave engu betri í föðurhlutverkinu, enda illa haldinn alkóhólisti. 

Christine var því send til föðursystur sinnar við fæðingu og átti þar hamingjuríkt líf næstu næstu sjö árin og var þá send á munaðarleysingjahæli á vegum kaþólsku kirkjunnar. 

Gustave nauðgaði dóttur sinni, Emilie, þegar hún var níu ára gömul og sagði hún móður sinni hvað gerst hefði.

En í stað þess að reiðast manni sínum reiddist Clémence Emilie, sakaði hana um að tæla föður sinn og sendi hana á sömu stofnun og Christine dvaldi á. 

Það má telja líklegt að allar systurnar hafi þurft að þola sömu meðferð af hendi föður síns. Léa fylgdi fljótlega á systrum sínum eftir á sama munaðarleysingjahæli. 

Um leið og Emilie hafði aldur til gekk hún í klaustur og er talið að hún hafi dvalið þar til æviloka. 

Óaðskiljanlegar

Christine og Léa var afar nánar, reyndar óaðskiljanlegar. Þegar hælið vísaði þeim á dyr sökum plássleysis þurftu þær að fara heim til foreldra sinnar en heimilið var undirlagt drykkju, skapofsa, þunglyndi og hreinlega slagsmálum foreldra þeirra.

Þær fengu einnig að kenna á hnefunum reglulega.

Clémence og Gustave skildu eftir ástlaust, og reyndar ömurlegt, hjónaband árið 1913. 

Christine og Léa dvöldu á geðsjúkrahúsi um tíma eftir skilnaðinn. 

Stúlkurnar höfðu aftur á móti fengið þjálfun í eldamennsku, þvottum og þrifum á munaðarleysingjahælinu og um leið og þegar að dvölinni á geðsjúkrahúsinu lauk hófu þær störf sem vinnukonur á heimilum hinna vel settu.

Þær sóttust sérstaklega eftir því að geta unnið á sama heimilinu, enda gátu þær ekki hugsað sér að vera aðskildar. 

Duglegar en hæglátar

Léu var lýst sem þögulli, ómannblendinni og hlýðinni.

Christine var mun opnari, tjáði sig yfirleitt fyrir hönd þeirra beggja, og var álitin sú greindari af þeim systrum. Voru þær hörkuduglegar til vinnu en hæglátar og virtust enga umganga nema hverja aðra. 

Árið 1926 fengu systurnar vinnu hjá lögmanni sem sestur var í helgan stein, René nokkrum Lancelin, og eiginkonu hans, Léonie  Einnig var þar til heimilis uppkomin dóttir þeirra hjóna, Genevieve. 

Vinnuaðstæður óbreyttra vinnukvenna eins og Papin systranna voru ekkert til að hrópa húrra fyrir, 14 tíma vinnudagur og einn, eða jafnvel hálfur dagur vikulega í frí. Var Lancelin heimilið hvorki betra né verra en almennt gerðist á þessum árum.

Systurnar voru ánægðar. Þær fengu að vera saman, fengu nógan mat, regluleg laun og það sem var mikilvægast, voru lausar af munaðarleysingjahælinu og heimili foreldranna. 

Papin systurnar voru afar vinnusamar jafn þögular og umgengust enga nema hvor aðra og heimilismenn.

Christine til vinstri og Léa til hægri. Ekki eitt orð í sjö ár

En hvað fór úrskeiðis? 

Ýmsir þættir spiluðu inn í vaxandi spennu milli systranna og vinnuveitenda þeirra.

Christine enn í miklu áfalli vegna þess ofbeldis sem hún var beitt í æsku og gjörðir hennar oft ófyrirsjáanlegar. Léa var rólegri en fylgdi systur sinni í einu og öllu. 

Í ofanálag kom Léonie Lancelin illa fram við systurnar. Hún setti út á svo að segja allt sem þær gerðy, átti það til að klípa þær, gerði reglulega lítið úr þeim en lét sem sem þær væru ekki til þess í milli. 

Að því kom að hún hætti svo að segja að tala við þær og skrifaði einungis niður fyrirskipanir. Sama var að segja um dótturina Genevieve.

Húsbóndinn viðurkenndi síðar að hafa aldrei sagt eitt einasta orð við systurnar þau sjö ár sem þær unnu hjá honum. 

Það hafði enginn sýnt þeim gæsku eða komið vel fram við þær alla þeirra ævi. Ekki foreldrar þeirra, ekki starfsfólk munaðarleysingjahælisins og allra síst vinnuveitendur þeirra.

Þær höfðu aðeins hvor aðra og það er erfitt að segja hvað fór fram í þeirra prívat veröld en reiði og biturð Christine jókst með hverju árinu. 

Dagurinn örlagaríki

Þann 2. febrúar, 1933, dró þó til tíðinda. René Lancelin beið þá um kvöldið eftir eiginkonu sinni og dóttur, heima hjá mági sínum sem hafði boðið þeim til kvöldverðar. Höfðu þær farið að versla en lofuðu að mæta tímanlega í matarboðið. 

Mistök Lancelin mæðgnanna voru að koma við heima áður en þær fóru í kvöldverðinn.

Þennan dag höfðu systurnar verið senda að ná í straujárn úr viðgerð. En viðgerðin hafði ekki tekist betur en svo að þegar að þær settu það í samband slógu þær úr rafmagnið af húsinu. 

Í stað þess að sýna því skilning að bilað tæki hefði valdið rafmagnsleysi tók Leonie æðiskast á systurnar í reiði sinni. 

Aðkoman var skelfileg Morðin

Og þá sprakk Christine. Hún tók stóran vasa og henti í höfuð Leonie.

Þegar að Geneviève reyndi að koma móður sinni til bjargar, réðst Christine að henni, sneri hana niður og reif úr henni augun. 

Léa horfði á Christine og beið eftir fyrirskipun frá systur sinni sem sagði henni að gera slíkt hið sama við Leonie. Lea settist því ofan á Leonie og tók einnig úr henni augun. 

Mæðgurnar voru báðar blindar og slasaðar og gátu enga vörn sér veitt.

Systurnar náðu sér í áhöld skiptust á að berja þær og misþyrma með hamri, hnífum og reyndar hverju því sem þær fundu í húsinu sem gat skaðað. 

Árásirnar stóðu í tvo tíma og einhvern tíma á því tímabili létust mæðgurnar. Papin systurnar skáru andlitið svo af segja af mæðgunum, skáru þær í bringu, kynfæri og skáru af hluta af rassi þeirra. 

Að því kom að þær voru uppgefnar, fóru í herbergi sitt, afklæddust og lögðust upp í rúm og biðu eftir að René kæmi heim.  

Mynd/Getty Skelfileg aðkoma

René ákvað að fara heim úr matarboðinu og kanna hvar kona hans og dóttir væru. 

Þegar hann kom heim var niðamyrkur í ölllum gluggum og útidyrahurðin læst. René kallaði til lögreglu og klifraði einn lögregluþjónn yfir vegginn að húsabaki og þaðan inn í húsið.

Sjónin sem blasti við þeim var ólýsanleg. 

Lík mæðgnanna lágu á gólfinu og voru svo að segja óþekkjanleg. Augu þeirra lágu skammt frá og höfðu neglur þeirra verið rifnar af með rótum. Gólf og veggir voru gegnsósa af blóði.

Lögregluþjónar fikruðu sig með varúð upp á efri hæðir hússins. 

Uppi á hálofti fundu þeir systurnar þar sem þær sátu, íklæddar kímonó, á öðru rúminu og héldu hvor utan um aðra.

Þær játuðu undanbragðalaust að hafa banað mæðgunum og síðan farið úr blóði drifnum fötum sínum, klætt sig í kímonóa, og skolað morðvopnin.

Þær voru þegar handteknar.

Reyndi að klóra úr sér augun

Þegar komið var í fangelsið var  Lea þögul og virtist hrædd en Christine var stjórnlaus og reyndi meðal annars að klóra úr sér augun svo það varð að setja hana í spennitreyju.

 Hún fullyrti að hún ein bæri ábyrgð á morðunum, Léa hefði hvergi komið nærri.

Læknar voru fengnir til að meta systurnar og voru þeir einhuga um að báðar systurnar væru alvarlega veikar á geði og hættulegar sjálfum sér og öðrum. 

Morðin vöktu gríðarlega athygli og þrátt fyrir hversu grimmdarlega þau voru, var töluverða samúð að finna hjá almenningi með systrunum. Þær höfðu gengið í gegnum skelfilega hluti í æsku og fannst mörgum framkoma Lancelin hjónanna hafa verið til skammar. 

Væri stéttaskipting í landinu komin út í öfgar og tímabært að huga betur að framkomu hástéttarfólks við starfsfólk sitt sem væri pískað áfram, algjörlega réttlaust. 

Frávita af sorg

Systurnar voru aðskildar í varðhaldinu sem fór illa í þær og sér í lagi Christine. Hún varð nánast frávita og svo fór að yfirvöld sáu aumur á henni og leyfðu henni að hitta Léu.

Christine kastaði sér um háls systur sinnar og mátti, að sögn þeirra sem urðu vitni að því, leiða líkur að því að samband þeirra hefði verið af kynferðislegum toga. 

Um það verður ekki fullyrt eitt eða neitt hér.

Réttarhöldin hófust, í september 1933, dreif að múg og margmenni fyrir framan dómhúsið í Le Mans. Svo mikill var atgangurinn að lið lögreglu þurfti til að hafa hemil á áhugasömum almenningi.

Christine Papin Dómstólar höfðu enga samúð með systrunum og trúði kviðdómur ekki Christine þegar hún sagði Léu saklausa. 

Læknar, sem báru vitni við réttarhöldin, töldu næsta víst að Christine, sem var í meðallagi vel gefin, hefði verið ráðandi í sambandi systranna og að persónuleiki Léu, sem ekki var eins vel gefin, hefði nánast runnið saman við persónuleika Christine.

Á það var bent að geðrænna kvilla hefði orðið vart í fjölskyldu þeirra og faðir þeirra hefði nauðgað elstu systurinni. 

Endalokin

Til að gera langa sögu stutta þá voru Christine og Léa á endanum sakfelldar og fékk Christine dauðadóm. Tekið var vægar á Léu sökum stöðu hennar gagnvart vitsmunalega sterkari systur og fékk Léa 10 ára dóm.

Systurnar við réttarhöldin. Dauðadómnum yfir Christine var síðar breytt í lífstíðardóm eins og gjarna tíðkaðist þegar konur áttu í hlut.

Í fangelsinu sýndi hún merki um væga geðveiki auk þess sem augljóst var hve mikið hún saknaði systur sinnar. Hún lagðist í þunglyndi og átti það til að svelta sig.

Að lokum var hún færð á geðsjúkrahús í Rennes þar sem hún veslaðist upp og andaðist að lokum 18. maí, 1937.

Léu var sleppt úr fangelsi eftir átta ára afplánun. Hún settist að í Nantes, bjó þar með móður sinni og fékk vinnu á hóteli undir uppdiktuðu nafni.

Talið er að Léa hafi dáið árið 1982, en þeir eru þó til sem bera brigður á það.

Í heimildamynd um systurnar sem gerð var árið 2000 var fullyrt að Léa væri enn á lífi og telja margir að hún hafi i raun látist árið 2001.