2 C
Grindavik
7. maí, 2021

Risastór landfylling við Elliðaár

Skyldulesning

Byrjað var að reisa fyrstu húsin í hverfinu í fyrra. …

Byrjað var að reisa fyrstu húsin í hverfinu í fyrra. Búseti og Bjarg íbúðafélag byggja húsin.

Ljósmynd/Guðmundur Árnason

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum fyrir viku að veita Reykjavíkurborg framkvæmdaleyfi vegna 1. áfanga landfyllingar í Elliðaárvogi. Þarna hyggst borgin ráðast í gerð stórrar landfyllingar í þremur áföngum vegna fyrirhugaðrar stækkunar á Bryggjuhverfi vestur. 

Vegna nálægðar við Elliðaárnar hafa farið fram rannsóknir á ferðum laxa og urriða á ósasvæðum Elliðaáa og Leirvogsár og enn frekari rannsóknir þarf að framkvæma.

Fram kemur í gögnun málsins að heildarstærð landfyllingarinnar verður um 13 hektarar og efnisþörf er gróflega áætluð 1-1,2 milljónir rúmmetra. Fyllingarnar verða varðar með sjóvarnargörðum og er áætlað að 21 þúsund rúmmetrar af grjóti fari í garðana. Gert er ráð fyrir að gerð landfyllinganna geti tekið a.m.k. 3-4 ár eftir að framkvæmdaleyfi hefur verið gefið út.

Notast við efni frá Björgun

Við gerð 1. áfanga landfyllingarinnar verður að mestu notast við efni sem safnast hefur fyrir á athafnasvæði Björgunar, en fyrirtækið hætti starfsemi á svæðinu árið 2019. Ekki er fullmótað hvaðan efni verður fengið í gerð 2. og 3. áfanga. Þeir möguleikar sem eru fyrir hendi er að nýta efni úr jarðvinnuframkvæmdum, sjódælt efni, efni frá dýpkunarframkvæmdum og efni úr námum á landi.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur undirbúið framkvæmdir við áframhald fyrsta verkáfanga landfyllingar í Elliðaárvogi samkvæmt þeirri landþróun sem skilgreind er i Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 – 2030.

Framkvæmdin felur í sér viðbót við landfyllingu í samræmi við samþykkt deiliskipulag af Bryggjuhverfi vestur, svæði 4. Landfylling þessi er viðbót við landfyllingu í áfanga 1 og er nauðsynleg svo koma megi fyrir fráveitulögnum og gera lóðir á samþykktu deiliskipulagi byggingarhæfar. Gerður verður grjótvarnargarður meðfram vesturkanti landfyllingar. Einnig er ætlunin að byggja upp farghauga til að flýta fyrir sigi svo hægt sé að gera lóðir byggingarhæfar.

Framkvæmdin í heild (landfyllingin) fellur undir lög um umhverfisáhrif og er tilkynningar- og matskyld. Fyrir liggur skýrsla um mat á umhverfisáhrifum landfyllinga í Elliðaárvogi, dags desember 2016. Þar er landfyllingum skipt í 3 áfanga. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, dags. 17. mars 2017, liggur fyrir. Þar segir m.a. að framkvæmdum við 1. áfanga sé nægilega lýst, en frekari rannsóknar sé þörf fyrir 2. og 3. áfanga. Framkvæmdin sé háð framkvæmdaleyfi frá Reykjavíkurborg og háð leyfi Umhverfisstofnunar. Haft skuli samráð við Hafrannsóknastofnun um útfærslu varnargarða og afmarka framkvæmdatíma við göngur laxfiska.

Í áliti Skipulagsstofnunar dags. 17. mars 2017 segir m.a. „Jafnframt liggur fyrir tillaga Hafrannsóknastofnunar um tilteknar rannsóknir, mótvægisaðgerðir og vöktun hvað varðar áhrif framkvæmdarinnar á laxfiska. Skipulagsstofnun telur þessar breytingar á framkvæmdaáformum jákvæðar og til þess fallnar að endanlegar ákvarðanir um stærð og útfærslu landfyllingarinnar geti byggt á traustum upplýsingum og að draga megi eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum landfyllingarinnar. Ljóst er að enn er ósvarað veigamiklum spurningum um áhrif 2. og 3. áfanga landfyllingarinnar á laxfiska.“

Hafrannsóknastofnunin hefur skilað skýrslu um rannsóknir á göngum lax og sjóbirtings, sem gerðar voru árin 2017/18. Samkvæmt henni er talið ólíklegt að landfylling ein og sér hafi neikvæð áhrif á afkomu fullorðinna laxa en hugsanlegt sé að slík breyting á strandsvæðinu geti haft í för með sér breytingar á göngumynstri laxa á leið til hrygningar sem um leið gæti mögulega hnikað til göngutíma upp í ferskvatn. Þetta þurfi að rannsaka betur ásamt áhrifum landfyllingar á gönguseiði.

Fyrstu húsin eru að rísa

Fyrstu húsin byrjuðu að rísa í nýju íbúðahverfi Reykjavíkur, Bryggjuhverfi vestur, árið 2020. Þarna er gert ráð fyrir allt að 850 íbúðum, að hluta til á landfyllingum og að hluta til á fyrrum athafnasvæði Björgunar ehf. í Sævarhöfða. Það eru Búseti húsnæðissamvinnufélag og Bjarg íbúðafélag sem byggja á sameiginlegum byggingarreit 124 íbúðir í sex húsum í austurhluta nýja hverfisins. Arkþing annaðist arkitektahönnun og Ístak er byggingarverktaki. Fleiri íbúðarhús munu rísa þarna næstu misserin.

Bryggjuhverfi austur, við Elliðaárvog/Grafarvog, er fullbyggt. Uppbyggingin hófst fyrir rúmlega 20 árum, eða árið 1998. Þarna eru nú 600 íbúðir og skráðir íbúar um 1.100 talsins. Í hverfið hefur vantað ýmsa þjónustu, svo sem verslanir og skóla, en úr því verður bætt í Bryggjuhverfi vestur.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir