-1 C
Grindavik
21. janúar, 2021

Risavaxið verkefni fram undan

Skyldulesning

Guðbrandur Örn Arnarson, aðgerðastjóri Landsbjargar.

Guðbrandur Örn Arnarson, aðgerðastjóri Landsbjargar.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Verðmætabjörgun á Seyðisfirði hefst á milli jóla og nýárs, 27. desember. Þetta segir Guðbrandur Örn Arnarson, verkefnastjóri aðgerðamála hjá Landsbjörg. Skipulagið er þó háð því að búið verði að aflétta rýmingu á hættusvæðinu fyrir þann tíma.

Björgunarsveitir hafa undir stjórn almannavarna legið yfir skipulagi aðgerðanna en ljóst er að verkefnið er risavaxið og mun taka dágóðan tíma. Guðbrandur segir björgunarsveitirnar þó vel í stakk búnar fyrir verkefnið.  „Þetta er ekki í fyrsta skipti, því miður, sem við erum að sinna svona verkefnum,“ segir hann og vísar til annarra hamfara, þeirra helst snjóflóða.

Fjórtán hús eru hrunin eða mikið skemmd eftir aurskriðurnar, en inni í þeim tölum eru nokkrar skemmur. Teymi nokkurra björgunarsveitarmanna verður sent á hvert hús fyrir sig til að sinna björgunarstarfinu. 

Auk björgunarstarfs á heimilum þarf einnig að hreinsa mikið brak, lausamuni og aur um allan bæ. Áður hefur komið fram að forgangsatriði sé að hreinsa Hafnargötuna svo hægt verði að opna hana á ný. „Það er gríðarlega mikið brak í bænum vegna skriðanna og það þarf að koma í veg fyrir frekari tjón. Þá þarf að gera þau hús sem enn standa fokheld,“ segir Guðbrandur.

Fjórtán hús hið minnsta skemmdust í skriðunum. Þar eru með …

Fjórtán hús hið minnsta skemmdust í skriðunum. Þar eru með taldar nokkrar skemmur.

Kort/mbl.is

Mest áhersla á tilfinningaleg verðmæti

Þegar kemur að hinum skemmdu húsum er mest áhersla lögð á að bjarga tilfinningalegum verðmætum. „Verkefnin lúta að því að bjarga því sem eftir verður af eigum fólks sem missti aleiguna og þarna eru minningar mjög ofarlega á borði,“ segir Guðbrandur og tekur sem dæmi fjölskyldualbúm og harða diska. „Veraldlega hluti er hægt að bæta með peningum en minningar er erfitt að bæta nema okkur takist að bjarga einhverju.“

Af þeim sökum hafa björgunarsveitir og almannavarnir átt í nánu samstarfi við íbúa húsanna til að kortleggja eigur þeirra. „Lykilatriði er það að þetta sé unnið á forsendum heimamanna. Það þarf að sýna mikla nærgætni þegar farið er að moka upp heimili fólks.“

Húsið Breiðablik fluttist 50 metra með aurskriðu á fimmtudagskvöld.

Guðbjartur segir að vettvangurinn sé gríðarlega erfiður. „Þetta er aurflóð og það er mjög erfitt að bjarga munum úr svoleiðis. Það er nógu erfitt í snjóflóði en það er mun erfiðara í örflóði,“ segir Guðmundur.

Björgunarsveitarmenn hafi dregið mikinn lærdóm af fyrri hamförum um hvernig eigi að bera sig að í björgunarstarfi, lært af mistökum og því sem vel hefur verið gert. Þá eiga björgunarsveitir í samstarfi við Bláa skjöldinn, alþjóðasamtaka sem vinna að verndun menningararfs sem er í hættu vegna náttúruhamfara og stríðsátaka, vegna Tækniminjasafnsins sem er meðal ónýtu húsanna.

Rögnvaldur Ólafsson yfirlögregluþjónn og Ásgeir Erlendsson hjá Landhelgisgæslunni í stjórnstöð …

Rögnvaldur Ólafsson yfirlögregluþjónn og Ásgeir Erlendsson hjá Landhelgisgæslunni í stjórnstöð almannavarna.

Ljósmynd/Almannavarnir

Gert ráð fyrir vinnu út janúar

Guðbrandur segir að verið björgunarstarfið verði krefjandi og mannaflsfrekt enda mikill handmokstur. Spurður hvernig hafi gengið að safna liði, svarar hann: „Það hefur aldrei strandað á Landsbjörg að bregðast við og ég á ekki von á að það verði erfitt núna. Það er mikill samhugur, hlýja og velvilji í samfélaginu öllu.“ 

Hann segir þó erfitt að festa tölu á þann fjölda fólks sem þarf til við verkið. „Við höfum úr stórum lager að velja þannig að það verður ekki vandamál að takast á við þessi verkefni.“

Björgunarsveitir búi sig aldrei undir að verk verði einföld eða fljótunnin. „Við erum alltaf með plan A, B og C,“ segir hann og bætir við að það plan sem fyrir liggur geri ráð fyrir vinnu út janúar.

Innlendar Fréttir