5 C
Grindavik
12. maí, 2021

Röltu um miðborgina með golfsett

Skyldulesning

Yfirleitt er fólk ekki á rölti með golfsett í miðborginni …

Yfirleitt er fólk ekki á rölti með golfsett í miðborginni heldur frekar á golfvöllum landsins. Mynd úr safni.

AFP

Lögreglan hafði afskipti af tveimur mönnum í annarlegu ástandi á göngu í miðborginni með golfsett ( kvennasett ) á rafmagnskerru. 

Mennirnir sögðust hafa verið að kaupa settið og greitt fyrir það með fíkniefnum en þeir ætluðu í golf á morgun en gátu ekki nefnt einn golfvöll með nafni. Mennirnir eru þekktir hjá lögreglu og þá ekki fyrir að spila golf segir í dagbók lögreglu. Mönnunum var kynnt að búnaðurinn yrði haldlagður sem mögulegt þýfi þangað til þeir gætu sýnt fram á eignarétt sinn á búnaðinum.

 Tilkynnt var til lögreglu um hnupl úr verslun í Breiðholtinu (hverfi 109) í nótt. Kona, sem grunuð var um þjófnaðinn, var búin að skemma umbúðir vörunnar og borgaði hún því fyrir vöruna. Því var einungis lögð fram refsikrafa en ekki bótakrafa að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Lögreglan var einnig kölluð til í verslun í Kópavoginum (hverfi 200) um þrjú í nótt en þar hafði maður verið staðinn að búðarhnupli. Hann viðurkenndi brotið og var vettvangsskýrsla rituð.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna síðdegis í gær og gærkvöldi. Annar þeirra var einnig með fíkniefni á sér en hinn hefur ítrekað verið stöðvaður undir stýri þrátt fyrir að vera sviptur ökuréttindum.  Einn var stöðvaður ölvaður undir stýri auk þess sem hann er ökuréttindalaus. 

Bifreið sem lögreglan stöðvaði í Hafnarfirðinum (hverfi 221) í gærkvöldi var með rangt skráningarnúmer sem tilheyrði annarri bifreið og var aðeins eitt skráningarnúmer framan á bifreiðinni en númerslaus að aftan. Ökumaðurinn viðurkenndi brotið og sagðist hafa þurft að færa bifreiðina.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir