Ronaldo heimspekilegur þegar hann var spurður út í United – „Á toppi fjallsins er oft erfitt að sjá hvað er á botninum“ – DV

0
103

Cristiano Ronaldo segist vera betri maður í dag eftir að hafa upplifað erfiðleika hjá Manchester United, enska félagið rifti samningi hans í nóvember eftir frægt viðtal við Piers Morgan.

Ronaldo snéri aftur til Manchester United sumarið 2021 og byrjaði vel en það fór að halla undan fæti og Ronaldo virkaði pirraður innan sem utan vallar.

„Manchester United? Ég held að allt gerist í lífinu af ástæðu. Ég kann að meta það að hafa gengið í gegnum þetta til að sjá hverjir eru með mér í liði, á erfiðum tímum kemur það í ljós,“ segir Ronaldo.

Ronaldo gekk í raðir Al-Nassr í Sádí Arabíu en er nú mættur í verkefni með landsliði Portúgals. Þar tjáir hann sig í reynd í fyrsta sinn um Manchester United og hlutina þar.

„Þetta var ekki góður tími á mínum ferli sem atvinnumaður. Það er ekki tími í lífinu til þess að sjá á eftir hlutum, lífið heldur áfram. Þetta var hluti af því að þróast, á toppi fjallsins er oft erfitt að sjá hvað er á botninum og það gerðist hjá mér.“

„Núna sé ég það og þetta var lærdómur fyrir mig sem manneskju. Ég hafði aldrei upplifað svona áður. Ég er betri maður í dag.“

Enski boltinn á 433 er í boði