8 C
Grindavik
22. apríl, 2021

Rósa Björk til liðs við þing­flokk Sam­fylkingarinnar

Skyldulesning

Rósa Björk Brynjólfsdóttir gekk í dag til liðs við þingflokk Samfylkingarinnar. Hún hefur setið sem óháður þingmaður á Alþingi síðastliðna þrjá mánuði, en var þar áður í þingflokki Vinstri grænna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rósu Björk sem send var á fjölmiðla.

Rósa Björk segir að pólitískar áherslur sínar og Samfylkingarinnar séu nátengdar með mikilvægi á aukinn jöfnuð í samfélaginu þar sem allir geti notið sín á eigin forsendum, burtséð frá stétt eða stöðu. Það eigi líka við um frið og sjálfbærni og opið, framsækið og fjölbreytt samfélag með áherslu á virka fjölþætta utanríkisstefnu.

„Að undanförnu hefur Samfylkingin að auki lagt mun meiri og skýrari þunga á loftlagsmálin, og umhverfismálin en áður og lagt fram góða áætlun um græna viðspyrnu út úr Covid-19 kreppunni. Það gerir útslagið fyrir mig þegar kemur að því að taka þessa ákvörðun um að ganga í Samfylkinguna og þingflokk hennar. Ég hlakka mjög mikið til að taka þátt í starfi Samfylkingarinnar og að leggja mitt á vogarskálarnar til að bæta íslenskt samfélag,“ segir í tilkynningunni.

Þingflokksformaðurinn: „Hér á hún heima“

Eftir að Rósa Björk hefur gengið til liðs við Samfylkinguna eru nú átta þingmenn í þingflokknum. 

Vísir náði tali af Oddnýju G. Harðardóttur, þingflokksformanni Samfylkingarinnar, skömmu eftir að tilkynningin barst og sagði hún að Rósa Björk sæti nú sinn fyrsta þingflokksfund. 

„Við erum afskaplega ánægð að fá Rósu Björk til liðs við okkur. Hún er öflugur þingmaður og hér á hún heima.“

Oddný segir að enn eftir að ræða setu Rósu Bjarkar í nefndum fyrir Samfylkinguna en að það sé allt til skoðunar.

Átti ekki lengur samleið

Rósa Björk tilkynnti um úrsögn sína úr þingflokki Vinstri grænna í september þar sem hún sagði ástæðuna vera brottvísun egypskrar fjölskyldu sem mikið var til umfjöllunar. 

Hún sagði þá að málið hafi endanlega opnað augu hennar fyrir því að hún ætti ekki lengur samleið með Vinstri grænum.

Athygli vakti að Rósa Björk og Andrés Ingi Jónsson studdu á sínum tíma ekki stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þau sögðu sig bæði úr þingflokknum á kjörtímabilinu. Andrés Ingi situr enn sem óháður þingmaður.   

Fréttin hefur verið uppfærð.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir