7 C
Grindavik
23. apríl, 2021

Rósa sveik 30 milljónir út úr aldraðri frænku sinni og geymdi í bankahólfi á Akureyri

Skyldulesning

Landsréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms yfir Rósu Maríu Stefánsdóttur, 44 ára gömlum Akueyringi, fyrir fjársvik. Árið 2017 fékk hin ákærða aldraða frænku sína til að afhenda sér 30 milljónir króna í reiðufé, sem frænkan tók út úr banka. Hin ákærða setti geymdi peningana í bankahólfi.

Samkvæmt framburði frænku hennar fékk hin ákærða peningana lánaða til að standa straum af húsnæðiskaupum en hét að endurgreiða þegar húsnæðislán bærist. Hún keypti hins vegar ekki húsnæði en eyddi hluta af fénu í kaup á bíl og tölvu. Afganginn geymdi hún í bankahólfi.

Ákærða bar hins vegar að frænka hennar hafi gefið henni féð óbeðin.

Náinn ættingi öldruðu frænkunnar hafði samband við lögmann og hafði grun um að ákærða hefði svikið fé út úr gömlu konunni. Eftir það fór boltinn að rúlla og Rósa var handtekin.  Eftir handtöku fór lögregla með hana í bankann og lagði hald á megnið af fénu sem enn var í bankahólfinu, eða ríflega 27 milljónir. Það sem upp á vantaði tók hún út af bankareikningi sínum. Hefur nú allt féð verið endurgreitt og er ekki deilt um það.

Rósa bar fyrir dómi að hún væri stúdent frá MA, með búfræðigráðu frá Hólum og BS-gráðu í sálfræði frá HÍ. Auk þess hafi hún lokið framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum á Akureyri. Málið hafi komið til vegna mikilla veikinda hennar en Rósa er metin með fulla örorku.

Fram kom í mati öldrunarlæknis fyrir dómi að frænkan, sem var 79 ára, væri farin að tapa minni en væri þó ótvírætt ekki heilabiluð. „Þá væru teikn um skerta skipulagningu athafna og sveigjanleiki til hugsana væri lítill og hugsanlega verið svo alla tíð,“ segir í dómnum.

Fyrir dómi bar ákærða að hún teldi sig hafa orðið fyrir því láni að frænka hennar hafi ákveðið að reynast henni gjafmild. Hún viðurkenndi að atburðarásin í málinu væri reyfarakennd. Hún hafi síðan orðið ráðvillt þegar frænkan fór að ýja að því að um lán væri að ræða en ekki gjöf, eins og hún hafði talið.

Þáttur móðurinnar í málinu

Móðir Rósu hvatti hana til að leita til frænku sinnar um fjárhagsaðstoð, auk þess fór hún með henniog frænkunni á lögreglustöðina á Akureyri þar sem frænkan var fengin til að draga kæru á hendur Rósu til baka. Sagðist frænkan vilja losna við málið sem fyrst úr heiminum.

Lögreglustjórinn á Akureyri gaf hins vegar út ákæru í júlí 2018.

Héraðsdómur taldi sannað að ákærða hefði notfært sér einfeldni og fákunnáttu aldraðrar frænku sinnar, sem treysti henni, til þess að áskilja sér verulega hagsmuni, þannig að bersýnilegur munur hafi verið á þeim hagsmunum og endurgjaldi sem fyrir þá skyldu koma, eða að hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds. Háttalag ákærðu bendi til þess að hún hafi ekki verið í góðri trú í málinu. Taldi dómurinn hana vera brotlega við 253. grein hegningarlaga sem hljóðar svo:

„Hafi maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða það, að hann var honum háður, til þess að afla sér með löggerningi hagsmuna eða áskilja sér þá, þannig að bersýnilegur munur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því, sem fyrir þá koma eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum.“

Ákærða var fundin sek og dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hún var einnig dæmd til að greiða um 1,2 milljónir í málskostnað.

Landsréttur staðfestir dóminn

Landsréttur staðfesti þennan dóm í dag og hin ákærða skal greiða rúmlega hálfa milljón í áfrýjunarkostnað.

Í forsendum síns dóms segir Landsréttur meðal annars:

„Af samskiptum ákærðu og brotaþola leiddi að brotaþoli afhenti ákærðu 30 milljónir króna í seðlum. Hafði ákærða af þessu verulega fjárhagslega hagsmuni og samkvæmt framburði hennar átti í upphafi ekkert endurgjald að koma fyrir, enda gæti hún aldrei borgað alla fjárhæðina til baka, þótt síðar hafi verið rætt um vaxtalaust lán með óljósum endurgreiðslum. Brotaþoli var tæplega áttræð og hafði samkvæmt niðurstöðu dómkvadds matsmanns ekki góðar forsendur til að hafa heildaryfirlit yfir fjármál sín eða taka sjálfstæðar stærri ákvarðanir í fjármálum. Ráðstöfun hennar umrætt sinn var mjög óvenjuleg þegar horft er til fyrri sögu hennar enda bar ákærða fyrir dómi að það hefði komið mjög flatt upp á hana að brotaþoli vildi láta hana hafa alla þessa peninga. Í skilaboðum sem liggja fyrir í málinu kemur meðal annars fram hjá ákærðu að brotaþoli virðist „vera farin að gleyma og ruglast ansi mikið“ og í fyrstu skýrslu sinni hjá lögreglu lýsti hún efasemdum um fullan skilning brotaþola á fjármálum. Þá er ljóst að ákærða leitaðist við að halda nefndri ráðstöfun leyndri en hún kaus meðal annars að fá fjárhæðina afhenta í seðlum og þegar hún fékk fyrirspurn frá öðrum sem tengdust brotaþola, stuttu eftir að féð var afhent, svaraði hún ósatt í því skyni „að reyna að slá ryki í augu þeirra til þess að þau væru ekkert að skipta sér af þessu meir“. “

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir