Rósa varð fyrir ógnandi áreiti í síma – „Hann vissi hvar við værum“ – DV

0
149

Kona að nafni Rósa Bragadóttir varð fyrir óvenjulegu og óhugnanlegu símaáreiti í gær. Menn sem virtust hringja úr íslenskum símanúmerum töluðu við hana á ensku og buðu henni fjárfestingarkosti með afar ágengum hætti. Mennirnir brugðust reiðir við þegar Rósa afþakkaði að tala við þá. Voru tilburðir þeirra svo ógnandi að hún tilkynnti málið til lögreglu.

Eiginmaður Rósu, Ásgeir Ásgeirsson ljósmyndari – Geri X –, greinir frá málinu á Facebook og er frásögn hans eftirfarandi:

„Í dag fékk Rósa símtal frá íslensku símanúmeri sem er ekki í frásögur færandi, nema að þar er erlendur maður sem er mjög ýtinn að reyna að bjóða henni allskonar fjárfestingarkosti sem hún verði að taka þátt í að kaupa.

Samskiptin af hans hálfu á ensku og þegar hún stoppaði mannin af og benti honum á að hún væri bannmerkt bæði í síma- og þjóðskrá og hann mætti ekki vera að hringja í hana með einhver svona boð frekar en nokkuð annað samkvæmt fjarskiptalögum brást maðurinn hinn versti við og endaði á því að Rósa skellti bara á hann.

Nokkru síðar hringir annað íslenskt númer og erlendur karlmaður aftur á ferð að reyna að bjóða fjárfestingarkost og þá var Rósu nóg boðið og tilkynnti að símtalið yrði ekki lengra, þetta væri óumbeðin samskipti og áreiti sem yrðu tilkynnt til lögreglu. Hún tilkynnti málið til lögreglu enda orðið gott.

Núna rétt áðan hringir svo enn og aftur íslenskt númer og sami aðili á ferð sennilega, því Rósa er búin að gefast upp á þessu og rétti mér símann og ég svaraði og þar spurði maður af erlendu bergi m.v. framburð eftir Rósu. Ég tilkynnti honum að hún væri ekki við og um hvað málið snérist og þá varð hann reiður og sagði að hann vildi ræða við Rósu. Ég sagði honum að það myndi ekki gerast og sagði honum að hann hefði þegar verið tilkynntur til lögreglu.

Hann ákvað að enda samtalið af sinni hálfu á að spyrja hvort ég væri viss, hann vissi hvar við værum.

Rósa hefur þegar sent þetta til lögreglu líka, en ég velti fyrir mér hvað þurfi til að tekið sé afar hart á svona, sér í lagi ef menn hafa orðið í hótunum við fólk með að vita hvar það býr?!?“

Íslensk fjarskiptafyrirtæki með öryggisgalla Geiri segir í samtali við DV að honum þyki illt til þess að hugsa að eitthvert íslenskt fjarskiptafyrirtæki sé með öryggisgalla sem geri óvönduðum aðilum möguleika á að spegla íslensk símanúmer. Enn verra sé þó til þess að hugsa ef aðilar sem haga sér með þeim hætti sem maðurinn gerði í símanum í gær séu staddir hér á landi. „Aðilar sem gætu gert alvöru úr duldum hótunum sínum,“ segir hann.

„Það er í raun lítið mál að spegla símanúmer ef fjarskiptafyrirtæki er með lélegt öryggisnet á kerfum sínum,“ segir hann ennfremur.