Handbolti

HBOLD.DK
Rúnar Kárason verður ekki áfram í herbúðum danska úrvalsdeildarfélagsins Ribe-Esbjerg þegar núverandi keppnistímabili lýkur næsta vor.
Samningur hans við félagið rennur þá út og eftir þriggja ára dvöl í Danmörku gæti Rúnar verið á leið heim til Íslands. Þetta gaf hinn 32 ára gamli leikmaður til kynna í viðtali við handbolti.is í gær.
Þar sagði Rúnar að niðurskurður hjá Ribe-Esbjerg væri þess valdandi að miklar breytingar yrðu á leikmannahópi liðsins næsta vor.
Rúnar hefur leikið tólf leiktíðir erlendis sem atvinnumaður í Þýskalandi og Danmörku. Hann er ekki viss hvað tekur við en það kemur sterklega til greina að koma heim til Íslands.
„Eins og staðan er þá flytjum við sennilega heim í sumar. Allir draumar taka einhverntímann enda og mál kannski komið hjá mér að byrja að lifa hinu venjulega lífi,“ segir Rúnar meðal annars í viðtalinu.
„Það eru einhverjir möguleikar fyrir mig hér í Danmörku. Við sjáum hvað gerist þegar kemur fram í febrúar eða mars,“ segir þessi öflugi leikmaður einnig.
Viðtalið má lesa í heild sinni inn á vef handbolta.is.