Rússar hóta „aðgerðum“ eftir að Finnar gengu í NATO – DV

0
117

Rússnesk yfirvöld eru allt annað en sátt eftir að Finnar gengu formlega inn í Atlantshafsbandalagið, NATO, í morgun.

Finnar verða þar með 31. aðildarríki bandalagsins og er búist við því að Svíar muni fylgja á næstunni.

Atlantshafsbandalagið hefur lengi verið þyrnir í augum Rússa og hótuðu þeir öllu illu þegar Finnar og Svíar viðruðu þá hugmynd á sínum tíma að sækja um aðild að bandalaginu eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Eftir að aðild Finna var staðfest í morgun brugðust Rússar við með því hóta „mótvægisaðgerðum“ af einhverju tagi. Hefur Rússum orðið tíðrætt um stigmögnun í deilum þeirra við Vesturlönd og telja þeir að aðild Finna ýti frekar undir þessa stigmögnun.

„Stækkun NATO er árás á öryggi okkar og hagsmuni rússnesku þjóðarinnar. Þetta þvingar okkur til að grípa til mótvægisaðgerða,“ sagði Dmitrí Pekov, talsmaður stjórnvalda í Moskvu, en fór ekki nánar út í það hvað gæti falist í þessum aðgerðum.