2 C
Grindavik
24. nóvember, 2020

Sagði veiruna sökudólginn á Landakoti

Skyldulesning

Már Kristjánsson, formaður farsóttarnefndar Landspítalans og yfirlæknir smitsjúkdómadeildar.

Már Kristjánsson, formaður farsóttarnefndar Landspítalans og yfirlæknir smitsjúkdómadeildar.

Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Engin mistök voru gerð í aðdraganda þess að hópsýking vegna kórónuveirunnar kom upp á Landakoti. Þetta sagði Már Kristjánsson, formaður sóttvarnaefndar Landspítalans og yfirlæknir smitsjúkdómadeildar í Kastljósi.

„Ég sé ekki nákvæmlega í hverju það ætti að vera fólgið. Þetta eru kringumstæður og það er veirufaraldur í gangi,“ sagði Már og bætti við: „Það er veira þarna úti og það er hún sem er sökudólgurinn.“

Fréttamaður Kastljóss, Einar Þorsteinsson, nefndi það skömmu áður að tólf hafi látist vegna hópsýkingarinnar og enginn hafi viðurkennt að ein einasta röng ákvörðun hafi verið tekin. Már sagði viðbragðsáætlanir vera til staðar, kennslu starfsfólks, stöðugar áminningar um persónulegt hreinlæti, grímuskyldu og heimsóknarbönn. Starfsfólkið hafi það að lífsviðurværi að sinna öldruðu fólki.

„Við erum í þessum bransa til þess að reyna að tefja og hefta útbreiðslu veirunnar. Það er ekki raunhæft að þú lendir ekki í þessu,“ sagði Már og bætti við að fimm faraldrar hafi komið upp á Landspítalanum síðan þriðja bylgja hófst. „Við erum alltaf að glíma við þetta en við höfum aldrei lent í viðlíka útbreiðslu eins og á Landakoti enda er það húsnæði lang-langsíst til þess fallið að halda utan um svona faraldur.“

Landakot.

Landakot.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Gripið til heilmargra aðgerða

Spurður af hverju ekki var farið strax í aðgerðir á borð við að hólfa niður húsnæðið sagði Már að ekki hafi verið hægt að horfa í kristalskúlu og spá fyrir um faraldur á Landakoti. Hann sagði að gripið hafi verið til heilmargra aðgerða á Landakoti. Meðal annars hafi verið opnuð níu rúma deild á fimmtu hæð og fjölbýlum fækkað. „Það var ekki fullnægjandi og okkur er það alveg ljóst. Um leið og smitið kemur upp með þessu mikla magni þá grípum við til ráðstafana og náum að snúa þetta niður á viku tíma.“

Hann sagði að á Landakoti færi fram endurhæfing fyrir fullorðið fólk sem þarfnast mikillar nándar. Sömuleiðis sagði hann að bætt hafi verið í sóttvarnir frá því í vor og nefndi að íkomustaðir veirunnar hafi verið margir á faraldurstímanum.

Innlendar Fréttir