Saka Jökul um að ljúga upp í opið geðið á fólki – „Þetta er eins og ömurlegur kafli í bók eftir mömmu hans“ – DV

0
18

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar er sakaður um að reyna vísvitandi að villa fyrir andstæðingum sínum með því að skila inn vitlausum skýrslum og breyta þeim svo skömmu fyrir leik.

Þetta gerðist í leik Stjörnunnar og Breiðabliks á sunnudag og skrifaði Sæbjörn Steinke pistil um málið á Fótbolta.net í gær.

Málið var svo tekið til umræðu í Þungavigtinni í gær þar sem Jökull fékk hressilega á baukinn. „Skömmu síðar eru gerðar nokkrar breytingar á liðsvali Stjörnunnar, menn færðir á bekkinn og öfugt. Þetta er held ég í þriðja sinn sem Jökull geri þetta. Jökull segir að liðstjórinn sé erlendis og þetta hafi verið mistök,“ segir Ríkharð Óskar Guðnason um málið.

Ekki var um að ræða eina breytingu heldur var sem dæmi Emil Atlason kynntur sem varamaður klukkutíma fyrir leik þegar skýrslan á að vera klár samkvæmt reglum KSÍ. Jökull og Stjarnan fóru svo í breytingar eftir það.

„Þetta er galið hjá Jökli, Stjarnan er ekki Fylkir. Þó liðstjóri sé erlendis þá er bara annar á vellinum,“ sagði Kristján Óli og vandar Jökli ekki kveðjurnar.

„Þetta er kjaftæði, þetta er eins og ömurlegur kafli í bók eftir mömmu hans Jökuls. Elísabetu (Jökulsdóttir) sem enginn nennir að lesa, settu bara byrjunarliðið inn,“ sagði Kristján Óli reiður.

Mikael Nikulásson fyrrum þjálfari KFA segir að svona mistök geti ekki gerst nema að menn ætli sér að gera þau.

„Ég hef verið að þjálfa, það þarf að græja þetta og prenta hana út. Það þarf að skrifa undir skýrsluna, það þarf að gera það sirka klukkutíma fyrir leik. Það er skilda að birta skýrsluna klukkutíma leik, þarna er bara enn einn leikþátturinn í Garðabænum sem er farin að fara í taugarnar á mér. Það er verið að reyna að villa um fyrir andstæðingnum. Ég veit ekki hvort það eigi að taka stig af Stjörnuna, rétt skýrsla á að koma klukkutíma fyrir leik. Menn geta meiðst og þá eru breytingar, þetta er galið. Það ætti bara að taka 1-2 stig af Stjörnunni, þá kannski hætta þeir“ segir Mikael og segir útskýringar Jökuls hreinlega vera lygi.

„Þetta er lygi, að liðstjóri sé í útlöndum.“