Sakaður um að hafa tekið geldingar á karlmönnum upp fyrir „geldingavefsíðu“ – DV

0
145

Marius Theodore Gustavson, 45 ára, er einn níu manna sem voru handteknir á miðvikudaginn í Lundúnum, Skotlandi og Wales. Gustavson er sagður vera forsprakki hópsins sem stundaði það að taka upp myndbönd af geldingum karlmanna og birta á sérstakri vefsíðu. Sky News skýrir frá þessu og segir að mennirnir séu grunaðir um að hafa skorið limi og eistu af karlmönnum og tekið þetta upp á myndbönd. Aðgangur var síðan seldur að þessu myndefni á vefsíðu þeirra.

Gustavson er einnig grunaður um að hafa framleitt og dreift barnaklámi.

Gustavson var færður fyrir dómara á miðvikudaginn þar sem gæsluvarðhaldskrafa yfir honum var tekin fyrir. Kom þá fram að búið væri að fjarlægja getnaðarlim Gustavson, fótlegg og geirvörtu.

Lögreglan segir að fórnarlömb hópsins séu 13 talsins og hafi afbrotin átt sér stað á árunum 2016 til 2022.