3 C
Grindavik
28. febrúar, 2021

Sakar þingmenn um að taka sérhagsmuni framyfir hagsmuni neytenda

Skyldulesning

Verð á innfluttum landbúnaðarvörum frá ríkjum Evrópusambandsins mun að öllum líkindum hækka töluvert í verði upp úr áramótum vegna lagabreytinga sem verið er að ganga frá á Alþingi. Fjölmörg samtök leggjast gegn breytingunni en hún er rökstudd með stuðningi við innlendan landbúnað.

Um síðustu áramót var breytt um aðferð við verðlagningu á tollakvóta á innfluttum landbúnaðarvörum. Það leiddi til þess að vörur eins og kalkúnabringur lækkuðu töluvert mikið í verði. Alþingi er hins vegar þessa stundina að afgreiða breytingu á búvörulögum sem mun fara með aðferðina aftur til fyrri vegar sem mun leiða til þess að innfluttar kalkúnabringur og nautalundir til dæmis munu hækka í verði um mörg hundruð krónur hvert kíló.

Hér varð fréttamanni fótaskortur á tungunni því um er að ræða kalkúnabringur en ekki kjúklingabringur í þessu tilviki.

Breytingarnar áttu samkvæmt frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðarráðherra að gilda í eitt ár til að bæta stöðu innlendrar framleiðslu vegna minni eftirspurnar í kórónuveirufaraldrinum. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda undrast að atvinnuveganefnd bæti um betur og legg til að breytingarnar vari í þrjú ár.

Ólafur Stephensen segir meirihluta atvinnuveganefndar taka sérhagsmuni fram yfir hagsmuni neytenda með ákvörðun sinni.Stöð 2/Arnar

„Samtök bæði verslunar í landinu og almennings eins og Neytendasamtökin og Alþýðusambandið auk Samkeppniseftirlitsins lögðust eindregið gegn frumvarpinu eins og það var. Eins slæmt og það var,“ segir Ólafur.

Nefndin geri frumvarpið þrefalt verra fyrir verslunina og neytendur.

„Innflytjendur munu þurfa að greiða meira fyrir innflutningskvótana og það fer að sjálfsögðu út í verðlagið. Enda er það tilgangurinn með þessum aðgerðum. Að vernda innlenda framleiðslu með því að gera útlendu framleiðsluna dýrari og þá geta innlendir framleiðendur haldið uppi verðinu á sinni framleiðslu,“ segir Ólafur.

Bæta ætti bændum og afurðastöðvum kórónukreppuna með sama hætti og örðum atvinnugreinum með almennum aðgerðum.

„Bændur fái til dæmis beinan stuðning. Afurðastöðvar hafi aðgang að hinum almennu úrræðum eins og styrkjum, lánum og annað slíkt ef þær uppfylla skilyrðin.“ Í stað þess að senda neytendum reikninginn á sama tíma og tuttugu og fimm þúsund manns séu án atvinnu.

„Horfðu á úr hvaða kjördæmum þingmennirnir í meirihluta atvinnuveganefndar koma. Þeir eru að ganga erinda þröngra sérhagsmuna. Það er nú bara svo einfalt,“ segir Ólafur Stephensen.


Tengdar fréttir


Formaður Neytendasamtakanna segir ósanngjarnt að neytendur verði látnir borga stuðning við bændur með því að hækka álögur á innfluttar landbúnaðarvörur í skjóli kórónuveirufaraldursins. Nær væri að veita bændum beinan stuðning eins og örðum atvinnugreinum.


Ferðamönnum til Íslands hefur fækkað stórlega með tilkomu Covid 19. Hótel og matsölustaðir standa tómir, samdráttur í ferðaþjónustu hefur víða áhrif. Blikur eru á lofti í íslenskum landbúnaði, mun minni sala hefur verið á íslenskum landbúnaðarvörum en í venjulegu árferði.


Fjármálaráðherra telur betra að reyna að semja upp á nýtt við Evrópusambandið um tolla á landbúnaðarvörum en segja samningunum upp eins og formaður Framsóknarflokksins hefur lagt til.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.


Fleiri fréttir

Sjá meira

Innlendar Fréttir