1 C
Grindavik
18. janúar, 2021

Salmann Tamimi er látinn

Skyldulesning

Salmann Tamimi lést í gær 65 ára gamall. Hann er forstöðumaður Félags múslima á Íslandi.

Félag Múslima á Íslandi greindi frá andláti Salmann Tamimi nú í morgun á Facebooksíðu sinni. Þar segir:

„Í gærkvöldi lést forstöðumaður Félags múslima á Íslandi, Salmann Tamimi. Þessa manns verður sárt saknað. Við viljum minna fólk á að bera virðingu fyrir aðstæðum sem fjölskylda hans er í og fara ekki heim til hans og hringja i fjölskyldumeðlimi stanslaust. Það eina sem við getum gert núna er að biðja Allah að blessa sál hans og inshallah hann verður háttsettur í paradís.“

Salmann fæddist í Palestínu árið 1955 og ólst upp í Jerúsalem. Salmann flutti til Íslands árið 1971, þá sextán ára gamall. Hann var þá á leið til Bandaríkjanna en heimsótti bróður sinn hér á landi á leiðinni og ákvað að setjast hér að.

Salmann vann á sjó og í byggingariðnaði áður en hann lauk námi í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Þá starfaði Salmann um tíma á Landspítalanum. Hann bjó um tíma í Svíþjóð en síðustu ár var hann búsettur í Breiðholti í Reykjavík.

Salmann Tamimi lét til sín taka á Íslandi í samfélagsumræðu og stóð meðal annars í stórræðum í tengslum við langvinna og oft hatrama umræðu um byggingu mosku við Suðurlandsbraut. 

Salmann lætur eftir sig eiginkonu, fimm börn og ellefu barnabörn.

Salmann kom oft fram í viðtölum fyrir hönd múslima á Íslandi, meðal annars ítarlega í útvarpsþættinum Harmageddon sem sjá má að neðan.

Innlendar Fréttir