5 C
Grindavik
8. maí, 2021

Samdráttur minni hjá Íslendingum en Norðmönnum

Skyldulesning

Gullver við löndun á Seyðisfirði. Samdráttur í útflutningsverðmæti sjávarafurða í innlendri mynt í janúar og febrúar var minni á Íslandi en í Noregi.

mbl.is/Þorgeir Baldursson

Útflutningsverðmæti sjávarafurða var mun minna fyrstu tvo mánuði þessa árs borið saman við sama tímabil í fyrra, en samdrátturinn var mun minni hér á landi en í Noregi ef tölur eru skoðaðar í gjaldmiðli hvers lands.

Í heild fluttu Norðmenn út sjávarafurðir fyrir 16,9 milljarða norskra króna í janúar og febrúar sem er 10,6% minna en á sama tímabili í fyrra þegar útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 18,9 milljörðum norskra króna. Til samanburðar nam útflutningsverðmæti sjávarafurða hér á landi 47,8 milljörðum íslenskra króna í janúar og febrúar í fyrra, en fyrstu tvo mánuði á þessu ári var flutt út fyrir 44,5 milljarða íslenskra króna. Samdrátturinn á Íslandi nemur því aðeins 6,9%.

Sérstaka athygli vekur að hlutur veiddra sjávarafurða Norðmanna breytist ekkert milli ára en 15,3% samdráttur verður í eldisfiski, en hlutfall eldis í útflutningsverðmætum sjávarafurða Norðmanna á tímabilinu er tveir þriðju. Dæmið er öfugt hjá Íslendingum þar sem útflutningsverðmæti eldisafurða stendur í stað á meðan veiddur fiskur dregst saman um 7,9%, en hann er jafnframt megnið af verðmætunum.

Mynd/mbl.is

Betri staða í febrúar

Fram kemur á vef markaðsstofu norskra sjávarafurða, Norges sjømatråd, að samdrátturinn hefði líklega verið meiri í Noregi ef ekki hefði verið fyrir þá staðreynd að magnið í ákveðnum tegundum eins og lax og síld var í sögulegum hæðum í febrúar. Jókst til að mynda salan af eldislaxi í magni um 20% í febrúar, en verð var 5% lægra á mörkuðum í febrúar en í sama mánuði í fyrra. Í janúar var verð á laxi 23% lægra en á sama tíma í fyrra. Byrjaði því árið ekki vel fyrir norsku eldisgreinina.

Þorskurinn kom Norðmönnum til bjargar og jókst til að mynda salan á saltfiski um 12% í janúar á þessu ári borið saman við sama mánuð í fyrra auk þess sem verð var 2% hærra. Erfiðara var fyrir ferskan þorsk sem dróst saman um 34% í magni í janúar, en þetta snerist við í febrúar þegar magnið jókst um 25% miðað við sama mánuð í fyrra. Þá var verð 2% hærra í febrúar.

Meiri lax

Hvað íslenskar afurðir varðar dróst útflutningsverðmæti flestra veiddra afurðaflokka saman í febrúar á þessu ári borið saman við sama mánuð í fyrra, að því er fram kemur á Radarnum. Er það þó að ferskum afurðum og lýsi undanskildu. Minna magn var flutt út í janúar en sama mánuð í fyrra. Auk þess sem langflestar afurðir höfðu lækkað í verði á tímabilinu í erlendri mynt og er á Radarnum gert ráð fyrir að það eigi einnig við um febrúar.

mbl.is/Þorgeir Baldursson

Útflutningsverðmæti íslenskra eldisafurða stendur í stað milli ára á fyrstu tveimur mánuðum ársins og má ætla miðað við lægra markaðsverð á laxi, sem vegur mest, að magn hafi aukist milli ára. Skýring þess er bæði að framleiðsla fiskeldisins hefur aukist almennt, en einnig verður að hafa í huga að í fyrra tafðist slátrun verulega í fiskeldinu vegna stöðugrar ótíðar sem stóð frá desember fram í febrúar. Tafirnar og veðurfarið varð meðal annars til þess að 500 tonn af laxi drápust í kvíum Arnarlax í Arnarfirði.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir