8.3 C
Grindavik
25. september, 2022

Samfylkingarfólk í hár saman vegna yfirlýsingar Þróttar – „Höldum þessu samtali á örlítið hærra plani“

Skyldulesning

Aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Þróttar sendi í gær frá sér yfirlýsingu vegna tillagna Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Laugardalnum.

Aðalstjórnin er vægast sagt ósátt með tillögurnar þar sem í þeim er bygging þjóðarhallar fyrsti kostur. „Bygging þjóðarhallar er fyrsti kostur en horfið frá byggingu íþróttahúss fyrir íþróttafélög og skóla sem þjóna eiga börnum og unglingum. Þessar tillögur ganga þvert gegn áherslu fyrrnefndrar viljayfirlýsingar og taka með engu móti tillit til brýnnar þarfar á nýju íþróttahúsi í hverfinu,“ segir stjórnin í yfirlýsingunni.

Sjá meira: Þróttur og Jón Arnór hjóla í Dag – „Er Degi alveg sama?“

„Óhætt er að fullyrða að þessar nýju tillögur séu í andstöðu við skýran vilja íbúa hverfisins og geri samráð og samstarf fulltrúa borgarinnar og íþróttafélaganna undanfarin mörg ár að engu.“

„Ekkert nema svik frá borgarstjóra“

Athygli hefur verið vakin á yfirlýsingunni í hóp Þróttara á Facebook sem kenndur er við stuðningsmannasveit félagsins, Köttara. Í athugasemdunum má greina mikla reiði í garð yfirvalda í borginni þar sem félagið hefur verið látið sitja á hakanum í fjölmörg ár. „Ekkert nema svik frá borgarstjóra öll þessi ár sem hafa farið í þessa vinnu,“ segir til að mynda einn Þróttari í athugasemdunum í hópnum.

„Við höfum þurft að búa við þessa ömurlegu framkomu núverandi borgarstjóra allt of lengi. Loforð eru svikin aftur og aftur eins og ekkert sé eðlilegra. Það er til háborunnar skammar hvernig þetta apparat leyfir sér að koma fram við okkur íbúana, börnin, skólana og íþróttafélögin,“ segir svo Finnbogi Hilmarsson, fyrrum formaður Þróttar.

Eiginmaður Heiðu kemur borgarstjóra til varnar

Fleiri taka í svipaða strengi í athugasemdunum þar til Hrannar Björn Arnarsson skerst í leikinn. Hrannar er nokkuð tengdur borgaryfirvöldum þar sem hann er eiginmaður Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, borgarfulltrúa og varaformanni Samfylkingarinnar „Hér er ekki töluð tæpitunga og greinilegt að aðalstjórn Þróttar hefur fundið sér heppilegan andstæðing í borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni…“ segir Hrannar í athugasemdunum og kemur svo borgarstjóranum til varnar.

„Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á tilefni þessara ofsafengnu ályktunar stjórnarinnar, að minnsta kosti ekki ef hún er hugsuð sem viðbrögð við afgreiðslu borgarráðs 27. janúar síðastliðins, á niðustöðu starfshóps borgarinnar um skipulag- og mannvirkjamál í Laugardal. Þar er í einu og öllu unnið í samræmi við niðurstöðu sameiginlegar yfirlýsingar Þróttar, Ármanns og borgarstjóra og það sem meira er, sérstaklega fjallað um mikilvægi þess að aðstaða félaganna verði bætt – annaðhvort með nýju húsi eða endurbættri Laugardalshöll.“

Hrannar veltir því þá fyrir sér hvort aðalstjórn Þróttar sé að vísa í eitthvað annað. „Ég hvet Köttara og aðra áhugasama, til að lesa amk þessar fáu línur úr niðurstöðum starfshópsins (tillögu borgarstjóra) og helst af öllu, alla skýrsluna… að minnsta kosti áður en þeir ná í heykvíslarnar og kindlana í nafni Þróttar,“ segir hann svo og vísar í skýrsluna.

Samfylkingarfólk í hár saman

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, fyrrum varaþingmaður Samfylkingarinnar, tekur þá til máls og svarar Hrannari. Þannig að forsenda þess að börn og unglingar í hverfinu fái nýtt íþróttahús er að EKKI náist samningar um fjármögnun þjóðarleikvangs á milli ríkis og borgar? Hljómar ekki eins og verið sé að setja börn og unglinga í Laugardal í forgang,“ segir Jóhanna.

„Aðstöðunni fyrir börnin i hverfinu er lofað, annaðhvort í endurbættri Laugardalshöll eða nýju húsi – í samræmi við samkomulagið við foryst þróttar, og því sett skýr tímamörk,“ segir þá Hrannar.

Jóhanna segir þá að henni sýnist sem að aðalstjórn Þróttar sé ekki hrifin af hugmyndinni um gömlu Laugardagshöllina. „Sjálf tel ég hana langsótta. Það verða ansi margir leyfishringir sem þarf að stökkva í gegnum þar, sem mun taka mörg ár að klára, og þá á eftir að endurhanna, fá það samþykkt, bjóða út, fá kærur á útboð…allt áður en framkvæmdir geta yfirleitt hafist,“ segir hún svo.

„Má ég þá frekar biðja um hús sem er hannað með þarfir barna og unglinga í hverfinu í forgangi – ekki tilraun til að finna mannvirki, sem legið hefur undir skemmdum árum saman, hlutverk.“

„Höldum þessu samtali á örlítið hærra plani“

Hrannar svarar þá Jóhönnu til baka. „Má vera, en um þetta samdi þó aðalstjórn þrottar við borgina… en tryllist nú þegar eftir þvi er farið og vill segja upp samkomulaginu. Minni síðan á að þrotti stóð til boða að fá Framheimilið og allt það hverfi… en það hús nýtir nú Víkingur það eg best veit fyrir innibolta,“ segir hann.

Jóhanna er þá ekki sátt með orðalag Hrannars. „Hér finnst mér nú heldur ómaklega vegið að aðalstjórn Þróttar, fólki sem hefur árum saman unnið að því að tryggja börnum hverfisins sómasamlega aðstöðu til íþróttaiðkunar. Ég merki ekki að neinn „tryllist“ – hér er fólk í sjálfboðavinnu að reyna að bæta hverfið okkar. Virðum það og höldum þessu samtali á örlítið hærra plani,“ segir hún.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir