9.3 C
Grindavik
25. september, 2022

Samsæriskenning

Skyldulesning

Miðvikudagur, 16. febrúar 2022

Samsæriskenning

Ég hlustaði á viðtal við Pál Vilhjálmsson á Bylgjunni í morgun. Ég sé að það er bara rúmar 16 mínútur en mér leið eins og það væri langtum lengra. Ég hlustaði drjúga stund á leið út úr húsi og svo alla leið á áfangastað.

Hvað sagði framhaldsskólakennarinn í viðtalinu? Jú, hann hafði áhyggjur af því að skipstjóra hefði verið byrlað eitur þannig að hann missti meðvitund, hefði verið fluttur á spítala þar sem starfsmenn RÚV hefðu stolið af honum símanum, farið með hann upp í Efstaleiti, stolið af honum gögnum, skilað símanum, sagt svo upp störfum í snatri, ráðið sig til annarra fjölmiðla og lekið gögnum af símanum til þeirra fjölmiðla. Meðal lekinna gagna voru upplýsingar um skrímsladeild Samherja sem á að vera innanhússgrín skipstjórans og lögfræðings Samherja.

Ég er ekki fjölmiðill sem fer endilega í mikla rannsóknarvinnu heldur bloggmiðill sem skrifa stundum eftir minni. Þið sem lákuð hingað inn fyrirgefið mér vonandi þótt ég skauti í fimm setningum yfir 16,5 mínútur af einræðu kennarans enda vísa ég á frumheimildina í fyrstu línu. Áhugasamir sem misstu af geta hlustað í tækjunum sínum.

Og af því að ég er alveg víðáttukærulaus bloggari ætla ég að segja að mér finnst metnaðarlítið af kennaranum sem hittir margar ungar stúlkur á hverjum degi í vinnunni að hafa ekki sjáanlegar áhyggjur af því að ungu nemendunum hans hafi verið byrluð ólyfjan úti á meðal fólks.

Ég er á móti því að eitrað sé fyrir fólki en atburðarásin sem ég dró saman í nokkrar línur er svo ótrúverðug að ég get að svo stöddu sáralítið gefið fyrir baráttu Páls fyrir réttlæti og sanngirni. Ef ég hefði ekki eingöngu heyrt kennarann verja vondan málstað hefði ég kannski lagt betur við hlustir. Og skildi ég ekki rétt að hann liti svo á að út af þessu væri lögreglustjórinn á Akureyri, áður lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum sem gaf lítið fyrir umræðu um nauðganir á þjóðhátíð, að kalla blaðamenn í skýrslutökur?

Og gaf hann ekki líka í skyn að starfsfólk á fréttastofu RÚV væri nú farið í stórum stíl út af alls konar lekum?

Ég vil endilega vita hið sanna og mun fylgjast með framvindu allra þessara mála en mér finnst samsæriskenningin um að Þorsteinn Már sé varnarlaus kettlingur ekki trúleg.


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir