4 C
Grindavik
1. mars, 2021

Sannfæring þingmanna og pólitískur veruleiki

Skyldulesning

Fimmtudagur, 3. desember 2020

Þingmenn eiga að sjálfsögðu að fylgja sannfæringu sinni og enginn getur gagnrýnt þá fyrir það. En kannski mætti gagnrýna þá fyrir það að gera það ekki oftar.

Nú hafa tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Óli Björn Kárason og Páll Magnússon, lýst því yfir að þeir styðji ekki óbreytt hálendisfrumvarp umhverfisráðherra, að því er fram kemur á mbl.is, netútgáfu Morgunblaðsins. Ef rétt er skilið eru þeir ekki mótfallnir friðun miðhálendisins en hafa athugasemdir við nánari útfærslu hennar, sérstaklega varðandi þau sveitarfélög, sem við sögu koma.

Andstaða þeirra er ólíkleg til að koma í veg fyrir samþykkt frumvarpsins, þar sem ætla verður að það njóti stuðnings meðal stjórnarandstöðuflokkanna, alla vega meðal einhverra þeirra.

Hins vegar verða þingmenn í störfum sínum að horfa bæði til hægri og vinstri. Samstarf núverandi stjórnarflokka hefur gengið vel, þótt ólíkir séu. En það eru vísbendingar um, að Framsóknarflokkurinn sé farinn að horfa til vinstri í aðdraganda næstu kosninga og að VG sé komið að þolmörkum.

Náist ekki viðunandi samkomulag á milli stjórnarflokkanna um friðun miðhálendisins getur það orðið til þess að hnökrar komi á samstarfið og líkur aukist á því, að ný vinstri stjórn verði að veruleika í kjölfar næstu kosninga.

Það er sá pólitíski veruleiki, sem Sjálfstæðisflokkurinn kann að standa frammi fyrir.

Innlendar Fréttir